Fyrir nokkrum áratugum varð til hin fullkomna íslenska aðferð til að steypa fólki í skuldir með hjálp verðbólgunnar. Verðtryggingu var komið á. Eftir sitja íslenskir skuldarar að drukkna í feni þess fyrirbæris.
Fjölmargir íslenskir stjórnmálamenn hafa talað fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Þrátt fyrir það gerist afskaplega lítið. Þegar meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir fékk gullið tækifæri í kjölfar hrunsins til að aftengja vísitölu neysluverðs vegna forsendubrests brást henni kjarkur frammi fyrir svonefndum sérfræðingum, sem margir hafa hagsmuna að gæta af viðhaldi verðtryggingar.
Því er ekki að undra að fyrir stuttu var ég spurð: „Af hverju koðna allir niður í baráttunni gegn verðtryggingunni?“ Svarið er að þetta snýst um mikla hagsmuni. Þeir sem skulda verðtryggt eru líklegri til að vera yngri, muna síður eftir verðbólgutímunum og skulda mikið í eigin húsnæði. Þeir sem eiga verðtryggt eru væntanlega líklegri til að vera eldri, muna betur eftir áhrifum óðaverðbólgu og skulda lítið í eigin húsnæði.
Þessir hagsmunir hafa ítrekað tekist á.
„Lausnirnar“ hafa aftur og aftur sýnt hvaða hagsmunir hafa haft betur, hagsmunir fjármagnseigenda. Til dæmis var einfalt að aflétta verðtryggingu launa þar sem hún var talin verðbólguhvetjandi með víxlhækkunum verðlags og launa – þótt bent hafi verið á að sama megi segja um verðtryggingu skulda. Einnig mátti breyta viðmiðunarvísitölu til að auðvelda skuldurum að greiða af lánum sínum sbr.greiðslujöfnunarvísitalan.
Engin sanngirni liggur í að leggja þyngstu byrðarnar á kynslóðina sem byggir upp lífeyrissjóðina með greiðslu iðgjalda í sjóðina og skatts til að fjármagna lífeyri þeirra sem ekki hafa áunnið sér rétt til greiðslu úr sjóðunum, þá kynslóð sem einna helst tekur verðtryggðu lánin. Engin sanngirni liggur heldur í því að skerða lífeyri þeirra sem þegar hafa hafið töku hans. Allra síst liggur sanngirni í viðvarandi verðbólgu, sem verðtryggingin viðheldur þegar stýritæki Seðlabankans virka ekki.
Það er kominn tími til að leita sátta á milli kynslóða, sátta á milli skuldara og fjármagnseigenda.
Hættum að koðna niður frammi fyrir óvininum. Vinnum saman að því að afnema verðtrygginguna, með Plani B.
(Birtist fyrst í FBL 20. október 2011)
Þegar veðhlutfall lána var hækkað 2004/2005 þá var ljóst að Ísland yrði varnarlausara gagnvart erlendum hagsveiflum, að fólk myndi glata stórum hluta ef ekki öllum eigum sínum í efnahagsdýfu, að yngri kynslóðirnar myndu verða skuldsettari en þær eldri og að Ísland myndi verða skuldsettara og fátækara.
Hvaða lausnir sáu Framsóknarmenn á þessum tíma við þessu vandamáli sem m.a. Seðlabankinn benti á?
Bara svona okkar á milli Eygló, þá er mín fjöldskylda í þeirri stöðu að geta borgað ennþá af lífeyrisjóðs láninu sem var tekið árið 2003, það var þá um 80% af markaðsvirði íbúðarinnar. Við áttum s.s. tæpar 4 milljónir sem útborgun.
búið er að borga um 9 milljónir af láninu, en eftirstöðvar eru samt búnar að hækka um 9 milljónir!
þetta gerist þrátt fyrir að hafa staðið sig 100% í afborgunum allann þennann tíma.
í dag eigum við minna en ekkert í húsinu, skuldum meira enn markaðsvirði húsins er, þótt við sleppum ekki inní 110% lausnina.
útborguð laun fara nánast öll í afborgun og svo að kaupa í matinn. punktur.
Það eina sem við gerðum af okkur var að treysta því að ísland væri skynsamlega rekið þjóðfélag, ekki að það væru vaðandi uppi hvítflibbaglæpamenn sem hafa fengið að mergsjúga þjóðfélagið innanfrá í mörg ár, og eiga að fá að mergsjúga okkur áfram.
Við erum alvarlega að huga að því að segja okkur úr þessu þjóðfélagi, ég ætla ekki að bjóða börnunum mínum uppá þessa framtíð. Við munum flytja úr landi strax í vor ef ekki fer að sjást til sólar í þessum málum.