Engum dylst að samfélögin á Suðurnesjum eiga í vanda. Hafi einhver verið í vafa um það ætti nýleg skýrsla samstarfshóps á vegum Velferðarráðuneytisins að vera þeim hinum sama holl lesning. Helstu niðurstöður hennar voru sláandi.
Hlutfall atvinnuleysis er langhæst á Suðurnesjum af landinu öllu. Hlutfall barna á Suðurnesjum sem eiga foreldra á atvinnuleysisskrá er tæp 22% miðað við 14% landsmeðaltal. Um 13% þeirra sem farið hafa í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eru af Suðurnesjum þó þar búi aðeins tæp 7% landsmanna. Árið 2010 voru 8,6% allra gjaldþrota fyrirtækja á landinu á Suðurnesjum. Æ fleiri leita til félagsþjónustu sveitarfélaganna og byrði samfélagsins er þung.
Mér er slétt sama hvort stjórnvöldum, Árna Sigfússyni eða einhverjum öðrum er um að kenna. Að benda og kenna einhverjum öðrum um kemur að litlu gagni fyrir þá sem fá ekki vinnu, þá sem horfa á eftir húsnæði sínu á uppboð, fyrirtækinu í gjaldþrot eða börnunum til útlanda.
Ástandið er fullkomlega óásættanlegt. Til að breyta stöðunni þurfum við samvinnu.
Samvinna í fyrirrúmi á Suðurnesjum.
Allt of lengi hefur uppbygging og stuðningur við einstök svæði verið ómarkviss og skilað litlum árangri. Suðurnesin hafa svo sannarlega fengið að finna fyrir þessu. Því til viðbótar hefur nálægðin við höfuðborgarsvæðið ítrekað verið notuð til að rökstyðja minni framlög frá hinu opinbera í samanburði við önnur byggðarlög hringinn í kringum landið. Gildir þar einu hvort litið er til framlaga til símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla eða heilbrigðisþjónustu.
Ég er samvinnumaður. Samvinna er hugmyndafræði, ekki bara rekstrarform. Samvinnustefnan byggir á því að fólk nái meiri árangri með því að vinna saman heldur en hvert í sínu horni og að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns, hörundslitar eða búsetu. Gildi samvinnunnar eru sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða.
Á þeim grunni eiga Suðurnesjamenn sjálfir að fá að taka ákvarðanir um sína framtíð. Valdinu verður að dreifa frá höfuðborgarsvæðinu. Frumkvæði heimamanna verður að vera drifkrafturinn og Suðurnesjamenn verða að fá að bera sjálfir ábyrgð á sínu samfélagi.
Í dag fer ríkið með um 2/3 af opinberu fjármagni á meðan sveitarfélögin fara með um þriðjung. Með því að snúa þessum hlutföllum við geta sveitarfélögin til dæmis sjálf ákveðið hvort þau vilji leggja í þann kostnað að reka skurðstofu og fæðingarhjálp á svæðinu. Þau geta sjálf metið hvort rétt sé að byggja upp einn, tvo eða þrjá framhaldsskóla og þau geta sjálf forgangsraðað sínum áherslum í atvinnumálum.
Samvinnurekstur
Dæmi um aukið vægi samvinnurekstrar væru svo heilsugæsla þar sem læknar og sjúklingar sameinast um reksturinn, leik-, grunn- og framhaldsskólar sem reknir eru af foreldrum og kennurum og húsnæðisfélög þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér öruggt húsnæði á sanngjörnu verði. Þá er mikilvægt að koma á fót samvinnusparisjóðum að norrænni fyrirmynd, sem lána peninga á sanngjörnum kjörum til félagsmanna, sem hver og einn getur orðið stofnfjáreigandi kjósi hann svo.
Stöðu Suðurnesja má snúa við en til þess þarf samstillt átak. Við þurfum að horfa fram á við með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Þannig snúum við vörn í sókn.
(Grein sem birtist í nýju blaði á Suðurnesjum þann 15. desember sl.)
Þar sem þú ert ein af uppáhaldsþingmönnum mínum þá langar mig ekki að setja mikið ofaní við þig fyrir þessa grein enda held ég að hún sé sérstaklega skrifuð til að hugga suðurnesjamenn.
En eitt atriði fer verulega á sálina í mér í þessum skrifum og það er setningin
„Þá er mikilvægt að koma á fót samvinnusparisjóðum að norrænni fyrirmynd, sem lána peninga á sanngjörnum kjörum til félagsmanna“
Afhverju geta stjórnvöld ekki gert þá kröfu til allmennra bankastofnanna að þær „láni peninga á sanngjörnum kjörum“
Að mínu viti er allur vandi Íslendinga og reyndar heimsins alls ósanngjarnar bankastofnanir sem starfa í skjóli stjórnvalda.
Ef manni dettur í hug að kaupa eitthvað þá tekur „bankinn“ vexti af húsnæði verslunar sem hýst er í fáránlega dýru húsnæði (ríkisvaldið passar uppá að bankinn þurfi ekki að verðfella húsnæðið með því að leyfa þeim að halda fermetrum utan markaðar). Allur lager kaupmannsins ber vexti bankans (verðmæti lagersins er meðal annars að stórum hluta vextir sem bankinn tekur af framleiðanda vörunnar). Allir flutningar til og frá búðinni er fluttur af flutningartækjum sem bankinn tekur sinn skerf af í formi vaxta og svo framvegis og svo framvegis.
Bankar framleiða ekki neitt en taka samt ríflegan skerf af öllu sem framleitt er og selt. Þeir sem raunverulega framleiða eitthvað bera minna úr býtum en fjármálastofnanirnar. Getum við ekki gert eitthvað í þessum málum?
Er ekki hægt að þvinga bankana til að vera bara bankar og taka af þeim þetta ægivald sem stýrir öllu okkar lífi?
Góð spurning. Þetta virðist flækjast óskaplega fyrir stjórnvöldum út um allan heim að ná tökum á fjármagsgeiranum. Ég held að við getum gert miklu meira en við erum að gera núna, og það með því að umbuna rétta hegðun. T.d. að leggja auknar álögur á bankana ef vaxtamunurinn verður of hár. Aðskilja verður á milli áhættufjármagnsins og innstæða almennings. Með hagstæðara skattaumhverfi fyrir samfélagsrekstur.
Dæmi um módel sem við eigum að hlúa að eru t.d. http://www.norden.org/is/a-doefinni/frettir/thrir-norraenir-bankar-fa-natturu-og-umhverfisverdlaun-nordurlandarads-2010
http://www.tameside.gov.uk/creditunion
Ástæðan fyrir því að ég tala fyrir samvinnusparisjóðum (coop) er að þar eiga hagsmunir sparisjóðsins að fara saman með hagsmunum viðskiptavinanna sem eru um leið eigendur að sjóðunum sem félagar. Íslensku sparisjóðirnir gleymdu þessu atriði. Í Noregi getur hver sá sem setur inn ákveðna upphæð orðið félagi í viðkomandi sparisjóði. Fólk er ekki handvalið inn, heldur byggist það á þátttöku þess sjálfs. Ekki þannig að fólki sé gefið fé, heldur að það njóti góðs af góðum rekstri og eigin framlagi.