Föstudagur 04.05.2012 - 18:50 - 4 ummæli

Ræða @ Stjórnarskrárfélaginu

(Þessi ræða var flutt á fundi Stjórnarskrárfélagsins 4. maí 2012. Umræðuefnið var 39. gr. í tillögum stjórnlagaráðs um tilhögun kosninga til Alþingis, sjá hér.)

Fundarstjóri, fundargestir:

Hlutverk okkar hér er að ræða 39. gr. frumvarps stjórnlagaráðs um kosingar til Alþingis.

Það er sannfæring mín að eitt erfiðasta og viðkvæmasta viðfangsefnið við breytingar á stjórnarskránni verði mótun kosningakerfis til Alþingis. Hver og einn þingmaður vill gjarnan telja sig geta tekið skynsama og rökrétta afstöðu, – en það getur verið erfitt þegar að því kemur.

Við síðustu kosningar lögðum við Framsóknarmenn mikla áherslu á lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll. Því ætluðum við að ná fram með því að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem tryggði sjálfstæði Alþingis og setti framkvæmdavaldinu skorður.

Megináherslur okkar voru að ný og nútímaleg stjórnarskrá yrði samin þar sem aðskilnaður löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds yrði skerptur til muna. Því ættu ráðherrar ekki að gegna þingmennsku og ráðning hæstaréttardómara að vera aðskilin frá framkvæmdavaldinu. Beint lýðræði yrði aukið og oftar leitað til þjóðarinnar um álit hennar á einstökum málum. Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum yrði tryggt í stjórnarskrá. Mannréttindi yrðu ætíð í hávegum höfð og þess gætt að allir þegnar gætu haldið reisn sinni. Brýnt væri að tryggja sjálfstæði fjölmiðla, sem oft eru nefndir fjórða valdið.

Hvað aðrar tillögur stjórnlagaráðsins varðar, hef ég reynt að nálgast þær á grundvelli framsóknar- og samvinnustefnunnar. Þar legg ég annars vegar til grundvallar stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar og þau markmið með stjórnarskrárbreytingum sem þar komu fram og hins vegar grunngildi Framsóknarflokksins og samvinnuhreyfingarinnar. Þar segir að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar og að manngildi sé ætíð sett ofar auðgildi.

Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslu á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsingar til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju manna fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

Er það ekki kjarninn í tillögu stjórnlagaráðsins um kosningar til Alþingis? Í greininni segir m.a.:“Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt…Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hvert þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.“

Sumir hafa túlkað hugtakið einn maður – eitt atkvæði sem jafnt vægi atkvæða þar sem hver og einn þegn þjóðfélagsins hafi sömu pólitísku áhrif. Ég er þó þeirrar skoðunar að pólitískt jafnrétti sé ekki aðeins jafnt atkvæðavægi eins og umræða hér á landi hefur mikið einkennst af, heldur einnig jafnræði til að ná árangri í kosningum og jafnræði til að hafa áhrif á löggjöf og landsstjórn.

Í kosningunum 2003 var í fyrsta skipti kosið skv. núverandi kosningakerfi. Markmið þessa kerfis voru margvísleg. Því var ætlað að jafna áhrif einstakra kjósenda, en um leið að tryggja að jafnræðið á landsvísu héldist og þingmannafjöldi flokka væri í hlutfalli við atkvæðamagn þeirra. Með breytingu á kjördæmaskipan var ætlunin að tryggja ákveðið landfræðilegt jafnvægi en um leið ákveðið jafnræði með kjördæmunum, að þau yrðu stór og með fjölbreytta innbyrðis hagsmuni þannig að þröngt hagsmunapot myndi ekki ráða ferðinni.

Þessum markmiðum hefur að mörgu leyti verið náð.

Misvægið hefur farið minnkandi og mun minnka enn frekar við alþingiskosningarnar 2012 þegar þingmaður mun flytjast frá NV-kjördæmi til Suðvesturkjördæmis. Þingmannafjöldi er í hlutfalli við atkvæðamagn sbr. að eftir kosningarnar 2009 var minn flokkur með 14,8% atkvæða og 14,3% þingmanna.

Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, má t.d. finna ekki bara marga af fallegustu stöðum landsins, heldur einnig þéttbýli og dreifbýli, vaxtar- og samdráttarsvæði, öflugar sjávarbyggðir og sterkustu landbúnaðarhéruð landsins, fjölbreyttan iðnað og mikla ferðaþjónustu.

Mikill þrýstingur er þó að jafna misvægi atkvæða einstakra kjósenda líkt og kom fram á þjóðfundinum og auka pólitískt jafnrétti með tilliti til landfræðilegrar stöðu. Að sama skapi er mikil tortryggni gagnvart frekari breytingum hjá kjósendum víða um land.

Af hverju er það?

Meirihluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Þar má finna Alþingi, alla stærstu fjölmiðla landsins, alla stjórnmálaflokkana, öll megin hagsmunasamtökin, helstu fjármála- og stjórnsýslustofnanir og öll ráðuneytin. Þetta endurspeglast ekki hvað síst í öflun og eyðslu opinbers fjár sem er höfuðborgarsvæðinu ótvírætt í hag á meðan hlutfallið milli tekjuöflunar og ráðstöfunar er landsbyggðinni í óhag. Í könnun Vífils Karlssonar á ráðstöfun opinberra fjármuna árið 2002 kom fram að 75% opinbers fjár er ráðstafað í Reykjavík meðan aðeins 42% fjárins er aflað þar.

Frekari samþjöppun pólitísks valds í höfuðborginni með jöfnun atkvæða myndi þannig hugsanlega fela í sér minni pólitíska mismunun í orði, en áframhaldandi efnahagslega og pólitíska mismunun á borði.

Er það lýðræðislegra? Er það sanngjarnara? Tryggir það frekar jafnræði þegnanna? Er það í anda samvinnunnar?

Dr. Phil, uppáhaldssjónvarpslæknir minn, sagði einu sinni sem oftar að svarið við djúpum spurningum á borð við þessar væri oft að finna í annarri spurningu: „Hvernig er þetta að virka fyrir þig?“

Hér ætla ég að fá nota orðið „þú“ sem samnefnara fyrir mig og aðra íbúa landsbyggðarinnar.

Þetta misvægi atkvæða hefur ekkert virkað.

Núverandi misvægi atkvæða hefur ekki dregið úr samþjöppun valds og áhrifa hér á höfuðborgarsvæðinu. Við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna höfum mátt okkar lítils gagnvart rökum um hagræðingu og hagkvæmni í stjórnsýslunni sem endurspeglast meðal annars í fækkun opinberra starfa hringinn í kringum landið og átakanlegum niðurskurði heilbrigðisþjónustunnar eftir hrun.

Er því ekki kominn tími til að hætta berja hausnum við steininn? Er ekki réttar að taka umræðuna um leiðréttingu mismunar alla leið? Umræðuna um pólitískt jafnrétti?

Virða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, – sem er nánast samhljóða tillögum stjórnlagaráðsins?

Það gerum við með ákvæðum í stjórnarskrá um jafnt vægi atkvæða.

En einnig með ákvæðum í stjórnarskrá um aukið sjálfræði sveitarfélaganna, dreifingu stjórnsýslustofnana og ráðuneyta um land allt, sanngjarna dreifingu opinberra fjármuna í samræmi við öflun þeirra og með því að staðsetja Alþingi einnig út á landi.

En nánast ekkert af þessu má finna í tillögum stjórnlagaráðs.

Við hefðum þá kannski einhvern vopn til að verjast brynjuðum talsmönnum hagkvæmni og hagræðingar, – „Sorrí, – en þetta stendur í stjórnarskránni og eins og þú veist þá eigum við að virða stjórnarskránna. Meira að segja Landsdómur sagði það.“

Ef við eigum að leiðrétta mismunun þá verðum við að horfast í augu við alla mismunun, allt ójafnræði, alla ósanngirni, allan lýðræðis- og áhrifahalla – ekki bara það sem hentar okkur og okkar hagsmunum hverju sinni.

Eru menn tilbúnir til þess?

Eru menn tilbúnir til að byggja betra samfélagi á grunni samvinnunar?

Ég er tilbúin til þess.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Árni Finnsson

    Það er grundvallaratriði í lýðræðiskerfi að atkvæði kjósenda vegi jafnt. Punktur. Annað misvægi milli landshluta kemur því máli ekki við.

  • Eygló Harðardóttir

    Af hverju kemur það málinu ekki við?

  • Árni Finnsson

    Ekki er hægt að deila í mannréttindi með vísan til tímabundinna pólitískra hagsmuna einstakra flokka. Grundvallarreglan er að allir menn hafi jafnan atkvæðisrétt.
    Í eina tíð þótti það góð pólitík í Alþýðubandalaginu að landsbyggðin hefði fleiri þingmenn en höfuðborgarsvæðið og var það rökstutt með að Reykjavík væri stjórnað af íhaldinu og veldi heildsala. M.ö.o. eðlilegt þótti að brjóta mannréttindi vegna tímabundinna hagsmun eins og í ljós kom þegar R-listinn komst til valda. Hagsmunir Framsóknflokksins hafa lengi falist í að standa gegn jöfnum atkvæðisrétti.
    „… jafnræði til að ná árangri í kosningum og jafnræði til að hafa áhrif á löggjöf og landsstjórn.“ er ekki unnt að tryggja með því að takmarka rétt íbúa á höfuðborgarsvæðisins. Slíkar hugleiðingar eru málinu óviðkomandi.

  • Eygló Harðardóttir

    Ég skil ekki alveg tenginguna við hagsmuni einstakra flokka. Í ræðunni kemur fram að búið er að jafna atkvæðavægi hvað varðar heildarþingmannafjölda. Framsóknarflokkurinn yrði með sama fjölda þingmanna líkt og aðrir flokkar við þá breytingu sem stjórnlagaráð er að leggja til. Sama gildir um aðra flokka. Þeir kæmu bara væntanlega úr öðrum kjördæmum eða af landslistanum.

    Meginrökstuðningurinn fyrir jöfnun atkvæða er að það er ósanngirni. En hver er sanngirnin í því að kjósendur á landsbyggðinni greiða í sameiginlega sjóði og fá ekki nema brot af þjónustunni sem Reykvíkingar fá og hafa lítil áhrif á landsstjórn og stefnumótun?

    Pólitískt jafnrétti er svo miklu meira en bara 1 maður eitt atkvæði og því leggjum við samvinnumenn áherslu á mikilvægi lýðræði, samvinnu, sanngirni, og jafnræðis.

    Hver er sanngirnin, réttlætið, mannréttindin að traðka á minnihlutanum? Að þjappa valdi saman, í stað þess að dreifa því.

    Nákvæmlega engin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur