Þriðjudagur 10.07.2012 - 12:44 - 3 ummæli

Auðlindstefna Framsóknar

Þann 22. júní sl. var haldið málþing um auðlindastefnu á vegum forsætisráðuneyti.  Þingflokkum var boðið að senda fulltrúa til að kynna stefnu viðkomandi stjórnmálaflokka og flutti ég við það tækifæri eftirfarandi ræðu um auðlinda- og umhverfisstefnu Framsóknarflokksins:

Fundarstjóri, ágætu gestir.

Ég þakka fyrir tækifærið að fá að ræða um afstöðu Framsóknarflokksins til auðlindamála.

Í grunnstefnuskrá Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn vilji skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða, auk þess sem allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn. Því hafa Framsóknarmenn lengi talað fyrir því að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá og að lögfest verði eins og kostur er hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Það var áherslumál í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1995-2007.  Því miður náðist ekki niðurstaða um það þrátt fyrir mikil átök fyrir kosningar 2007.

Því flutti þingflokkur framsóknarmanna tillögu þess efnis á Alþingi árið 2007. Lagt var til að auðlindaákvæðið væri svohljóðandi: „Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.  Náttúruauðlindir og landréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.  Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.  Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.  Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Tillagan var endurflutt á 136. löggjafarþingi af þingflokki Framsóknarmanna auk þess sem þingflokkurinn studdi frumvarp til stjórnskipunarlaga sem flutt var af forystumönnum allra flokka á Alþingi fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar 2009.  Þar mátti finna nokkuð samhljóða ákvæði um auðlindir í þjóðareign og þingflokkur framsóknarmanna hafði lagt til.

Á flokksþingi framsóknarmanna árið 2011 var svo samþykkt ný auðlinda- og umhverfisstefna. Hún grundvallast á þeirri hugsun að nýting náttúruauðlinda og afrakstur þeirra sé í höndum samfélagsins og skuli stjórnast af heildarhagsmunum landsmanna til lengri tíma.  Allir landsmenn skuli njóta sanngjarns arðs af sameiginlegum auðlindum og þær verði að nýta af varúð og virðingu, með sjálfbærni að leiðarljósi.

Í henni má finna nokkur atriði sem ég vil nefna sérstaklega.

Í fyrsta lagi er lagt til að auðlindagjald verði lagt á nýtingu náttúruauðlinda og það geti verið breytilegt eftir auðlindum.

Í öðru lagi var stigið stórt skref með því að leggja til að virkjanir stærri en 5 MW skuli vera í eigu orkufyrirtækja sem eru í eign ríkis eða sveitarfélaga, að a.m.k. 2/3 hlutum.

Í þriðja lagi að kanna ætti af alvöru hvort lagning sæstrengs sem tengist orkumarkaði Evrópu sé hagkvæm með útflutning raforku í huga.

Í fjórða lagi nauðsyn þess að auka langtímasýn með stefnumörkun um landnotkun. Tryggja verði samhliða að ekki verði gengið á sjálfstæði sveitarfélaga og að skipulagsvaldið verði áfram á sveitarstjórnarstiginu.

Í fimmta lagi þurfi að gæta að almannarétti til umgengni um landið og að réttur til hóflegrar nýtingar sé ríkur.  Náttúruvernd á aðeins í undantekningartilvikum að útiloka fólk frá aðgengi.

Að lokum vil ég nefna mikilvægi þess að við samþykkt rammaáætlunar frá Alþingi verði horft til niðurstöðu faghópa um virkjanakosti, en ekki pólitískrar afstöðu einstakra stjórnmálaflokka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Eignarhald á íslenskum virkjunum og orkufyrirtækjum:
    http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1159568/

  • Sæl.

    Er hægt að fá blogg um afskriftafrumvarpið?

    Það komst væntanlega ekki í gegn um þingið að þessu sinni. Verður reynt aftur með það mál á næsta þingi? Ef svo er væri þá hægt að fá viðmiðunarupphæðina miðaða við 50 millj. en ekki 100?

    Hvers vegna fór þetta frumvarp ekki í gegn? Skipti þar málþóf Framsóknar- og Sjálfstæðismanna einhverju máli?

    Kveðja,
    Sverrir

  • Eygló Harðardóttir

    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi málið frá sér og fulltrúar allra þingflokka voru á álitinu fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur