Þriðjudagur 29.05.2012 - 14:34 - 8 ummæli

Þingræði og meirihlutaræði

Stundum getur verið áhugavert að lesa eldri pistla, og velta fyrir sér hversu langt við eru raunar komin í umræðunni um þingræði, stöðu forsetans og lýðræði. Þann 23. febrúar 2011 skrifaði ég á moggablogginu:

Á blaðamannafundinum á Bessastöðum fékk forsetinn spurningu um hvort að hann væri ekki að vega að þingræðinu með því að vísa Icesave samningnum í annað sinn til þjóðarinnar.  Undir það tók svo Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í utandagskrárumræðu um Icesave í gær í þinginu.

Ég get tekið undir það að forsetinn hefur markað ný spor í sögu forsetaembættisins og íslensku þjóðarinnar með því að vera fyrsti forsetinn sem nýtir sér ákvæði 26.gr. stjórnarskrárinnar.

En ég er ekki sammála því að hann sé með því að vega að þingræðinu.

Í máli hans hefur hann ítrekað lagt áherslu á að líf ríkisstjórnarinnar eigi ekki að vera undir í hvert sinn sem hann ákveður að synja lögum staðfestingu og vísa þeim til þjóðarinnar.   Þingræði hefur nefnilega verið þýtt þannig að ríkisstjórn situr með stuðningi meirihluta Alþingis ,og svo lengi sem meirihluti þingmanna styður við ríkisstjórnina situr hún áfram.

Hins vegar getur þessi ákvörðun forsetans breytt því hvernig Alþingi starfar.  Stjórnarliðar verða núna að taka virkari þátt í umræðum, í stað þess að láta stjórnarandstöðuna eina um að ræða flókin og erfið mál.  Stjórnarliðar þurfa að standa fyrir máli sínu og reyna að sannfæra bæði stjórnarandstæðinga og þjóðina um að það sem þau eru að gera sé það rétta.

Þannig gæti beiting forsetans á 26. greininni styrkt umræðuhefðina á Alþingi, og leitt til þess að alþingismenn þurfi að færa fram betri rök fyrir sinni afstöðu, hlusta á gagnrök í stað þess að treysta á meirihlutaræðið.

Niðurstaðan gæti þannig orðið sterkara og betra Alþingi, -raunverulegt þingræði í stað meirihlutaræðis til stuðnings ríkisstjórnar.

———-

Hvað finnst ykkur?  Er einhver möguleiki á að þetta verði reyndin eða munum við þróa stjórnskipun okkar frekar í átt að forsetaræði?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Gott og vel, en ef fjölga á þjóðaratkvæðagreiðslum og firra þannig alþingismenn ábyrgð, þarf að setja um þær reglur. T.d. gæti þurft að banna hagsmunahópum að auglýsa áróður sinn. Það gengur ekki upp að í krafti fjármagns geti hagsmunahópar „hertekið“ fjölmiðlana og einokað umræðuna. Hvers virði er slíkt „lýðræði“ og fyrr hverja?

  • Ómar Kristjánsson

    þetta gengur aldrei upp. Vegna þess einfaldlega, að með sífelldu inngripi forseta (sem nb. er ábyrgðarlaus samkv. stjskr. og lætur ráðherra framkvæma vald sitt) inní mál ríkisins og í framhaldi hugsanleg vísun í þjóðaratkvæði – það þýðir bara að valdið er i raun ekki hjá þinginu heldur geta öll mál án nokkurra takmarka, fjármál ríkisins, skyldur samkv. alþjóðasáttmálum etc., ráðist í einni afmarkaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Sko, og sagt er að þingmenn eigi þá að kynna mál sitt fyrir þjóðinni eða agentera fyrir sinn málstað eða sjónarhorn o.s.frv. þetta er algjörlega óvinnandi verk! Vegna þess einfaldlega að flestir innbyggjar hafa ekki tíma til að setja sig inní mál. þeir hafa alveg nóg annað að gera. það eru í raun sárafáir sem hafa áhuga eða tíma til að setja sig inní mál að gagni. það var einmitt þessvegna sem fulltrúarlýðræði var fundið upp. Almenningur framseldi lýðræðislegan rétt sinn til fulltrúanna og fulltrúarnir áttu síðan að vinna að málefnum ríkisins o.s.frv. Utan um þetta hefur svo þróast mikið kerfi ss. ráðuneyti og ýmsar stofnanir ríkisins.

    Ef við ætlum núna að hafna þessu öllu, hafna fulltrúarlýðræði og þingræði og reiða okkur á þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál – þá erum við að tala um gjörbreitingu frá ríkjandi hefð alla 20. og 21. öld. Gjörbreitingu.

    Hitt er allt önnur umræða að það getur alveg verið réttlætanlegt að ákv. mál fari í þjóðaratkvæði. En þá er bókstaflega bráðnauðsynlegt að búinn sé til rammi utan um það og það skilgreint að ákveðin efni eigi ekki heima í þjóðaratkvæði. Og í framhaldi væri miklu mun betra að fólk sjálft gæti þá barasta krafist þjóðaratkvæðis milliliðalaust en ekki vera að blanda forseta inní það.

    þessi staða, að hafa að þingræði og fulltrúarlýðræði – og síðan allt einu dúkkar upp ábyrgðarlaus forseti samkv. stjórnarskrá sem ætlar að gera hitt og þetta og fólk er sumt að hvetja hann til að ónýta öll mál fyrir löglegum stjórnvöldum og í framhaldinu eigi hann bara að leggja fram frumvörp og reka og ráða ríkisstjórnir eftir behag – það er ekki hálf hugsun í þessu. þetta gengur aldrei upp þannig til lengdar. Annaðhvort er þingræði eða forsetaræði þar sem nb. forseti styðst við þingið með einum eða öðrum hætti. það að ætla að hafa þingræði og jafnframt ábyrgarlausan forseta sem getur hringlað út og suður í öllum málum er ávísun á kaost og anarkí. það getur enginn tekið slíkt ríki alvarlega. það er eigi hægt að bæði geyma kökuna og eta hana. Eigi hægt.

  • Forsetinn er að taka ráðin af þinginu með frumlegum túlkunum á stjórnarskránni. Þetta þróast í að hann skipti sér af málum sem eru líkleg til vinsælda og mun eftirláta þingi og ríkisstjórnum að moka flórinn.

    Þetta getur hann því virðing þingsins þverr með hverjum deginum. Ræður og andsvör stjórnarandstöðu er svo kjánalegt málþóf að það setur hroll að mér. (ekki að ég mæli vinnubrögðum stjórnarinnar bót)

    Ef þið þingmenn hleypið ÓRG svona langt endid þið á að verða gólfmottur forsetaembættisins. Nei mér þykir þetta ekki góð þróun.

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    Á raunastundum hafa þjóðir valið sér STERKA MENN, sem eiga að bjarga öllu. Elsku landar, ekki falla í þá gryfju.

  • Jens Jónsson

    Ég tel að beiting 26 greinar stjórnarskrárinar geti orðið Alþingi og Lýðræði til góðs ef henni er beitt af skynsemi eins og mér finnst Forsetinn hafa gert í þau 3 skipti sem hann hefur beitt henni.
    Ég held að þessi grein verið samt ekki að fullu virk fyrir en Alþingi hefur vikið forseta frá völdum fyrir að misbeita þessu ákvæði og fengið brottvikninguna staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Virðing Alþingis mun vaxa aftur með bættum vinnubrögðum ekki með því að reyna koma böndum á forsetan.

  • Mér finnst merkilegt hvað þingmenn taka inngripum forsetans af miklu æðruleysi. Það er einsog þingmenn vilji þannig þvo hendur sínar af lögbundinni ábyrgð sinni af stjórnarstörfum og færa forsetanum það vald að gera almenning að blórabögglum þegar erfið mál koma til kasta alþingis. Icesafe málið er dæmigert mál sem þjóðin átti að sleppa við að taka afstöðu til tvisvar sinnum því það var enginn skýr valkostur. Þeir sem túlka málið fyrir almenningi með þeim hætti að höfnun væri leiðin til borga ekki fyrir óráðsíumenn munu alltaf hafa yfirhöndina því hver vill gera slíka óhæfu? Allt tal um að fullvalda ríki semji um mál sín á milli fer yfir í tal um niðurstöður dómsmála. Dómsmál leysa engan vanda og kannski búa bara til nýjan. Á endanum munu samt koma samningar sem leysa málið. Það hefði bara verið betra að gera það fyrr en seinna til að geta snúið sér að næsta máli á dagskrá.
    Niðurstaða mín er að Ólafur misbeitti valdi sínu og alþingismenn höfðu ekki bein í nefinu til að bera ábyrgð á valdi sínu og standa og falla með sjálfu sér. Kannski það liggi þarna ástæðan fyrir því að almenningur ber ekki virðingu fyrir þinginu. Alþingi ber ekki virðingu fyrir sjálfu sér.

  • Þarna held ég að þú, Eygló, hafir, að vanda – hitt ef ekki naglann á höfuðið þá -a.m.k. náð kjarnanum.

    (Aukaatriði er lögfræðilega að flestir nota hugtakið „þingræði“ vitlaust – en það þýðir bara að ríkisstjórn þurfi að njóta stuðnings (eða hlutleysis) þjóðþingsins.)

    Pólitískt er forseti í mínum huga – bæði samkvæmt gildandi stjórnarskrá og samkvæmt nýju stjórnarskránni – mótvægi við þingveldið og flokksræðið, þó með ólíkum hætti sé. Það held ég að sé ekki aðeins rökstudd niðurstaða stjórnlagaráðs heldur „andi lýðveldisins“ eins og talað er um anda laganna; fólk vill ekki að flokkar (og Alþingi) ráði öllu alltaf.

  • „…Íslendingar héldu ekki eftir svo miklu af skreiðinni að nægði þeim til viðurlífs, en fisk nota þeir almennt í stað brauðs, því að þá skortir brauð, og sömuleiðis hafa þeir hvorki öl né ávexti, heldur lifa þeir einvörðungu af dýrum sínum, fiskveiðum og fiskum, en sé þetta frá tekið þá bíður þeirra ekkert annað en vesaldómur, svo að þeir farast af ófeiti og hungri.

    En þeir sem álitnir eru höfðingjar á landi þessu eru heimskulega auðginntir með bænum, drykk og mútum, en samt sem áður trúir hin einfalda og fátæka alþýða þeim og lætur blekkast. Þeir stuðla hvorki að nytsemi lands og þjóðar né skeyta nokkru þótt aðrir steypist í glötun og tortímingu, meðan þeir sjálfir geta ginið yfir nýjum og áður óþekktum drykkjuskap og svalli, en við það gleðjast þeir mjög.“

    Þetta skrifaði Hannes Pálsson, danskur hirðstjóri eftir Íslandsdvöl á árum 1419-1425. Þetta er alveg bráðmerkilegur lestur. Höfðingjarnir okkar hafa ekki breyst mikið í 600 ár enda látum við almenningur enn blekkjast. Tækifæri þó til að láta staðar numið við efnahagshrunið, kjósa þessa höfðingja í burtu og setja þeim nýju slíkar skorður að Össur færi samdægurs aftur í líffræðina og Jón Bjarnason í…hmmm.

    Byrjum á að kjósa burt Ólaf Ragnar í sumar og síðan alla þá höfðinga sem steyptu þessari þjóð í glötun í næstu Alþingiskosningum. Þetta er orðið helvíti gott af vesaldómi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur