Kjarninn í samvinnuhugsjóninni er að við erum miklu sterkari þegar við vinnum saman, frekar en sitt í hvoru lagi, að menn eigi að deila með öðrum og gefa af sér.
Því tóku menn sig saman og stofnuðu kaupfélög, framleiðslufélög og sparisjóði. Menn keyptu saman vinnuvélar og nýttu þær saman í sveitum landsins. Vinkona mín rifjaði eitt sinn upp hvernig fólk tók sig saman og byggði húsalengju hér í Eyjum. Píparinn hjálpaði til við lagnir í öðrum húsum, á meðan aðrir hjálpuðu honum við steypuvinnu eða innréttingar.
Sama hugmyndafræði er að baki heimilisskiptum. Þar deila menn með sér, treysta öðru fólki og fá tilbaka traust. Við hjónin höfum tvisvar farið í heimilisskipti og notið lífsins í boði ókunnugs fólks. Önnur fjölskyldan sendi okkur bíllykilinn sinn í pósti og svo heilsuðumst við sitthvoru megin við glerið á Standstead flugvelli.
Þau á leið til Íslands og við á leið til frönsku Alpanna.
Önnur útgáfa er couch-surfing þar sem fólk lánar sófann sinn.
Deilir með öðrum.
Samvinna.
Já, vissulega er samvinnuhugsjónin falleg svona ein og sér.
En nú setja flestir samasemmerki á milli samvinnu-orðanna og Framsóknarflokksins sem eyðilagði þetta hugtak með spillingu og sjálftöku trúnaðarmanna flokksins, allar götur frá því grjónagrauts-Steingrímur var og hét (grænu baunirnar líka). Það muna margir eftir Kidda Finnboga sem var með Landsbankastjóra í vasanum og veifaði greiðum hægri vinstri til flokksmanna. Og svo það nýjasta náttúrulega: Ólafur í Samskip, Finnur Ingólfs, Halldór Ásgríms o.fl. auðkýfingar nútímans sem áður vóru stjórnmálamenn en komust í almannasjóði og gerðu að sínum eigin peningum.
Því miður er erfitt að nota samvinnufélagshugtök og F hefur margt á samviskunni og er eingöngu á þingi vegna afleitra og ólýðræðislegrar kosningalöggjafar.
Þetta er nú ekkert annað en svört viðskipti þ.e. þarna leigið þið hvort öðru ykkar fasteignir og bíla án þess að neinir peningar fari á milli og ekki neinir skattar greiddir af þessum viðskiptum. Eða munt þú telja þetta fram sem tekjur (þ.e. leiga sem þú ella þyrftir að greiða erlendis fyrir afnot af sambærilegum gæðum) á skattskýrsluna þína. Hvað með gistináttaskattinn?
Ef allir gerðu þetta þ.e. borga hver öðrum með skiptivinnu eða láni á verðmætum myndu skatttekjur hrynja. Hvernig ætlar þú svo að borga fyrir læknisaðstoð, ætlar þú að slá grasið hjá skurðlækninum og passa börn hjúkrunarfræðingsins?
Ég er nú bara gáttaður á því að þingmaður lýðveldisins skuli vera að mæla með þessu.
Það er synd hvað frammsóknarflokkurinn er kominn langt frá samvinnuhugsjóninni.
Þakka þér fyrir að minna okkur á samvinnuhugsjónina, sem var á stefnuskrá Framsóknarflokksins í gamla daga. Við lestur þessa góða pistils vaknar sú von að tækifærissinnum og þjóðrembingum hafi ekki enn tekist að eyðileggja þennan flokk sem einu sinni átti sér svo stóra drauma og hugsjónir um bjarta framtíð til handa íslenskri þjóð.
Svo endar þetta allt með Elendi Einarssyni og ættartrénu.
Já, samvinnuhugsjónin er göfug, einnig hugmyndir jafnaðarmanna um jöfnuð, hugmyndir frjálshyggjunnar um frelsi einstaklingsins og svo mætti lengi telja. Þessi umræða er vakin árið fyrir kosningar enda kominn tími á að semja ný slagorð, en hversvegna er svo erfitt að fara eftir hugsjóninni? Saga Framsóknarflokksins undanfarinn 10-15 ár, er ekki saga samvinnuhugsjónarinnar – heldur íslensk útgáfa af Dýrabæ. Hvar eru peningar samvinnuhreyfingarinnar núna? Spillingin grefur um sig, eru ástæðurnar einungis sögulegar? Er nóg að skipta um fólk? Bendir framganga formannsins til þess? Bendir umræðan á alþingi til þess? Það virðist sem það eina sem heldur hugsjóninni skýrri sé að vera í stjórnarandstöðu! Þannig tapaði framsóknarflokkurinn og samfylking og vinstri grænir hugsjónum sínum ansi hratt og fóru yfir í refsskapinn, þó vonandi hafi þessir flokkar lært einhverja lexíu. Hinir nýju stjónarandstöðuflokkar lærðu fljótt að efast um öll verk og brjóta niður allt sem hægt var, bæði gott og slæmt. Er það ekki málið, að íslenskir stjórnmálaflokkar starfa í raun ekki að sama marki – hag þjóðarinnar, heldur fyrst og fremst einungis að því að koma sjálfum sér að, því að tilvera þeirra byggist á því? Þannig að lausnin er meiri samvinnuhugsjón á alþingi 🙂
Sæll Pétur, þú virðist e-hv misskilja þetta. Engir peningar fara þarna á milli, – ekki frekar en þegar þú lánar nágranna þínum sláttuvélina einn daginn og færð vikuna eftir á lánaða borvélina. Þegar ég hef leigt húsnæði mitt þá hef ég talið það fram á mínum skattaskýrslum líkt og þú og aðrir borgarar þessa lands :).
Sæll Pétur Henrý, – endilega kíkja á samvinnugreinarnar mínar hér að neðan, sérstaklega Aftur til samvinnu frá 2009 (http://blog.pressan.is/eyglohardar/2011/03/11/aftur-til-samvinnu/) Þar lýk ég greininni á eftirfarandi orðum: „Framsóknarflokkurinn þarf, eins og aðrir, að gera upp við kapítalismann sem ráðið hefur ríkjum síðustu tvo áratugi. Það gerir hann best með því að leita aftur til upprunans og hefja samvinnustefnuna, sem hann var grundvallaður á, til fyrri metorða. Samvinna, samstarf og samvinnurekstur mega ekki lengur vera bannorð í íslensku samfélagi.“
Frá því ég fór inn á þing hef ég barist fyrir samvinnuhugsjóninni og mun gera það áfram.
Ég mun þannig bera ábyrgð á mínum orðum og gjörðum, líkt og aðrir vera bera ábyrgð á sínum orðum og gjörðum.
Takk fyrir svarið Eygló.
Nei ég er ekki að misskilja þetta, er sjálfur búinn að hugsa tölvert um nákvæmlega það sem þú varst að gera.
Þú ert að eiga vöru/þjónustu viðskipti við bláókunnugt fólk í gegnum þar til gerða vefsíðu, ekki við frænda þinn eða nágranna og því er þetta að mínu mati svört viðskipti. Það væri áhugavert að fá álit ríkisskattstjóra á því hvar mörkin liggja.
Mig minnir að fv. ríkisskattstjóri hafi einhvern tímann sagt að hægt væri skattleggja öll lífsins gæði. Hvet þig til að kynna þér vefsíðurnar RSK.is, sem og Intervac.com og Home Exchange.com og alla þá Íslendinga sem eru skráðir þar í anda samvinnu.
Góður pistill og einnig skemmtilega misskilin ummæli 🙂