Mánudagur 06.02.2012 - 11:39 - 6 ummæli

Tillaga um rannsókn á lífeyrissjóðunum

Ég hef unnið tillögu að þingsályktun um rannsókn á lífeyrissjóðunum frá 1997 til dagsins í dag, sem er svohljóðandi:

Tillaga að þingsályktun um rannsókn á lífeyrissjóðunum frá 1997 til 2011

Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir (68/2011), að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki starfsemi lífeyrissjóðanna frá 1997 til 2011.

Rannsóknarnefndin skal varpa sem skýrustu ljósi á starfsemi lífeyrissjóðanna á þessu tímabili: þ.m.t. fjárfestingarstefnu, stjórnun, stefnumótun, ákvarðanatöku, áhættumat, endurskoðun, eftirlit, markaðsáhrif, tryggingafræðilega stöðu og tengsl við atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og stjórnmálamenn.

Nefndin beri saman laga- og starfsumhverfi íslenska lífeyrissjóðakerfisins við lífeyrissjóði í nágrannalöndunum og leggi fram tillögur til úrbóta, þ.m.t. laga- og reglugerðarbreytingar.

Lagt verði mat á ábyrgð og aðkomu stjórnsýsluaðila og ábyrgð og aðkomu einstakra ráðherra að einstökum ákvörðunum og/eða eftirliti með lífeyrissjóðunum.

Nefndin geri eftir atvikum ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á refsiverðri háttsemi eða brotum á starfsskyldum og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis.

Rannsóknarnefndin skal skila forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. janúar 2013 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Greinargerð

Í ályktun Alþingis um skýrslu þingmannanefndar var lagt til að sjálfstæð og óháð rannsókn færi fram á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Í kjölfar þess skyldi fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.

Landssamtök lífeyrissjóða samþykktu þann 24. júní 2010 að fara af stað með úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008.  Nefndin sem Landssamtökin skipuðu skilaði af sér skýrslu 3. febrúar 2012.  Í nefndinni sátu Hrafn Bragason, lögfræðingur og fv. hæstaréttadómari sem var formaður nefndarinnar, Guðmundur Heiðar Frímannsson, siðfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðingur. Nefndinni var falið að fjalla einkum um hvernig staðið var að stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumati við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins.  Sérstaklega skyldi skoða hvernig gildandi fjárfestingastefnu sjóðanna var fylgt eftir síðustu tvö árin fyrir hrun.  Nefndin skyldi einnig taka til umfjöllunar þau atriði sem beinast sérstaklega að lífeyrissjóðum i skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og sérstaks vinnuhóps um starfshætti og siðferði um aðdraganda og orsakir falls bankanna.

Í skýrslu nefndar Landssamtaka lífeyrissjóða kom fram að rannsóknarheimildir nefndarinnar hafi byggst á samþykkt stjórnar og varastjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða frá 24. júní 2010.  Störf nefndarinnar voru þannig háð því að einstakir sjóðir, stjórnir þeirra og starfsmenn ynnu með nefndinni á þann hátt að þeir afhentu henni gögn og gæfu henni skýringar.  Jafnframt aflaði nefndin sér gagna og upplýsinga frá opinberum stofnunum, fjármálafyrirtækjum og einkafyrirtækjum.

Nefndin hafði þannig ekki viðlíka valdheimildir til að krefjast þess að gögn, upplýsingar eða skýringar kæmu fram líkt og rannsóknarnefndir Alþingis hafa skv. lögum um rannsóknarnefndir (68/2011). Eftirlitsstofnanir með lífeyrissjóðunum gátu borið fyrir sig þagnarskyldu í ríkum mæli, ekki var hægt að kveða fólk til skýrslutöku vildi það ekki gefa skýrslu né heldur gat nefndin gert rannsóknir á starfsstað.

Við afgreiðslu ályktunar Alþingis um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir að Landssamtökin hygðust setja af stað sjálfstæða úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna.  Þrátt fyrir það ályktaði Alþingi, á grunni þeirra upplýsinga sem fram komu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að sjálfstæð og óháð rannsókn skyldi fara fram á starfsemi lífeyrissjóðanna allt til 1997 þegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 voru sett. Niðurstöður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóðanna staðfesta enn frekar að fullt tilefni er til að sú rannsókn fari fram og í framhaldi þess verði farið í heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sjóðanna.

Því er lagt til að Alþingi álykti um að sú rannsókn fari fram í samræmi við lög um rannsóknanefndir og ályktun Alþingis um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Hvernig væri ef fulltrúar fólksins í landinu byrjaði á því að skammast sín og afnema lög nr. 141/2003 um sérstök lífeyrisréttindi þeirra sjálfra? Eða rannsókn á samvinnu-svikamillu vegna gagnkvæmrar tekjutengingu almannatrygginga og lífeyrissjóða?

  • Þetta er þörf nefnd, Eygló.

  • Leifur A. Benediktsson

    Til hamingju með framtakið Eygló! Þetta verður að ganga í gegn.

    May the force be with you!

  • Ásdís Erlingsdóttir

    Þetta framtak er rós í þitt hnappagat.

    Til hamingju

  • Árni Aðalsteinsson

    hverju á nú enn ein rannsóknarskýrslan að breita Eygló,alþingi virðist hafa sérhæft sig í að svæfa og þagga niður rannsóknarskýrslur ef það pantar ekki sjálft niðurstöðurnar samanber skýrslu hagfræðistofnunar um niðurfærslu skulda heimilanna.og vinsamlegast svaraðu þú mér einu, með því að alþingi þvingar almenning til að greiða í lífeyrissjóði….er þá ekki íslenska ríkið þarmeð komið í ábyrgð fyrir þessum innistæðum ?

  • Leifur A. Benediktsson

    Eftir Kastljósviðtalið við Ögmund ,,Froðu“ er ég ennþá sannfærðari en áður.

    Hann er jafn siðblindur og allir hinir Hrunverjarnir.

    Hann tók þátt í braski á ,,froðu“.

    Þetta var alveg einstakt viðtal og fer í gagnabanka minn.

    Hann gæti allt eins setið á bekk með Geir Haarde í Landsdómsmálinu ásamt Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni að mínu mati.

    Þetta eru og voru kjörnir einstaklingar sem komu þjóðinni á heljarþröm með RÖNGUM ákvörðunum,á einn eða annan hátt.

    Kosningar eru orðnar meira en knýjandi til að koma þessu liði sem nú stjórna og ekki stjórna frá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur