Þriðjudagur 05.06.2012 - 00:02 - 22 ummæli

Steingrímur og veiðigjaldið

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, sagði þetta  um veiðigjaldið árið 1997:  

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. 

Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. 

Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Á þetta ekki við árið 2012?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Jú og þetta er alveg rétt hjá Steingrími. Þá!

    Síðan hefur útgerðin veðsett kvótann upp í rjáfur og braskað með andvirðið t.d. í útlöndum. Ekki fór féð í það sem Steingrímur er að lýsa.

    Treystir þú virkilega útgerðinni og hagsmunasamtökum þeirra, LÍÚ?

  • ´Allir útgerðarmenn samanlagt borguðu aðeins 300 miljónir í tekjuskatta árið 2010 þrátt fyrir hreinan hagnað upp á 45 miljarða. Þeir borguiðu svo í málamyndagjald 3 miljarða í auðlindagjald. Restina 42 þúsund miljónir, fóru að mestum hluta í vasa 70 fjölskyldna sem eiga 80% af kvótanum. Á síðustu 3-4 árum hafa þeir haft í hreinan hagnað 200 miljarða, af því hafa farið 6-8 miljarðar í ríkjissjóð. Enginn spyr hvar allir þessir peningar eru. Svo leigja þeir kílóið af þorsk kvóta á 290 krónur og af því fær ríkið 6 krónur. Ef þeir selja kvóta þá þurfa þeir ekki að borga söluskatt. Þrátt fyrir að það sé í skattalögum. Það hefur bara ekki tíðkast. Þessum aðilum hefur verið búið mjög þægilegt umhverfi. Það þarf þess vegna að spyrja þá sem hafa stjórnað landinu undanfarna áratugi hvers vegna þetta sé svona.´ Valur Bjarnason

    ´Með frekju og yfirgangi kúga kvótagreifar þjóðina til hlýðni. Með lygum í auglýsingaherferðum og með gráti og gnístran talsmanna. Með gíslatöku áhafna og sveitarfélaga. Með verkbanni og Sjómannadeginum. Með Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu. Með Ólafi Ragnari Grímssyni og ótakmörkuðu fjármagni. Fólk skelfur af hræðslu um allt land. Ríkisstjórnin hlýddi ofurvaldinu og lagði fram lagafrumvarp um varanlega leigu auðlindarinnar fyrir skít og kanil. Í stað sáttar við fólkið reynir hún árangurslaust að sættast við bófana. Þar með brestur sjálf forsenda ríkisstjórnar, sem miklar vonir voru bundnar við.´ Jónas Kr.

    Svarar þetta spurningunni Eygló?

  • Eygló Harðardóttir

    Eru íbúar landsbyggðarinnar ekki þegnar þessa lands? Eru það ekki íbúar sjávarbyggðanna sem eru að skapa þessi verðmæti?

    Af hverju er sett fram frumvarp um stórhækkaðan skatt á landsbyggðina (en um 80-90% aflaheimildanna eru þar) en engin ákvæði eru í því um að þessir fjármunir skili sér til baka?

    Þegar eru þessir landshlutar ofskattaðir. Rannsókn frá 2005 leiddi í ljós að Reykjavík er að ráðstafa 75% af opinberu fé á meðan aðeins 42% þess er aflað þar. Annarri hver króna af landsbygginni er ráðstafað í Reykjavík. Staðan hefur aðeins versnað við niðurskurðinn og smiðshöggið verður rekið á með þessu frumvarpi.

    Framsóknarmenn hafa talað fyrir hóflegu veiðigjaldi tengdu afkomu greinarinnar, en ætíð gert þá kröfu um að það skili sér að hluta aftur til sjávarbyggðanna og í nýsköpun og rannsóknir í greininni.

    Ég sakna einnig sárlega tillagna í frumvörpunum um að tryggja starfsfólki í greininni réttlátari hlut í verðmætunum s.s. með því að miða við markaðsverð í uppgjörum við sjómenn, að gildir kjarasamningar eða reglur um lágmarkskjör séu til staðar og að fiskvinnslufólk fái hlutdeild í hagnaðinum. Það væri sanngjarnt og réttlátt þar sem það myndi skila sér til allra þegna þessa lands í gegnum tekjuskattinn og til sjávarbyggðanna í gegnum útsvarið og hafnargjöldin.

    Í þessum frumvörpum felst því engin sátt við fólkið.

  • Þú ert að bera saman epli og appelsínur Eygló. Tugir milljarða árið 1997 eru ekki sama upphæðin nú. Það eru ekki íbúar sjávarplássa sem eru að skapa þessi verðmæti sem um ræðir. Auðlindagjaldið er vegna notkunar á auðlindinni sjálfri og hún er eign allra landsmanna. Úthlutaður kvóti verður veiddur eftir að nýtt auðlindagjald verður lagt á og líklega af sömu aðilum og nú, ef ekki þá einhverjum öðrum.
    Er það enn stefna Famsóknarflokksins að meina landsmönnum afgjaldi af auðlind sinni til að tryggja sérhagsmunaaðlilum milljarðagróða?

  • Gunnar J.

    Kæra Spillingarvakt,

    Í fyrra greiddi útgerðin yfir 4 milljarða í auðlindagjald og nokkra milljarða í viðbót í tekjuskjatt. Á þessu ári verður það enn meira nú þegar búið er að vinna upp nánast allt uppsafnað tap.

    Þú gerir þau misstök eins og flestir að rugla saman ebidtu og hagnaði. Þú mættir gjarnan laga það áður en þú kemur með svona fullyrðingar. Einnig ertu að taka með hagnað af allri fiskvinnslu en ekki bara veiðum. Hvernig er hægt að rukka auðlindagjald fyrir betri nýtingu á fiski vegna mikillar fjárfestingar í nýrri tækni? Er tæknin líka þjóðareign?

  • Sæl Eygló.
    Ég hef fylgst mikið með þér sem þingmanni og hefur mér þú vaxið mikið sem slíkur. Myndi meira segja kjósa þig, þó svo að ég búi ekki í þínu kjördæmi. Hitt er svo annað að ég mun líklega aldrei geta kosið flokkinn þinn, þannig að ég bíð eftir breytingum á k0sningalögum um persónukjör 😉 Varðandi grein þína í dag þá verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með hana. Hélt að afstaða þín til þessa máls næði fram yfir óbein tengsl þín við sjávarútveginn og þá staðreynd að þú býrð í Eyjum. Auðvitað litast öll afstaða þeirra sem búa úti á landi af ótta, hræðslu við breytingar. Það sjá það allir að ef þú býrð á stað sem hefur öfluga útgerð í bænum og það standa til breytingar, þá hugsa allir um sinn hag. Það nær allt frá stjórnarformanni téðara útgerðar til þeirra sem eru í kirkjukórnum. Því þetta snýst allt um peninga ekki satt. Ef illa gengur hjá útgerðinni, þá eru allt eins líkur á því að kirkjkórinn fái ekki styrkinn sinn hjá útgerðinni fyrir æfingaferðinni það árið.
    Sjáðu Eyjar, Ef illa gengur hjá Ísfélaginu, þá eru allt eins líkur á því að færri rafvirkjar fái vinnu hjá Tóta í Geisla. En þetta eru þá rök fyrir beinum áhrifum af breytingum á kerfinu. En kannski var Tóti í Geisla með ofmarga rafvirkja í vinnu því að Ísfélagið var að eyða of miklu af peningum sem það átti kannski ekki að fá upphaflega. Má ekki snúa þessu við?

    Annað dæmi, ef þú, því ég veit að þú hefur staðið í sjálfsstæðum rekstri, ræður mann/konu í vinnu. Þú semur um að greiða honum 100.000 í laun + akstur og bónus.
    Svo færð þú nýjan enduskoðanda til þín og hann séð að viðkomandi starsmaður er búinn að fá í 20 ár 100.000 + akstur en bónusinn er búinn að vera rangt reiknaður. Hvað gerir þú þá. Væntanlega kallar þú starfsmanninn inn á fund og tilkynnir honum að nú verðir þú að lækkka launin eða bónusinn því að dæmið hafi ekki verið rétt út reiknað. Og hvaða viðbrögð færðu þá frá starfsmanninum ?
    Verður þá einhver munur á honum og kirkjukórnum í fyrra dæminu ? Líkt og útgerðirnar nú, þá varla hættir starfskrafturinn að vinna hjá þér. Allir þurfa að hafa vinnu, ofan í sig og á . En að sníða stakk eftir réttu vesti.

    Varðandi rök þín um téða rannsókn, þá veit ég ekki hvað rannsókn þú vitnar í (væri gott að taka það fram ;)) en hitt veit ég að á höfuðborgarsvæðinu búa nú 2/3 þjóðarinnar. Hvað með allan virðisaukaskatt, hvar verður hann til ? Á landsbyggðinni. Nei væntanlega eftir hlutfalli íbúa 2/3 á höfuðborgarsvæðinu og þá væntanlega 1/3 á landsbyggðinni.
    Er ekki virðisaukanum skipta nokkuð jafnt í skattakerfinu ?

    Að lokum, segir þú að í frumvarpinu sé engin sátt við fólkið.
    Það kann að vera rétt, enda marg umrædd sáttarnefnd sem kvótaeigandur vísa í var ekki skipuð neinum af fulltrúum almennings. Allavega var ekki boðið upp á að aðili eins og ég gæti fengið e-ð að segja um málið. Það kalla ég ekki sátt.
    Ég höfuðborgarbúi og horfið á auðlind sem ég veit að er að skila vel til þjóðabúsins. Ég horfið líka á að ALLUR fiskur er nú munaðarvara ólíkt því sem var fyrir 20 árum. Ég horfið líka á útgerðir og eigendur þeirra sem hafa tekið mikla fjármunu út úr kerfinu á meðan ég greiði bara hærra fiskverð út úr búð. Jú, jú ég veit að ég má veiða í soðið fyrir mig og mína en afhverju má ég þá ekki bara fá mína aflahlutdeild og leigja hana út og/eða láta veiða hana fyrir mig. Það kæmi best út fyrir mig en ábyggilega ekki fyrir heildina. Hvar stöndum við ef allir myndu hugsa þannig ? Værum við þá samfélag ? Mér finnst það vanta hjá þér og mörgum sem eru á móti því að þjóðin fái nú réttilegan arð af þessar auðlind okkar sem hefur verið of lágur síðan 1984.

  • Gunnar J.

    Og Kæra Eygló.

    Ef allur fiskur yrði seldur á „markaðsverði“ þá væri „markaðsverð“ miklu miklu lægra en það er á fiskmörkuðum hér. Það sést best þegar fiskurinn úr hinum óhagkvæmu strandveiðum kemur á land og verð á mörkuðum hrynur um leið.

    Starfsfólk í sjávarútvegi semur við sínar útgerðir um viðmiðunarverð í skiptakerfi í gegnum sín samtök. Það eru flestir sáttir við það og það virkar. Ef hin leiðin yrði farin þá yrði vinna sjómanna mun óreglulegri af því útgerðir mundu stöðugt vera að reyna að tímasetja túra miðað við verð á íslenskum fiskmarkaði. Og það gæti alveg eins valdið launalækkun eins og hækkun. Mundi a.m.k. auka sveiflur í launum mikið.

    Laun í sjómanna eru mjög góð þessa dagana. Þeir hafa aðallega áhyggjur af þeirri launalækkun sem verður ef frumvörp ríkisstjórnarinnar eru samþykkt. Meiri en þriðjungur tekna sjávarútvegs fer í launakostnað. Það er augljóst að stóraukin skattheimta mun koma niður á launum þeirra.

  • Guðsteinn Einarsson

    Þetta á ekki við í dag. Gengið er þannig að það flæða fjármunir til útflutningsfyrirtækjana á kostnað almennings sem greiðir því mun meira. Með þessum málflutningi afhjúpar þú Framsókn sem sérhagmunagæsluhóp, enda búin að svíkja nánast alla kosningastefnuskránna. Skoðaðu uppgjör HB granda fyrir s.l. ár.
    http://www.hbgrandi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=570

  • Benedikt

    „Eru það ekki íbúar sjávarbyggðanna sem eru að skapa þessi verðmæti?“

    Hvað þýðir þessi spurning?

    Ertu að segja að einungis sá hluti þjóðarinnar sem býr á lanedsbyggðinni eigi að njóta afraksturs af þeirri auðlind sem þjóðin öll á?

  • Eygló, Eygló. – Það sem hefur gerst í millitímanum er, að þjóðin varð næstum gjaldþrota. Það breytir öllum forsendum og gerir vangaveltur þínar lítils virði.

  • Eygló Harðardóttir

    Pétur: Já, hún er eign allra landsmanna, líka þeirra sem búa annars staðar en í Reykjavík. Í frumvarpinu er ekki tryggt að íbúar annarra landshluta fái hlutdeild í veiðigjaldinu. Staðreyndir tala einfaldlega sínu máli. Rannsóknin sem ég visaði til í fyrra svari mínu er rannsókn sem Vífill Karlsson vann um hvar opinberu fé er aflað og hvar því er ráðstafað. Hans niðurstaða var að 75% þess er ráðstafað í Reykjavík á meðan aðeins 42% er aflað þar. Hann benti líka á að vegna uppbyggingar opinberrar þjónustu í Reykjavík færi um önnur hver króna af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Sú samþjöppun valds sem fylgir þessu er fullkomlega andstæð mínum hugsjónum sem samvinnu- og framsóknarkona.

    Í sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins segir þetta um veiðigjaldið: „Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings“

    Í grundvallarstefnuskrá flokksins segir þetta um búsetuskilyrði: „Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.“

  • Eygló Harðardóttir

    Sigfús: Ég hef nálgast þetta mál líkt og önnur út frá samvinnu- og framsóknarstefnunni. Grunngildi samvinnunnar eru m.a. að valdi skal dreift, að fólk axli ábyrgð á sínu eigin lífi, að við berum öll ábyrgð á samfélaginu, að jafnrétti sé tryggt, sem og sanngirni og samstaða. Engin sanngirni er í að leggja sérstakan skatt á landsbyggðina án þess að henni sé tryggð hlutdeild í samneyslunni. Enn meiri ofsköttun landsbyggðarinnar mun leiða til að valdi þjappast enn frekar saman í Reykjavík. Ekkert jafnrétti er fólgið í því né er fólki gefið tækifæri til að standa saman um sitt samfélag og sitt líf. Í samvinnufélögunum uppsker hver og einn í samræmi við sitt framlag, og við vinnum saman að hlutunum vegna þess að þannig erum við sterkari. Hægt er að kynna sér samvinnuhugmyndafræðina í tenglum hér til hliðar.

    Í grundvallarstefnuskrá flokksins segir þetta: „Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.“

    Í sjávarútvegsstefnu okkar segir: „Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem veiðigjaldið verður til t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.“

    Tryggjum sanngirni, tryggjum að allir þegnar landsins séu jafnréttháir, tryggjum samvinnu.

    Hér er nokkrir tenglar er varðar rannsókn Vífils Karlssonar:
    Landsbyggðinni blæðir, Reykjavík græðir. http://www.bifrost.is/sidur/frettasidur/i-umraedunni/nr/20594/
    Hvað færir sjávarútvegurinn á sunnanverðum Vestfjörðum til samfélagsins, http://vesturbyggd.is/skrar/skra/737/
    Álitsgerð vegna frv. Jóns Bjarnasonar, http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/frettir/alitsgerd_vifill_karlsson_B.pdf

  • Eygló Harðardóttir

    Gunnar J: Farmanna og fiskimannasamband Íslands, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasamband Íslands og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna eru því ekki sammála sbr. bókun þeirra við skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um fiskveiðistjórnun.

    Þar sögðu þeir:
    – að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.
    – að í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu, á hliðstæðan hátt og kveðið er á um í raforkulögum nr. 65/2003. Þar sem óheimilt verði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að fénýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur. http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/meginskyrsla_uppsett_lokaeintak.pdf

  • Eygló Harðardóttir

    Guðsteinn: Ég skil ekki athugasemdina sbr. ítrekaðar tilvitnanir mínar í framsóknar- og samvinnustefnuna, grundvallarstefnuskrá flokksins og sjávarútvegsstefnu flokksins. Endilega kynna þér líka skrif Vífils Karlssonar http://www.bifrost.is/sidur/frettasidur/i-umraedunni/nr/20594/ og http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/frettir/alitsgerd_vifill_karlsson_B.pdf, umsagnir hinna ýmsu byggðalaga hringinn í kringum landið http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=140&mnr=658 og nýja skýrslu Byggðastofnunar um íbúaþróun víðs vegar um land, http://www.byggdastofnun.is/is/frettir/samfelag-atvinnulif-og-ibuathroun-i-byggdarlogum-med-langvarandi-folksfaekkun

  • Eygló Harðardóttir

    Benedikt: Nei, ég er að segja að hún eigi einnig að njóta góðs af veiðigjaldinu. Stöðugur samþjöppun valds í Reykjavík gefur ekkert tilefni til að trúa að það muni skila sér aftur til sjávarbyggðanna án sérstaks ákvæðis um það í lögum og stjórnarskrá.

  • Eygló Harðardóttir

    Jónas: Þessu hafna ég. Einmitt þá er mikilvægast að halda í sín gildi og hugsjónir. Menn nota oft tækifærið við erfiðar aðstæður til að setja til hliðar stefnu og hugmyndafræði s.s. um lýðræði, þingræði, tjáningarfrelsi, félagafrelsi, réttaröryggi, rétt til einkalífs og fjölda annarra grunnstoða samfélagsins. Þetta mál snýst um jafnræði þegnanna, valddreifingu og samvinnu, – mín grunngildi og frá þeim mun ég ekki víkja.

  • Það sem Þorsteinn Úlfar Björnsson 5.6 2012 @ 00:23 segir er mergurinn málsins. Alþingi samþykkti 1997 heimild til veðsetningar á aflaheimildum og þá breyttist sviðsmyndin smám saman. Sægreifarnir arðrændu greinina sem nemur hundruðum milljarða í aðdraganda hrunsins þegar þeir komust upp með að veðsetja sjávarauðlind íslensku þjóðarinnar.

    Komdu með tillögu á Alþingi um af nema eftirfarandi grein úr lögum nr. 75 1997.

    “ 32. gr. Afli, afurðir og rekstrarvörur.
    1. Útgerðarmönnum, framleiðendum sjávarafurða og þeim sem eignast vörur þessar til vinnslu eða endursölu til annarra en neytenda er heimilt að setja að sjálfsvörsluveði einu nafni afla, tilgreindar tegundir afurða og rekstrarvörur sem veðsali á eða eignast kann eða hefur til sölumeðferðar.“

    Þá skulum við tala saman.

  • Til frekari glöggvunar vísa ég til eftirfarandi þskj. þar sem fram kemur að skuldir sjávarútvegsins við endurreista þrjá banka skömmu eftir hrun var ríflega 400 milljarðar króna og einnig kemur fram hver eru veðin nema hjá nýja Landsbankanum OKKAR.

    http://www.althingi.is/altext/136/s/0485.html

    Og samkv. Hagstofu voru á sama tíma eignir í fiskiskipum þessar:

    Fjármunaeign atvinnuvega, tegundaskipting 1990-2011

    Verðlag hvers árs……….2008
    1.1 Fiskiskip………………107.516

    Eining: Milljónir króna.

    Þetta segir allt um hvar veðin liggja og að verðmætin liggja ekki hjá greininni.

  • ScorpionIS

    Hef alltaf fundist Eygló vera með beittari hnífum í skúffunni, en núna skaut hún sig ekki bara í fótinn heldur öllu alvarlegar.

    „stebbi“ kemur með það sem að mínu mati fólki svíður mest í sambandi við kvótakerfið. Að útgerðir fái hlutina gefins og geti svo ráðstafað verðmætum að vild. Ég gæti sæst á að ef útgerð geti ekki notað hluta kvótans þá skili hún honum og ríkið útbýti því svo aftur þess vegna fyrir lítinn pening.

    Eygló ætti núna með sömu rökum að fara að velja þær fáu fjölskyldur sem fá að ráðstafa og selja olíuna sem vonandi kemur eftir einhverja áratugi af Drekasvæðinu.

  • Þingmenn eiga ekki að ákveða veiðigjald fyrir veiðiheimildirnar og hverjir fá þær. Það á að ráðast á frjálsum leigumarkaði.
    Þingmenn eiga ekki að ákveða hvaða verktakar byggja fyrirhugað fangelsi og hversu mikið þeir fá fyrir það. Það ræðst væntanlega í útboði.
    Hvers vegna vill LÍÚ ekki frjálsan leigumarkað á aflaheimildum ?
    Þá verður veiðigjaldið ekki hærra en útgerðaraðilar treysta sér til að greiða.

  • Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og mikið af fjárfestingum þar eru til að þjóna landsbyggðinni. Hvað heldur þú t.d. að það kosti borgarbúa að halda úti flugvelli á dýrasta landi borgarinnar?
    Ef Framsóknarflokkurinn getur ekki staðið með þessu hóflega gjaldi sem hér er lagt til þá er hann og þú að blekkja fólkið. Raunverulegt hlutverk þitt er að tryggja og verja sægreifana og ofsagróða þeirra. Krafa þín um enn frekari aðstoð til skuldsettra heimila hljómar í minum eyrum eins og hver önnur ómerkileg hræsni þegar þú treystir þér ekki til að jafna kjörin með því að láta auðkífingana í landinu borga fyrir afnot af auðlind landsmanna.

  • Benedikt

    „Stöðugur samþjöppun valds í Reykjavík gefur ekkert tilefni til að trúa að það muni skila sér aftur til sjávarbyggðanna án sérstaks ákvæðis um það í lögum og stjórnarskrá.“

    Veiðigjald rennur í ríkissjóð. Tekjum ríkissjóðs er ráðstafað af Alþingi með fjárlögum þar sem sitja fulltrúar af öllu landinu. Ekki halda því fram að fulltrúar landsbyggðarinnar nái ekki vænum skerf af kökunni. Við munum Héðinsfjarðargöng og fleiri sneiðar.

    Svo er það ekkert náttúrulögmál að afrakstur þjóðarinnar af auðlindum hennar eigi að renna til þeirra staða sem verðmætin verða til. Eiga þá tekjur af áli eingöngu að renna til Reyðarfjarðar og Hafnarfjarðar? Svo má líka deila um hvar verðmætin verða til. Skip veiðir fisk á Vesfjarðamiðum og ákveður að landa honum á Dalvík. Hvort á þá veiðigjaldið að renna til Ísafjarðar eða Dalvíkur?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur