Þriðjudagur 20.03.2012 - 09:51 - 6 ummæli

Íslensk börn og kynhegðun

Íslendingar byrja snemma að stunda kynlíf. Í könnun frá 2006 um heilbrigði skólabarna í heiminum kom í ljós að 29% íslenskra drengja á aldrinum 15-16 ára höfðu stundað kynmök. Hlutfallið var töluvert hærra meðal stúlkna, eða 36% og var einungis hærra hjá dönskum (40%) og grænlenskum (66%) stúlkum. Fjöldi bólfélaga er einnig hæstur hér á landi samanborið við önnur norræn ríki. Á sama tíma er notkun smokka með því lægsta á Vesturlöndum og notkun hormónagetnaðarvarna hefur dregist saman, að undanskilinni sölu á neyðargetnaðarvörn.

Helstu ástæður þess að börnin okkar byrja snemma að sofa hjá er vegna þrýstings frá vinahópnum, skortur á samskiptum og áfengisneysla.

Þessar staðreyndir eru ekki nýjar af nálinni þótt umræðan undanfarna daga um að stúlkur allt niður í ellefu ára gamlar séu að stunda kynlíf gefi annað til kynna. Við getum haldið áfram að hunsa þessar staðreyndir. Það hefur gengið ágætlega hingað til og árangurinn eftir því.

Tæp 40% stúlkna og fjórðungur drengja á aldrinum 16-19 ára höfðu séð eftir því að stunda kynlíf. Tíðni klamydíu og kynfæravartna er með því hæsta sem þekkist og barneignir í aldurshópnum 15-19 ára eru mun fleiri en í öðrum norrænum ríkjum. Árið 2008 var fjöldi barna á hverjar 1.000 konur 15-19 ára 14,6 á Íslandi, 9,3 í Noregi, 8,6 í Finnlandi og 6,0 í Danmörku og Svíþjóð.

Við verðum að axla ábyrgð sem samfélag á því að börnin okkar stunda kynlíf alltof snemma, á óheilbrigðan og óábyrgan máta og grípa til aðgerða. Við gerum það með því að auka fræðslu um kynlíf og mikilvægi þess að vera eldri og tilfinningalega tilbúinn þegar byrjað er að stunda kynlíf. Með því að fjölga unglingamóttökum og að framhaldsskólar séu með heilsugæslu. Það gerum við með því að auka aðgengi að ódýrari hormónagetnaðarvörnum og smokkum og forvarnir gegn áfengisneyslu.

Hættum að hunsa staðreyndir, – börnin okkar eiga einfaldlega betra skilið.

(Greinin birtist fyrst í FBL þann 20. mars 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Á hverju byggirðu þessa fullyrðingu, Eygló?:

    „Helstu ástæður þess að börnin okkar byrja snemma að sofa hjá er vegna þrýstings frá vinahópnum, skortur á samskiptum og áfengisneysla.“

  • Eygló Harðardóttir

    Kíktu á tengilinn inn á skýrslu Velferðarráðherra um heilbrigði ungs fólks sem er í greininni.

  • Ég var búinn að skoða tengilinn og það var þess vegna sem ég spurði. Ég fæ ekki séð af því sem þar er sagt, um tengsl þess sem þú talaðir um, að hægt sé að draga þær ályktanir um orsakasambönd sem þú gerir í staðhæfingunni.

    Mér hefur lengi fundist þú einhver málefnalegasta manneskjan á þingi. Þess vegna vona ég að mér leyfist að benda á að það er ekki hægt að draga ályktanir um orsakatengsl, eins og þú gerðir, af þessum niðurstöðum.

    Það er til vansa fyrir umræðuna ef slíkt er gert. Nóg er samt af upphrópunum sem ekki standast skoðun, þótt þetta sé vissulega með því mildara sem sést.

  • Kannski fór þetta framhjá mér en ég sá þetta ekki í skýrslunni.
    Þar stendur að höfundur telur að helstu áhættuþættir þess að hafa stundað kynlíf sem það sá eftir voru „Félagslegur þrýstingur, ófullnægjandi aðgengi að getnaðarvörnum og áhrif áfengis eða vímuefna“

    Segir hvergi að þetta sé helstu ástæður fyrir því að byrja að sofa hjá snemma.

    Svo kemur reyndar næsta málsgrein, en þar er verið að tala um afhverju fyrsta kynlífsreynsla kvenna valdi oft vonbrigðum, þá eru þessi hlutir nefndir „þrýstingur frá strákum og
    vinkvennahópnum til að stunda kynlíf áður en þær voru tilfinningalega tilbúnar, skortur á
    samskiptum milli aðila um væntingar og óskir og þáttur áfengisneyslu.“

    Kannski smámunasemi í mér en þarna er eingöngu átt við konur auk þess er hvergi minnst á aldur, heldur er eingöngu átt við fyrsta skiptið þeirra.

  • Eygló Harðardóttir

    Takk fyrir ábendingarnar en ég er ekki sammála þeim.

    Í skýrslunni er talað um tengsl á milli áfengisneyslu og óábyrgrar kynlífshegðunar og samtalskönnun við konur og niðurstöður hennar af hverju þær upplifa neikvæðar tilfinningar varðandi fyrstu kynlífsreynslu. Stúlkur eru mun líklegri til að byrja að sofa hjá ungar en drengir.

    Mér finnst áhugavert að þetta sé talinn vera einhver lykilpunktur í greininni, frekar en sláandi tölulegar staðreyndir um ótímabæra, óábyrga og óheilbrigða kynhegðun barna hér á landi í samanburði við lönd bæði í Norður-Ameríku og Evrópu.

    Því miður hefur skort á málefnalega umræðu á þessum staðreyndum og þeim aðgerðum sem ég og fleiri erum að leggja til. Var það von mín að greinin myndi breyta því en eflaust þarf töluvert meira til.

  • Ósk Ingvarsdóttir

    Sæl! Fjöldi fæðinga hér á landi hjá 15-19 ára er í takt við alla aðra aldursflokka, en við höfum alltaf verið með fleiri fæðingar en nágrrannalöndin. Í sumum löndum t.d. Ítalíu og Þýskalandi er fæðingartíðnin komin undir 1 per konu. Viljum við það ?
    Svíar eru með fáar fæðingar í yngsta adurshópnum, alveg rétt, en þeir eru með flestar fóstureyðingar allra Norðurlandanna og skera sig verulega úr, en við aftur á móti í næstneðsta sæti og sérstaklega eftir því tekið hve mikil fækkun er í yngsta hópnum. Viljum við skipta um sæti við Svía?
    Ef litið er á hópinn 15-19 ára sem við erum að tala um er mikill þroskamunur á 15 ára og 19 ára. Ég hef íslensku tölurnar fyrir þennan aldurshóp og það eru örfáar fæðingar hjá 15 ára og sama gildir um 16 ára. Þær 19 ára standa svo fyrir næstum helmingi fæðinga í þessum flokki. Þar á meðal eru örugglega margar hamingjusamar mæður og glöð börn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur