Þriðjudagur 03.01.2012 - 13:40 - 6 ummæli

Hvað með millistéttaraulana?

Eina bestu grein síðasta árs átti Karl Sigfússon undir fyrirsögninni Ég er kúgaður millistéttarauli. Í henni lýsir hann reynslu sinni af kúgun lánastofnana og stjórnvalda. Hvernig stjórnvöld hafa verðlaunað þá sem skuldsettu sig í topp á kostnað þeirra sem lögðu fram sparifé sitt við fasteignakaup og stilltu skuldsetningu í hóf. Hvernig þeim hefur verið refsað sem reynt hafa að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar, þrátt fyrir brostnar forsendur. Hvernig ábyrgð og heiðarleiki hafa leitt til þess að viðkomandi situr eftir sem kúgaður millistéttarauli.

Nú segja stjórnvöld að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin í landinu. Þessu hafna framsóknarmenn. Góð stjórnvöld verða að forgangsraða í þágu heimilanna. Mikil tækifæri til almennra leiðréttinga skulda heimilanna glötuðust með yfirfærslu bankanna til kröfuhafa og með því að setja ekki þak á hækkun verðbóta í hruninu. Nýtt ár kemur með ný tækifæri. Tækifæri til að gera betur. Tækifæri til að skoða nýjar hugmyndir og lausnir. Því höfum við framsóknarmenn enn á ný reifað hugmyndir til hjálpar skuldsettum heimilum landsins.

Við viljum nýta skattkerfið til að leysa úr vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja. Það yrði gert með því að afborganir af húsnæðislánum yrðu skattfrjálsar upp að vissu marki, til dæmis sem nemur 1-2 milljónum á ári. Skattaafslátturinn yrði svo nýttur sem viðbótargreiðsla inn á húsnæðislánin. Þannig gætu heimilin greitt töluvert meira inn á lánin sín án aukins kostnaðar fyrir þau. Þessi aðferð gæti komið til móts við þann hóp sem hefur gert sitt besta til að standa í skilum, þrátt fyrir að hafa tapað stórum hluta af eigin fé í fasteignum sínum.

Tekjur ríkissjóðs myndu lækka eitthvað en á móti kæmu lægri vaxtabætur og auknar tekjur Íbúðalánasjóðs.

Við viljum að fulltrúar allra þingflokka og sérfræðingar komi að útfærslu á þessari hugmynd í samvinnuanda og að frumvarp verði lagt fram af ráðherra á vorþingi.

Sýnum á nýju ári að ábyrgð, heiðarleiki og réttlæti er íslenska leiðin.

Rétta leiðin.

(Greinin birtist fyrst í FBL þann 3. janúar 2012)

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sigurður Sigurðssoon

    Ríkið er búið að setja upp 100 manna stofnun, Umboðsmann Skuldara, með mörgum serfræðingum – hvers vegna má þessi stofnun ekki nýta allan þennan mannskap í að koma þessum skuldamálum í lag?

    Hvers vegna að flækja þetta meira með því að hræra þessu saman við skattakerfið þar sem engin leið verður eftir það að sjá hvað ríkið er að gera fyrir hvern og einn – eða yfirleitt í heildina að gera fyrir fjölskyldurnar í landinu í þessum skuldamálum. Með því að ætla að láta eitthvað annað kerfi svo sem skattakerfið greiða niður skuldirnar þá má alveg eins greiða niður skuldirnar með því að lækka matvöru, lækka húsnæðiskostnað, lækka VSK, lækka kostnað við bíla og eldsneyti osfv þannig að allir mundu njóta góðs af.

    Er þá ekki best að hafa þetta allt á einum stað og hafa fullt yfirlit yfir hvað verið er að gera í stað þess að hræra öllu kerfinu saman og hafa ekkert heildaryfirlit?

    En þannig hafa stjórnvöld leyst mörg mál svo sem vísitölubindinguna og fiskveiðistjórnunarkerfið sem dæmi – það er bara ýtt úr vör og látið slag standa. Þegar allt er komið í óefni þá er engin lausn og vitleysan heldur áfram stjórnlaust.

  • Breki Karlsson

    Gott að einhver hugsar um heimilin. En ég er ósáttur við að skuldin sé svona heilög að það megi aldrei láta sér detta í hug neitt sem slær á skuldina. Allar lausnir sem ráðamenn koma með miðast að því að skuldin sér greidd með einum eða öðrum hætti.

    Við eru til dæmis nú þegar með lög sem segja að lánastofnanir megi ekki eiga fyrirtæki í óskyldum rekstri nema í takmarkaðann tíma. En Fjármálaeftrilitið getur framlengt þennann frest eins mikið og þeim dettur í hug. Þar með eru lögin hætt að vera lög og orðin geðþóttaákvörðun þröngs hóps eða jafnvel einstaklings.

    Við erum með lög um bankaleynd sem gera það af verkum að enginn treystir fjármálastofnunum því almenningur er sannfærður um að þessi leynd sé einungis til að fela fyrir almúganum misgjörðir fjármálageirans.

    Ef fjármála geirinn klikkar þá eigum ég og þú að taka ábyrgðina af því. En ef einstaklingur klikkar þá skal sá hinn sami verða píndur til æviloka og hans afkomendur líka fyrir mistök sín.

    Að verðtryggja skuldir en ekki innkomu er alveg út í hött. Annað hvort gerum við hvortveggja eða sleppum því alveg.

    Hversvegna í ósköpunum er ekki hægt að taka þetta vitleysis kerfi niður á jörðina.

    Svarið að ég tapi lífeyrissjóðnum mínum er ekki tekið gilt því ef það er það sem þarf þá er ég til í að gefa hann eftir nú þegar.

  • Ásmundur Jespersen

    Ágætis hugmynd við fyrstu sýn. Á hinum norðurlöndunum tíðkast að veita skattaafslátt vegna vaxta á húsnæðislánum. Gott og vel að franmsóknar fólk sjá hér möguleika á að reyna að gera eitthvað á sama/svipaðann hátt og tíðkast í siðmenntuðum samfélögum. En í hinum siðmenntaða heimi tíðkast verðtrygging ekki og er víðast hvar meira og minna ólögleg nema til komi einhverhverjar sérstakar aðstæður.
    Þessi tilraun/tillaga ykkar framsóknar er einhver sú auðvirðulegasta sem sett hefur verið fram af einhverjum öðrum en sitjandi ríkisstór. Hinn raunverulegi vandi venjulegra heimila sem eru gera sitt besta og standa öllu að jöfnum í siklum með sitt er verðtryggingin og ekkert annað. Það að senda okkur alemmum borgurum þessa að þvælu er ekkert annað en gróf móðgum við okkur. Þið greinilega ætlið að halda dauðahaldi í gersamlega ósanngjarna verðtryggingu sem er þannig framsett að hennar eini tilgangur er að vernda fjármagnseigendur og algerlega vanhæfa stjórnendur alltof margra lífeyrissjóða.
    Hvernig væri að opna augun og líta út um glugga hins há Alþingis og horfa út um stund.
    Virðingarfyllst
    Ásmundur Jespersen
    almennur borgari sem á ekki annars kosta völ en að flytja búferlum ú landi vegna verðtryggingar

  • Ásmundur! Skoðaðu fyrri pistla Eyglóar um afnám verðtryggingar. Hér á landi er skattaafsláttur vegna vaxtagreiðslna af lánum, hann er samt lítill. Framsókn kom með tillögur í febrúar 2009 um 20% lækkun á lánum vegna forsendubrests. Þær tillögur fengu engan hljómgrunn hjá stjórnarflokkum. Slíkar lausnir ganga því miður ekki lengur. Þess vegna er Eygló að reyna að finna aðrar leiðir til lausna.

  • Það sem úrræði það sem beitt verður þarf að gera framar öðru er að veita fólki einhverja von. Einhverja eign til að berjast fyrir. 110% færir fólki enga von. Án vonar gefst fólk upp og hættir að borga…..og allir tapa. En því miður virðast engir stjórnmálamenn, sama hvort það eru framsóknarmenn eða aðrir, átta sig á. Ef vonin er engin verður baráttuþrek fólks fljótlega uppurið. Eygló, við þurfum von!

  • Eygló Harðardóttir

    Sammála. Fín grein hjá Ara Trausta í Fréttablaðinu um þetta í dag.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur