Fimmtudagur 10.05.2012 - 09:16 - 14 ummæli

Von fyrir þjóðina?

Fyrir nokkru fengum við þingmenn tölvupóst með fyrirsögninni „Takk fyrir það, þingmenn“.   Þar fór ónefndur kjósandi í gegnum loforð síns flokks (…ekki Framsókn, þótt við fengjum okkar skot í póstinum…) og taldi lítið hafa verið um efndir.

Að hans mati víkja hagsmunir heimilanna og fyrirtækjanna sífellt fyrir ýmsu öðru sem virðist standa þingmönnum nær.

Hann spurði: Fyrir hvaða málum hefur flokkurinn barist á þessu kjörtímabili?  Hver eru þau mál sem flokkurinn hyggst berjast fyrir á næsta kjörtímabili?  Í næstu ríkisstjórn? Þetta væru spurningarnar sem brenna á kjósendum.  Þetta væru spurningarnar sem forysta flokksins og þingflokkur hefðu ekki svarað með viðunandi hætti.

Það vantaði von fyrir þjóðina.

Þótt póstinum hafi ekki verið beint til mín,  var ég hugsi yfir þessum skilaboðum.

Alþingi kemur saman í dag kl. 10.30 eftir nefndadaga.   Útlit er fyrir að við munum halda áfram að ræða skipan mála í stjórnarráðinu skv. dagskrá.

Við munum ekki ræða þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta, nauðungarsölu, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki, skattaafslátt vegna húsnæðissparnaðar, afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði eða skipan starfshóps til að nýta skattkerfið til að koma til móts við heimili við lánsveð og yfirskuldsetningu, – svona til að nefna nokkur mál sem ég hef lagt fram á þessu þingi eða verið meðflutningsmaður að.

Nebb…við munum ræða nöfn á ráðuneytum.

Er skrítið að kjósandi velti fyrir sér forgangsröðuninni?

Spyrji hvar megi finna von fyrir þjóðina?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Bjarnveig

    Þó ég sé ekki á móti breytingum á skipan mála í stjórnarráðinu þá tel ég núverandi fyrirkomulag ekki aðalvandinn í dag.
    Einnig minnist ég þess ekki að nokkur flokkur hafi haft það á stefnuskrá sinni að gera stórar breytingar þar.

  • Nei.

  • Eygló !! „Lestu Vindhanastjórnmál Gísla Baldurssonar“

  • Pétur J.

    Það er stjórnarandstaðan sem kemur í veg fyrir að hægt sé að ræða stóru málin, með því að halda úti málþófi um „smámál“

  • Það er búið að gera ótrúlega mikið fyrir heimilin þó eflaust sé einvern lúxusvanda eftir að leysa. Ég sæi fyrir mér stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks koma jafn mikið til móts við þetta fólk. Slík stjórn hefði aðeins gert úrbætur sem samhliða hefðu tryggt auðfólkinu í landinu mun meiri bætur, sbr tillögur Sigmundar Davíðs um flatan niðurskurð skulda o.s.frv. Uppstokkun a ráðuneytum, stjórnarskrármálið og sjávarútvgsmálið eru mun brýnni mál.

  • Guðsteinn Einarsson

    Það mætti alveg forgangsraða betur á þingi og skipuleggja þingstörf betur þannig. En er ekki vandinn í grunnin að það eru bara tveir stjórnmálaflokkar á þingi, stjórnarandstaða og stjorn (klofin þó).
    Er ekki sameining ráðuneyta í samræmi við það sem Framsókn og allir hinir hafa talið nauðsynleg!
    Er ekki vandinn sá að þingmenn eru í eðli sýnu vindhanar sem geta ekki fylgt stefnu heldur leggja megináherslu á að þvælast sem mest hver fyrir öðrum?

  • Kristinn J

    Akkurat; Eygló, gott að þú tókst þetta upp. En það vantaði smá uppá: Leyfi ég mér hér að að birta það, það er nefnilega engin VON fyrir þjóðina meða Sjallarnir haga sér svona í málþófinu og að auki fótum troða samþykktir landsfundar

    „Takk fyrir það þingmenn“ Hrein snildar skrif höfundar ÓA.

    „Ég var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í nóvember á síðasta ári. Þar var samþykkt skýr og skorinorð ályktun um fjármál heimilanna. Stefnu þingflokksins, sem miðaðist við 110 prósent leiðina í skuldamálum heimila, var hafnað með öllu enda hafa virtir alþjóðlegir hagfræðingar kallað þá leið geggjun. Segja má að þeim ályktunardrögum, sem forysta flokksins sendi inn á landsfund, hafi verið kastað í ruslakörfuna. Þegar upp var staðið samþykkti landsfundurinn einum rómi nýja og róttæka stefnu um lausnir í fjármálum heimilanna.

    Nú er bráðum liðið hálft ár frá því að landsfundinum lauk og vert er að skoða hvernig þingflokkur sjálfstæðismanna hefur fylgt stefnu flokksins um fjármál heimilanna eftir á þingi. Skoðum nokkur lykilatriði úr ályktun landsfundar um fjármál heimilanna og efndir þingflokksins.

    Ályktun:
    Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða lög nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin setti í kjölfar ólöglegu gengislánanna. Lagasetningin hefur aukið á óvissu, kallað á málaferli og skaðað stöðu lánþega.

    Efndir:
    Hæstiréttur hefur dæmt afturvirkni laga nr. 151/2010 andstæða stjórnarskrá og þannig bætt stöðu lánþega. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekkert gert.

    Ályktun:
    Sjálfstæðisflokkurinn vill að lánþegum verði veitt skjól gegn vörslusviptingum á meðan dómsmál um lánasamninga eru ekki til lykta leidd.

    Efndir:

    Engar.

    Ályktun:
    Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.

    Efndir:

    Engar.

    Ályktun:
    Sjálfstæðisflokkurinn vill auka möguleika skuldara til þess að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að til gjaldþrots komi, m.a. með því að heimilt verði að afsala fasteign til lánveitanda svo forðast megi gjaldþrot. Úrræðið gildi tímabundið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er nauðsynlegt að löggjöfin torveldi ekki þeim sem verða gjaldþrota að hefja aftur eignamyndun. Tryggja þarf að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki stofn til álagningar tekjuskatts.

    Efndir:

    Engar.

    Ályktun:
    Landsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, sem getur leitt til að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Verðtrygging neytendalána á ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi.

    Efndir:

    Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í „starfi“ allra þingflokka sem miðaði að því að finna leiðir til að minnka vægi verðtryggingar hér á landi. Það starf beið skiptbrot í mars, áður en frestur til að leggja fram þingmál á þessu þingi rann út. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur engin þingmál flutt um afnám verðtryggingar á neytendalán eða önnur atriði sem leitt geta til þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og í nágrannalöndunum – jafnvel þó að landsfundurinn hafi gert skýra kröfu um slíkt.

    Í lok mars rann út frestur til að leggja fram þingmál á þessu þingi. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekki lagt fram eitt einasta mál til að fylgja eftir stefnu landsfundarins um fjármál heimilanna. Á næstum hálfu ári hefur ekkert gengið undan þingflokknum í þeim mikilvæga málaflokki. Afsakið, þetta er ekki alveg rétt. Þingmaður flokksins bar fram fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Fyrirspurnin var á dagskrá þingsins síðasta dag apríl mánaðar. Þingmaðurinn hefði eins getað vikið sér að næsta manni úti á horni og spurt sömu spurningar.

    Heimilin eru engu bættari.“

  • Eyjólfur

    Pétur J,

    Dagskrárvaldið liggur hjá meirihlutanum.

    Helsta vonin fyrir þjóðina liggur í því að nú er minna en ár í næstu þingkosningar.

  • Siggi Jóns.

    Eygló
    Hvers vegna er viðvera á þingi ekki heilsársstarf?
    Það er enginn vafi að það að gera Alþingi að hefðbundnum vinnustað með eðlilega viðveru þingmanna og venjulegu sumarfríi, myndi leysa þetta rugl sem er alltaf í kringum þinglok.
    Varaþingmenn geta alltaf komið inn í afleysingar eftir þörfum og það er þess vegna bara bull að þingmenn þurfi svo og svo langan tíma til að sinna kjördæmamálum.

  • Eygló Harðardóttir

    Takk fyrir þetta Kristinn. Ólafur er einnig búinn að benda mér á þetta en ég hafði ekki áttað mig á að textinn var hans.

    Greinin hans Ólafs er mjög beitt og vel skrifuð eins og reikna má við frá honum.

    Ég var mjög hugsi eftir þessa sendingu, – enda fast skotið á bæði stjórn og stjórnarandstöðu.

    Hálfgert neyðarkall – eftir að þingmenn fari að huga að heimilunum, fyrirtækjunum, fólkinu í landinu.

  • Eygló Harðardóttir

    Ágætis ábendingar, sérstaklega með að varaþingmenn gætu í auknu mæli komið inn. Ég er þó ósammála að ekki þurfi að sinna kjördæmunum. Það skiptir mig verulegu máli að fara út í kjördæmið mitt, tala við fólkið mitt, heyra skoðanir þeirra beint og milliliðalaust. Myndin vill oft vera ansi brengluð af daglegu lífi í gamla, fallega steinhúsinu okkar, viðhorf og áherslur fólks svo ólíkar.

  • Siggi Jóns.

    Eygló
    Þið getið auðveldlega sinnt kjördæmunum á meðan varaþingmenn leysa ykkur af, eftir þörfum.
    Það getur varla talist eðlilegt að störf Alþingis mótist ennþá af sauðburði og smalamennsku í sveitum.

  • Viðhorf fólks í gamla steinhúsinu á að endurspegla hagsmuni kjósenda en ekki mælt í þungri pyngju hagsmuna aðila.

  • Alþingi Íslendinga og fjórflokkurinn er að fara lang leiðina með tortíma þjóðinni. Það er afrek útaf fyrir sig, ein fáminnsta þjóð í heimi situr á verðmætum auðlindum eins og græni orku, náttúru, ferskvatni og sjávarfangi. En í stað þess að byggja upp þjóðfélag situm við upp með þjóffélag sem hlífur engum nema græðgisöflunum, sem ætla sér allt og það tafarlaust. Hvar endar þetta? Hversu mörg efnahagshrun eigum við að taka á okkur? Hvernig eigum við að vinna okkur úr henni með peningavampíur á Alþingi sem hafa það eitt að markmiði að viðhalda rányrkjunni og helst auka gróðann. Almenningur skiptir engu máli eins sést á afförinni sl. áratug eða svo.

    En Eygló, þú virðist vita sitthvað og ástæða til að vona að fleiri í þessum klúbbi fari að vakna við öðru en súkkulaðinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur