Fyrir 25 árum kom móðir mín nær orðlaus heim úr vinnunni sinni. Yfirmaður hennar (kona) hafði tilkynnt henni að þvi miður gæti hún ekki fengið þá yfirvinnu sem hún hafði óskað eftir. Ástæðan var að samstarfsmaður hennar (karl) þyrfti á meiri yfirvinnu að halda, „…enda hefði hann fyrir fjölskyldu að sjá.“ Móðir mín var þá einstæð móðir með þrjú börn á framfæri.
Þessi saga rifjaðist upp, enn á ný, þegar ég las í Fréttatímanum að konur sem heyra undir Kjararáð virðast fá lægri laun en karlar, – einfaldlega vegna þess að þær eru konur. Það virðist fyrst og fremst vera gert í gegnum ákvarðanir ráðsins um föst yfirvinnulaun.
Grunnlaun kvenna sem stýra fyrirtækjum og stofnunum sem eru í meirihlutaeigu ríkisins eru að meðaltali með um 654.092 kr. fyrir dagvinnu en 698.355 hjá körlum. Þegar kemur að meðalheildarlaunum eru konur með 731.936 kr. en karlar með 878.083 kr.
Dæmi um þetta er launaákvörðun Ástu Dísar Óladóttur, forstjóra Fríhafnarinnar en þar lækkaði Kjararáð hana í launum miðað við forvera hennar. Kjararáð hefur nú tekið aftur ákvörðun sína, eftir að Ásta Dís kærði ákvörðunina til Jafnréttisstofu og hækkaði hana í launum. Til samanburðar er bent á fyrirtækið Tern System sem er einnig dótturfyrirtæki Isavia, líkt og Fríhöfnin. Tern System er töluvert minna umfangs bæði hvað varðar veltu og starfsmannafjölda.
Þrátt fyrir það fær framkvæmdastjóri Tern sömu dagvinnulaun og forstjóri Fríhafnarinnar en um fimmtíu þúsund krónum hærri föst yfirvinnulaun.
Ó, já og forstjóri Tern System er karl.
Ásta Dís er kona, og þarf væntanlega ekki að sjá fyrir fjölskyldu.
Rita ummæli