Fimmtudagur 29.12.2011 - 17:08 - Rita ummæli

Einstakir fjölmiðlar og formenn 2011

Skiptir máli hver fjölmiðilinn er varðandi fjölda fréttaumfjöllunar um formenn stjórnmálaflokkanna?

Er munur á umfjöllun Fréttablaðsins og Morgunblaðsins? Stundum finnst mér þessi blöð vera að fjalla hvort um sitt Ísland.   Er RÚV að túlka hlutleysi sitt þannig að fjalla eigi sem mest um valdhafana?  Á hverjum hefur DV.is mestan áhuga þegar kemur að umfjöllun um formenn stjórnmálaflokkanna? Fjallar Eyjan.is meira um formenn stjórnarandstöðunnar en Jóhönnu og Steingrím?

Þetta voru allt spurningar sem ég var að velta fyrir mér þegar ég tók út einstaka fjölmiðla og umfjöllun þeirra um formenn stjórnmálaflokkanna.

Hér eru niðurstöðurnar:

Þingstk. Allar fréttir RÚV Eyjan DV FBL/visir MBL
Bjarni Benediktsson 25,40% 19,17% 17,76% 19,09% 30,60% 19,33% 17,13%
Jóhanna Sigurðardóttir 31,75% 33,99% 35,41% 28,48% 27,44% 35,45% 33,59%
Margrét Tryggvadóttir 4,76% 3,21% 2,45% 6,06% 5,52% 2,83% 3,44%
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 14,29% 10,30% 10,41% 13,03% 13,56% 10,40% 9,49%
Steingrímur J. Sigfússon 19,05% 33,33% 33,98% 33,33% 22,87% 31,98% 36,35%

Bjarni Benediktsson er í miklu uppáhaldi hjá DV og situr þar á toppnum í umfjöllun um formenn stjórnmálaflokkanna, með 30,60% af heildarumfjöllun.  Morgunblaðið og RÚV eru með hvað minnsta umfjöllun um hann.

Jóhanna Sigurðardóttir fær mesta umfjöllun hjá FBL og RÚV, eða rúm 35% hjá hvorum miðlinum fyrir sig.  MBL sýnir henni einnig töluverðan áhuga (33,59%), á meðan DV (27,44%) og Eyjan.is (28,48%) sjá minna fréttnæmt við hana.

Margrét Tryggvadóttir er að fá töluverða umfjöllun hjá Eyjan.is (6,06%)  og DV (5,52%) á meðan RÚV (2,45%) og FBL (2,83%) sýna henni minni áhuga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur mestra vinsælda hjá Eyjan.is (13,03%) og DV (13,56%) sem fréttaefni á meðan MBL sýnir honum minnstan áhuga (9,49%).

Steingrímur J. Sigfússon er að fá langmesta umfjöllun hjá MBL (36,35%) en langminnsta hjá DV (22,87%) þar sem hann er næstum því kominn niður í þingstyrk sinn í prósentum.

Skyldi þetta segja okkur eitthvað? Er mikil umfjöllun af hinu góða eða ekki?  Ég er ekki viss um að Bjarni Benediktsson hafi verið sérstaklega sáttur við áhuga DV á honum yfir árið á meðan Steingrímur J. Sigfússon þakkar varla áhuga Morgunblaðsins á honum. Jóhanna Sigurðardóttir þykir greinilega minna áhugaverð hjá Eyjan.is en aðrir formenn.  Sigmundur Davíð er greinilega að heilla DV og Eyjan.is meira en aðra fjölmiðla á meðan MBL sýnir honum mjög takmarkaðan áhuga.  Segir það eitthvað hvað RÚV og MBL hafa lítinn áhuga á formönnum stjórnarandstöðunnar? Að valdhafar eru meira áhugaverðir? Fréttavænni?

Og já, það er munur á umfjöllun FBL og MBL þegar kemur að formönnum stjórnmálaflokkanna.

Niðurstaðan sýnir allavega að fréttamat fjölmiðla er ólíkt og íslensk fjölmiðlaflóra er ekki einsleit.

Svo er það okkar allra að vega og meta umfjöllunina sjálfa.

PS.  Athuga þarf að ekki er gerð tilraun til að flokka umfjöllun.  Inni í tölunum geta verið innsendar greinar og fréttir sem hafa ekkert í raun með viðkomandi formann að gera.  Eina krafan er að nafn formannsins komi fram í umfjölluninni.

PSS.  Sá að fyrri pistill um umfjöllun um formenn stjórnmálaflokka komst í Frá Degi til dags í FBL og þá sérstaklega niðurstaða mín að Steingrímur er að fá umfjöllun langt umfram þingstyrk og stjórnarandstaðan langt undir þingstyrk.  Ég vil ítreka þá skoðun mína að Steingrímur er að fá  sömu umfjöllun og forsætisráðherra ekki vegna þess að hann er annar oddviti ríkisstjórnarinnar heldur vegna takmarkaðs aðgengis að forsætisráðherra.  Ég tel einnig að þingstyrkur stjórnarandstöðunnar eigi að skila sér betur í umfjöllun fjölmiðla.  Ástæða þess er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru fulltrúar ákveðinna kjósenda.  Ef ekki heyrist frá þessum fulltrúum þá eru raddir þeirra kjósenda ekki að skila sér nægilega vel út í samfélagið.  Lýðræðið er þá ekki að virka eins og það ætti að virka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur