Föstudagur 17.02.2012 - 14:02 - 14 ummæli

Verðtrygging er ekki lögmál

Þegar verðtryggingu var komið á var um neyðarráðstöfun að ræða sem tryggja átti sparifé, lánsfé og laun. Forsendur þessara aðgerða voru að verðbólga hafði verið langtum meiri hér en hjá öðrum þróuðum ríkjum og vextir voru ekki frjálsir, sem kom í veg fyrir að fjármálastofnanir gætu brugðist við verðbólgunni. Það leiddi nánast til hruns á lánsfjármörkuðum og samhliða óhóflegrar erlendrar skuldasöfnunar. Þessar forsendur eru ekki lengur til staðar. Vaxtafrelsi tryggir að fjármálastofnanir geta brugðist við verðbólgu, ofgnótt er af innlendu lánsfjármagni og verðbólga er ekki mikið meiri hér en í öðrum þróuðum ríkjum í sögulegu samhengi.

Af hverju má þá ekki losa neytendur undan oki verðtryggingarinnar?

Nokkrar af þeim leiðum sem nefndar hafa verið til að afnema hana af samningnum neytenda eru bann við verðtryggingu neytendalána, breyting á vísitölunni og þak á hækkun verðbóta á ársgrundvelli. Þessar tillögur hafa verið gagnrýndar með þeim rökum að afnám í skrefum eða hreint bann muni skerða eignarrétt kröfueigenda og fela í sér hugsanlega afturvirkni.

Frá því almenn verðtrygging var innleidd hafa allar þessar leiðir verið farnar með lagasetningu og taldar standast stjórnarskrána. Árið 1972 ógiltu stjórnvöld verðtryggingu húsnæðislána með því að setja 7,75% hámark á verðtryggingu og vexti nokkurra árganga lána. Árið 1983 var útreikningi vísitölunnar breytt og aftur 1989. Árið 1995 var samsett lánskjaravísitala afnumin og vísitala neysluverðs sett í hennar stað og eldri lán tengd henni. Með breytingunni á vísitölunni væri því bæði hægt að draga úr hækkun lánanna og nýta til leiðréttingar lána. Verðtrygging hefur verið afnumin af launum og því ekkert því til fyrirstöðu að afnema verðtryggingu af neytendalánum.

Krafan um verðtryggingu varðar ekki verðgildi fjármuna heldur ávöxtunarkröfu fjármagnseigenda. Á síðustu fjórum árum hefur almenningur séð skuldir sínar hækka um tugi prósenta vegna verðbóta. Á sama tíma hefur verðmæti eigna og launatekjur staðið í stað eða lækkað.

Krafan um verðtryggingu er orðin krafa okrarans um pund af holdi.

Það er mál að linni.

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Guðsteinn Einarsson

    100% munur á verðbólgu og vextir í lokuðu hagkerfi.

    Það er rangt að verðbólga hér sé ekki mun hærri en þekkist erlendis.
    Nú er algeng verðbólga í Evrópu 2 til 3%.
    Á Íslandi er hún yfir 6% skv. síðustu mælinu. Það munar 100% og rúmlega það.

  • Það eru 2 hagsmuna aðilar í þessu máli lántakendur og fjármagnseigendur. Flestir sitja báðum megin borðsins þó er yngra fólk með meiri hagsmuni lántöku meginn en eldra fólk á meiri sparnað þ.m.t. lífeyrisréttindi.

    Það er nú ennþá það ástand að verðbólga er hér tölvert hærri en í nágrannalöndunum þó að mismunurinn sé minni en var t.d. á 9. áratugnum.

    Ef gjaldeyrishöftum væri aflétt þá hafa sparendur skjól með sparnað sinn í erlendum sparnaði og því sársaukalaust að taka verðtryggingu af en ef gjaldeyrishöft verða viðvarandi þá eru miklar líkur á því að hér færi allt í sama farið og var í lok 8. áratugarins og sparifé brenni upp á verðbólgubáli.

    Þannig að það er í góðu lagi að afnema verðtryggingu en því aðeins að sparendur hafi valkost að tryggja sig með erlendum sparnaði.

  • Ásmundur Harðarson

    Hvers vegna að banna verðtryggingu? Er ekki nóg að gefa þeim kost á óverðttryggðum lánum sem kjósa þau?

    Verðtryggð lán hafa það fram yfir óverðtryggð lán að greiðslubyrðin er miklu jafnari.

    Þess vegna er hægt að taka hærra verðtryggt lán en óverðtryggt án þess að eiga á hættu að lenda í vanskilum.

    Vextir á óverðtryggðum lánum eru breytilegir og breytast meðal annars eftir verðbólgustiginu.

    Það er engin ástæða til að ætla annað en að verðbólgan haldi áfram að rjúka upp á nokkurra ára fresti þannig að vextir þurfi þá að vera 20% eða jafnvel hærri til að halda í við verðbólguna þannig að raunvextir verði ekki neikvæðir.

    20% vextir af 20 milljónum eru 4 milljónir á ári. Það er miklu meira en flestir geta ráðið við.

    Bann á verðtryggðum lánum myndi væntanlega þýða að almenningur gæti ekki keypt fyrstu íbúð nema raunvextir verði stórlega neikvæðir.

    Neikvæðir raunvextir myndu draga úr sparnaði svo að skortur yrði á lánsfé.

    Það versta er þá að neikvæðir raunvextir myndu festa gjaldeyrishöftin í sessi.

    Fólk, fyrirtæki og lífeyrissjóðir myndu ávaxta sitt fé erlendis ef það hefði tök á því og raunvextir væru neikvæðir á Íslandi.

    Fyrir þá sem sjá ekki fram á að geta staðið í skilum með óverðtryggt lán þegar verðbólægan fer á skrið gæti verið heppilegt að taka hluta lánsins í óverðtryggðum lánum og sameina þannig kosti beggja lánsforma.

    Óverðtryggð lán með neikvæðum raunvöxtum eru í raun að hluta styrkur. Það er því félgslegt úrræði sem ætti ekki að þekkjast nema hugsanlega hjá ríkinu handa takmörkuðum hópi.

    Neikvæðir raunvextir almennt í þjóðfélaginu væru alvarleg hagstjórnarmistök sem myndu valda miklu ójafnvægi sem hefði margvísleg alvarleg vandamál í för með sér.

    Verðtryggingin er slæm en engin verðtrygging er enn verri. Evran leysir vandann.

  • Magnus Björgvinsson

    Held að Eygló ætti að tala við Kollega sinn Pétur Blönda og þróun sem orðin er í sparnaði og hvað það þýðir varðandi möguleika á lánum til framtíðar. Þ.e. að bankarnir eru að mestu að lána fé sem fólk veltir og geymir í bönkum. Pétur hefur miklar áhyggjur að allur hvati til að spara og geyma peninga er horfinn og komi til með að há okkur verulega. Ef að sú eign myndi bera neikvæða vextir og rýrna þá er fólk ekki að geyma þá þar. Nei held að eina sem gæti leyst málin okkar er upptaka á stöðugri mynt.

  • Eygló það er ekki rétt að laun hafi almennt lækkað eða staðið í stað. Launavísitalan hefur hækkað líka um tugi prósenta síðustu ár. Munurinn á því hvað neysluvísitalan hefur hækkað umfram launavísitölu frá hruni er ca 6-7%.

    Laun hafa lækkað hjá ákveðnum hópum t.d. þeim sem störfuðu í bygginga- og í fjármálageiranum en annars staðar hafa laun hækkað og sum staðar hækkað mjög mikið eins og hjá sjómönnum eða þeim sem eru með laun bundin í evrum eins og margir starfsmenn CCP og Marel.

  • Kæra Eygló, ein hugsanleg aðferð til að koma þessu til framkvæmda:

    Fræðilega er unnt að gera þetta með þeim hætti, að ríkið kaupi öll húsnæðislán sem ríkið á ekki þegar, fari yfir í Íbúðalánasjóð.

    Eðlilega eykur þetta skuldir ríkisins – en ath. bara tímabundið. Ath. aftur að þetta eru krónuskuldir því ekki eins varasamar fyrir ríkið og gjaldeyrisskuldir.

    Innan Íbúðalánasjóðs væri síðan unnt að afskrifa öll þau lán, gegnt samþykki íbúa á því að ríkið eða sjóðurinn á móti eignist tímabundið þeirra húsnæði.

    Ath. þetta lækkar áhættu ríkisins.

    Síðan væri unnt að gefa út ný lán, og fólkið kaupir húsnæði sitt aftur. Bara tímabundin eign.

    Ríkið ef það vill, getur síðan selt lánin til þriðju aðila – þannig minnkað aftur skuldir sínar. Þannig að aukning skulda sé einnig bara tímabunið vandamál.
    ————————-

    Þessi aðgerð á ekki að sliga ríkið, þ.e. ríkið á ekki nema tímabundið húsnæðið. Og það getur selt lánin á nýjan leik síðar meir, og lækkað þá aftur skuldastöðuna.

    **Þetta getur ágætlega samræmst hugmynd þinni að ríkið síðan bjóði lífeyrissjóðunum verðtryggð skuldabréf – sem þá skapi þörf fyrir aðhald hjá ríkinu.

    Það auðvitað mun krefjast varfærinnar efnahagsstjórnar og fjármálastjórnar hjá ríkinu þaðan í frá – svo verðtrygging sliki ekki ríkið í staðinn 🙂

    Kv.

  • Steinarr Kr.

    Takk Eygló, góð grein hjá þér.

    Ásmundur Harðarsson ritar: „Verðtryggð lán hafa það fram yfir óverðtryggð lán að greiðslubyrðin er miklu jafnari“.

    Þetta er rangt hjá þér Ásmundur. Greiðsluaðferðin sem notuð er að öllu jöfnu er kölluð Annuitet, eða Annuity. Það er auðvelt að reikna þessa formúlu án verðtryggingar og þar með bjóða upp á jafnar greiðslur af óverðtryggðum lánum.

  • Pétur Örn Björnsson

    „Krafan um verðtryggingu er orðin krafa okrarans um pund af holdi.

    Það er mál að linni.“

    Heyr, heyr Eygló. Kjarnyrt og vel orðað.

  • Ásmundur Harðarson

    Steinar Kr., óverðtryggð jafngreiðslulán eru augljóslega einnig með mun ójafnari greiðslubyrði en verðtryggð lán.

    Greiðslurnar eru mun hærri í upphafi vegna hærri vaxta. En greiðslubyrðin lækkar eftir því sem laun hækka yfir lánstímann.

    Greiðslubyrðin hækkar einnig eða lækkar þegar vextir eru hækkaðir eða lækkaðir. Vaxtastigið sveiflast mjög mikið einkum vegna verðbólgu.

    Greiðslur af verðtryggðu láni hækka hins vegar með verðbólgu. Þar sem laun hækka einnig og vextir breytast lítið eða ekkert helst greiðslubyrðin nokkuð jöfn út lánstímann.

    Verða óverðtryggð jafngreislulán í boði?

  • Leifur A. Benediktsson

    Krónuhagkerfið er löngu komið á leiðarenda.

    Allir þeir sem mæra það og dásama,eru annað hvort útgerðargreifar eða fjármagnseigendur,nema hvortveggja sé.

    Ég hygg að Einar Björn Bjarnason krónufan númer 1 hér á landi sé einn þeirra.

    Almenningur hefur enn og aftur fundið fyrir hagstjórn fávita og afglapa.

    Mál að linni með þetta handónýta og úrbrædda kerfi sem þröngvað hefur verið upp á okkur af samtökum arðræningja.

    Upptaka Evru og innganga í ESB er eina rökrétta leiðin til að forðast fávitagang íslenskra sérhagsmunasamtaka í líki LÍÚ.

    Annars nokkuð góð grein hjá þér Eygló að vanda.

  • „Vaxtafrelsi [sem] tryggir að fjármálastofnanir geta brugðist við verðbólgu“

    vs.

    Verðtrygging

    Kemur þetta ekki út á eitt í báðum tilvikum, á hvorn háttinn borgum við aftur það sem „verðbólgnar“, ekki satt?

  • Pétur Óli

    Er Framsókna að lifna við sem eðlilegur flokkur? Mér líst mjög vel á.

    ÞAÐ Á AÐ FLYTJA FRUMVARP ÞAR SEM VÍSITALA NEYSLUVERÐS ER FEST Í ÞEIRRI TÖLU SEM LÖGIN TAKA GILDI. Jafnvel hægt að festa vísitöluna við verðlag á mjólkurpotti einum saman.

    Engin afturvirkni = engar bætur til kröfuhafa. Varla geta kröfuhafar farið í mál ef útreikningar á vísitölunni er breytt. Við höfum margoft breytt vísitölunni án lögsóknar.

    Af hverju ætti að banna verðtryggingu á húsnæðislánum /lánum til neytenda…

    1) Verðtrygging lána og innlána tryggir bara einn ákveðinn þátt. Laun eru ekki verðtryggð sem skekkir myndina.

    2) Verðtrygging er örugglega brot á eignarétti. Hvernig má það vera að ef verðlag breytist þá lækkar eignarhlutur í fasteign ef eigandinn skuldar eitthvað. En ef eigandinn er skuldlaus, þá lækkar ekki eignahluturinn.

    3) Verðtrygging býr til verðbólgu. Þegar verðlag hækkar, þá hækka innistæður eða kröfur. Við það verður meiri peningur til í bankakerfinu. Það mun leiða síðar til veikingu krónunnar sem mun svo auka verðbólgu þar sem innkaupsverð er hærra í íslenskum krónum. Við þá verðbólguhækkun, aukast aftur innistæður og kröfur og svo framv. og svo framv.

    4) Ef við verðtryggjum allt þá breytist í raun ekkert. Það er enginn munur ef allar stærðir hækka jafnt t.d. um 10%

    5) Ef við afnemum verðtryggingu þá tapa allir á verðbólgu.

    6) Ef við afnemum verðtryggingu, þá er ekki best fyrir fjárfestann að geyma peningana inn á bók. Fjárfestirinn leitar ætíð að bestu fjárfestingunni. Því fer hann að kaupa hlut í rekstri, hlutabréf, eykur neyslu. Hvað gerist þá. Jú peningarnir fara að ,,vinna“. Velta í samfélaginu eykst. Fjárfestirinn kaupir fasteign. Eigandi fasteignarinnar getur þá keypt sér nýtt hús. Eigandi fasteignarinnar getur svo notað peningana í einhver vörukaup og svo framv. Velta eykst, fyrirtæki ráða til sín nýja starfsmenn. Fólk fer af atvinnuleysisbótum yfir í laun og hefur meira á milli handanna til að greiða lán eða auka neyslu.

  • Hallur Magnússon

    … ekki íslenska krónan heldur 🙂

  • Eygló Harðardóttir

    Takk fyrir umræðuna. Bjarni Bragi Jónsson, fv. aðstoðarseðlabankastjóri og einn helsti sérfræðingur landsins í verðtryggingu skrifaði: „Verðtrygging út af fyrir reyndist þó ekki fullnægjandi fremur en vænst var til þess að tryggja vöxt og viðgang lánsfjárins, heldur var sá árangur háður auknu og síðan fullu vaxtafrelsi.“ Raunávöxtun lánsfjár fór ekki að vera jákvæð að fullu fyrr en komið var á vaxtafrelsi. Það er og hefur ætíð verið lykilatriðið.

    Það er þó ekki þar með sagt að raunávöxtunin eigi ætíð, frá mánuði til mánuðar að vera jákvæð. Aðalatriðið er að raunávöxtun verði jákvæð yfir lánstímann.

    Verðtryggingin leiðir einnig til ákveðinnar sjálfvirkni í hækkunum. Dæmi um þetta er t.d. hvernig ríkið gerir sínar fjárhagsáætlanir. Tölur frá því í fyrra eru lagðar fram, þær margfaldaðar með innlendri verðlagsvísitölu. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir eru skattahækkanir, gjaldtaka og niðurskurður ákveðinn. Það leiðir svo til hækkunar verðlagsvísitölu sem þarf að taka tillit til á næsta ári og svo koll af kolli.

    Engin hugsun, bara sjálfvirkni.

    Kaupmáttur launa hefur rýrnað, atvinnuþátttaka hefur dregist saman = laun hafa lækkað eða staðið í stað. Verðmæti fasteigna hefur lækkað eða staðið í stað. Það sem hefur hækkað eru skuldirnar. Jafnvel þótt þeir sem eiga mikið fjármagn hafa getað keypt eignir fyrir færri krónur.

    Hverjum hefði dottið í hug fyrir nokkrum árum að lífeyrissjóðirnir gætu keypt N1, Promens, Icelandic Group, Vodafone, Advania, Plastprent og Icelandair Group fyrir 31,5 milljarða króna?

    Þess vegna er þetta ekki lengur spurning um verðgildi, heldur ávöxtunarkröfu.

    Að lokum vil ég benda á að upptaka evru myndi ekki afnema verðtrygginguna. Dæmi um það eru lán Íbúðalánasjóðs. Mér skilst að þar yrðum við svo „heppin“ að fá verðtryggða evru á húsnæðislánum okkar skv. núverandi lánasamningum og eins og bent hefur verið á þá er líka verðbólga á evrusvæðinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur