Miðvikudagur 28.12.2011 - 13:53 - 2 ummæli

„Fréttavænustu“ formennirnir 2011

Samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna eru flókin. Einhvers konar ástar/haturs samband. Þeir þurfa á hvor öðrum að halda til að fylla hvíta dálka og auðar mínútur og ná til almennings. En svo er kvartað. Stjórnmálamenn undan því að fjölmiðlar sýni ekki „rétta“ mynd af stjórnmálunum. Fjölmiðlar telja sig vera að flytja fréttir, ekki sinna ímyndarsköpun fyrir stjórnmálaflokka.

Því datt mér í hug að skoða fjölda frétta um formenn stjórnmálaflokkanna árið 2011.  Aðferðafræðin var einföld.  Nöfn formanna voru slegin inn í fréttasafn CreditInfo og fjöldi frétta pr. mánuð skráðar.

  • Í 5. sæti er Margrét Tryggvadóttir, núverandi formaður Hreyfingarinnar m/ 3,21%.  Það er töluvert minna en 4,76% þingstyrkur Hreyfingarinnar gefur tilefni til.  (Athuga þarf að  í Hreyfingunni byggist titilinn formaður frekar á reglum Alþingis en þörf þinghópsins fyrir formann.  Hafa því þingmenn Hreyfingarinnar skipt með sér bróðurlega hlutverki formanns, sem og þingflokksformanns.)
  • Í 4. sæti er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins m/ 10,30%.  Það er um þriðjungi minni umfjöllun en þingstyrkur Framsóknarmanna gefur tilefni til en hann er 14,29% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 3. sæti er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins m/ 19,17%.  Það’ er um fjórðungi minni umfjöllun en þingstyrkur Sjálfstæðismanna gefur tilefni til en hann er 25,40% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 2. sæti er Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar m/ 33,99%.  Það er aðeins meira en þingstyrkur Samfylkingarinnar en hann er 31,75% af heildarfjölda þingmanna.
  • Í 1. sæti er Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna m/ 33,33%.  Þessi umfjöllun er um 75% umfram þingstyrk Vinstri Grænna en hann er 19,05% af heildarfjölda þingmanna.

Þó Jóhanna sé með flestar fréttirnar þá er það greinilega mat fjölmiðla að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið fréttavænastur á árinu.

Sú staðreynd byggir ekki á þingstyrk hans.  Það gæti tengst því að hann er mun aðgengilegri en forsætisráðherrann og hefur orðið þannig að de facto talsmanni ríkisstjórnarinnar.

Niðurstaðan er því greinilega að umfjöllun fjölmiðla um formenn stjórnmálaflokka hefur ekkert með þingstyrk að gera.  Formenn stjórnarandstöðunnar eiga töluvert erfiðara með að koma sér að hjá fjölmiðlum en formenn stjórnarflokkann. Auðvelt aðgengi getur skipt miklu máli.

Allt íhugunarefni fyrir 2012.

PS.  Hvað var það svo sem orsakaði mesta umfjöllun hjá hverjum formanni yfir árið?

  • Bjarni var með flestar fréttir í febrúar =  Stuðningur Sjálfstæðismanna við Icesave samninginn og synjun forsetans á lögunum.
  • Jóhanna var með flestar fréttir í mars =  Kjarasamningar, aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar og kærunefnd jafnréttismála taldi forsætisráðherra hafi brotið jafnréttislög.
  • Margrét var með flestar fréttir í janúar = Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings og njósnatölva fannst á Alþingi.
  • Sigmundur Davíð var með flestar fréttir í apríl = Námsferill hans vakti athygli og hugsanleg aðkoma Framsóknarflokksins að ríkisstjórnarsamstarfi í tengslum við vantrausttillögu.
  • Steingrímur var með flestar fréttir í október = Mikil átök á landsfundi VG, Hæstiréttur staðfesti neyðarlögin, fjáraukalög lögð fram og Páll Magnússon ráðinn forstjóri Bankasýslunnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hallur Magnússon

    Ekki gleyma því að umfjöllun getur bæði verið neikvæð og jákvæð. Hefðir átt að skoða þá skiptingu.

    Þá verður líka að hafa í huga að sumir áberandi þingmenn Framsóknar hafa heldur betur tekið sviðsljósið af formanninum.

    Bendi þér á að gera greiningu á umfjöllun fjölmiðla um Sigmund vs. aðra þingmenn Framsókanr. Grunar að Sigmundur lúti í grasið í þeirri greiningu.

    …og í greiningunni um Framsókn – ekki gleyma að skipta upp í jákvæðar, hlutlausar og neikvæðar fréttir. Fréttirnar eru þannig skilgreindar hjá CreditInfo.

  • Þeir sem sjá í gegnum moðreykinn, sjá hvert Ísland stefnir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur