Miðvikudagur 11.07.2012 - 12:00 - 7 ummæli

Framsókn og skuldirnar

Íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heimi.  Því hefur eitt helsta baráttumál framsóknarmanna á þessu kjörtímabili verið að takast á við skuldavanda heimilanna, fara í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum skuldum heimilanna og afnema verðtrygginguna í skrefum.

Almennar aðgerðir
Ólíkt flestum öðrum stjórnmálaflokkum töldum við mesta réttlætið liggja í almennum aðgerðum. Allir myndu sitja við sama borð og samskonar lán fengju sömu niðurfærsluna.  Þeir sem teldu sig ekki þurfa niðurfærsluna gætu hafnað henni og íslenska ríkið myndi nota skattkerfið til að jafna stöðu manna á grundvelli eigna og tekna.

Við höfum, aftur og aftur, lagt fram tillögur þessa efnis í þinginu.  Eftir að stjórnvöldum tókst að klúðra einstöku tækifæri til almennra leiðréttinga við uppgjör milli nýju og gömlu bankanna höfum við bent á aðrar leiðir á borð við skattlagningu á séreignasparnaði og skattafslætti til skuldsettra heimila, nú síðast með framlagningu þingmáls um aðgerðir í efnahagsmálum.

Um leið og tekið væri á núverandi skuldavanda töldum við nauðsynlegt að huga að nýju og betra húsnæðislánakerfi fyrir heimili landsins.

Afnám verðtryggingar
Undanfarna áratugi hafa íslensk heimili hlotið þann vafasama heiður að bera ein ábyrgð á efnahagslegri óstjórn og verðbólgu með því að bera nær allan kostnað af verðtryggingunni. Skuldir heimilanna hafa þannig aukist stjórnlaust og þessu viljum við breyta.

Flestir virðast sammála okkur í orði, ef marka má yfirlýsingar stjórnmálamanna. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að draga eigi úr vægi verðtryggingar og stjórnarandstaðan hefur meira og minna tekið undir þessi markmið stjórnarflokkanna.  Miklar vonir voru bundnar við vinnu efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta þingi við að leita leiða til að afnema verðtrygginguna frekar í skrefum en hver varð niðurstaðan?

Ekki náðist samstaða í nefndinni. Ekki um eina einustu tillögu.

Því lögðum við framsóknarmenn aftur fram frumvarp okkar um að strax skyldi setja 4% þak á verðtryggingu lána til almennings í kjölfarið yrði unnið að því að afnema hana til frambúðar.

Þar lögðum við einnig til að neytendum yrði heimilt að breyta verðtryggðu láni í óverðtryggt lán.  Lánveitanda yrði óheimilt að krefjast greiðslu lántökukostnaðar, innborgunar á höfuðstól eða lægra veðhlutfalls við breytinguna.

Á sínum tíma var verðtryggingin viðbragð við almennri óstjórn í efnahagsmálum, en hún var aðeins plástur. Hún tók ekki á vandamálinu sjálfu, efnahagsstjórninni. Margt bendir til að verðtryggingin auki jafnvel á vandann við efnahagsstjórnina. Hún geri stjórn efnahagsmála erfiðari og flóknari og geri stýrivexti nær gagnslausa til að koma böndum á verðbólguna. Einnig hefur samspil verðbólgu og verðtryggingar lítið verið rannsakað.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að hugsanlega sé verðtryggingin hreinlega olía á eld verðbólgunnar, þar sem verðbætur blási út efnahagsreikning bankanna. Verðbólga mælir fjármagn í umferð og þegar hún hækkar, hækka verðbætur sem bankarnir fá á útlánin sín og í kjölfarið aukast þeir peningar sem þeir geta lánað út aftur. Þannig myndist vítahringur sem nær ómögulegt sé að komast út úr við óbreytt ástand.

Til að bregðast við þessu lögðum við til aðgerðir til að lækka vaxtakostnað heimilanna og ná stjórn á verðbólgunni með bættri efnahagsstjórnun. Það viljum við t.d. gera með reglum um verðtryggingajöfnuð, hámark veðhlutfalla, lengd lánstíma, upptöku þjóðhagsvarúðartækja og endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.

Ekki má efast um mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni og draga úr vaxtakostnaði heimilanna.  Án efa væri það besta leiðin til að ná fram loforði okkar framsóknarmanna um almennar aðgerðir til handa skuldsettum heimilum enda benti sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna á að lækkun á raunvöxtum niður í 3% væri á við 20% lækkun höfuðstóls lána.

Nýtt húsnæðislánakerfi
Í tillögum meirihluta verðtrygginganefndarinnar undir forystu okkar framsóknarmanna var lagt til að innleitt yrði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd.  Í nýju kerfi yrðu boðin óverðtryggð húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum í stað verðtryggðra jafngreiðslulána.  Lánastofnanir hafa þegar hafið að bjóða þess háttar lán og Alþingi hefur veitt Íbúðalánasjóði lagaheimild til þess að bjóða lán á þessum kjörum. Frekari lagasetning er þó þörf, m.a. til að auðvelda fólki að færa sig yfir í óverðtryggðu lánin og þar hafa framsóknarmenn lagt fram ítarlegar tillögur sem enn bíða samþykkis þingsins.

Skuldavandi heimilanna er stærsti vandinn sem íslensk samfélag stendur frammi fyrir. Forgangsmál okkar framsóknarmanna hefur alltaf verið að takast á við hann. Fyrir því höfum við barist og fyrir því munum við halda áfram að berjast.

(Birtist fyrst í DV 11. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Pétur Kristjánsson.

    Framsóknarmenn vildu að öll lán lækkuðu um 20 %, hvort sem lántakendur þyrftu á því að halda eða ekki. Hefði það hjálpað skuldsettum heimilum? Nei, kannski örfáum. Það hefði hins vegar fært fjármálamönnunum, sem eru með risalánin, fúlgur fjár á kostnað skattgreiðenda og efa ég ekki að fjölskylda formannsins hefði hagnast ríkulega.
    Hvað fæst út á afnám verðbindingar? Eru einhverjir lánveitendur tilbúnir til að lána fé án þess að fá það jafnverðmætt tilbaka? Nei, og þess vegna verða vextir ávallt að vera hærri en verðbólgan að öðrum kosti mun venjulegu fólki ekki gefast kostur á lánum. Undirritaður man eftir slíku kerfi. „Óverðtryggð lán sem bjóðast i dag eru með endurskoðunarákvæði vaxta sem þýðir í raun að þau eru verðtryggð.

  • Sæmurndur Rúnar Þórisson

    ,,Á sínum tíma var verðtryggingin viðbragð við almennri óstjórn í efnahagsmálum, en hún var aðeins plástur. Hún tók ekki á vandamálinu sjálfu, efnahagsstjórninni.“ Hvenær var þetta?
    Hvernig stendur á því að Framsókn er tilbúið að afnema verðtrygginguna þegar hann er ekki í aðstöðu til þess, en ekki þegar hann er/var í aðstöðu til þess.

  • Eygló Harðardóttir

    Nokkru áður en ég fæddist hófu menn að innleiða verðtrygginguna og festu hana í sessi árið 1979. Væntanlega töldu menn verðtrygginguna vera lausn við verðbólguvandanum en tíminn hefur sýnt okkur að hún er aðeins plástur.

    Síðan þá hafa menn verið að draga úr áhrifum hennar smátt og smátt, en að mínu mati ekki tekið nægjanlega stór skref. Vonast ég til að Framsóknarflokkurinn fái tækifæri til að framfylgja hugmyndum sínum að loknum næstu kosningum

    Við litum alltaf á leiðréttingu skulda sem réttlætismál og nauðsyn til að koma efnahagslífinu hratt á stað. Í tillögum okkar var ávalt bent á (sem og í greininni) að hægt væri að nýta skattkerfið til að jafna stöðu manna á grundvelli tekna og eigna eftir leiðréttinguna. Einnig að ýmsir yrðu að fá mun meiri afskriftir og endurfluttum við fljótlega eftir hrun frumvarp um greiðsluaðlögun til að koma til móts við þann hóp.

    En kannski telja menn aðferð stjórnvalda réttlátari, að láta þá sem fóru mest óvarlega og skulduðu langmest (jafnvel án nokkurra persónulegra ábyrgða og veða) fá nánast allt afskrifað, en þá sem sýndu ráðdeild fengu ekki neitt.

    Ég var og er einfaldlega ósammála þeirri nálgun.

  • Kristinn J

    Flott hjá þér Eygló: En það er eitt,,, tala minna,, skrifa minna, FRAMKVÆMA meira…

  • Garðar Garðarsson

    Hvar ætlar Eygló og Framsókn að fá ca. 250 milljarða króna sem þetta myndi kosta og 54% af þessu myndi leggjast á Íbúðalánasjóð? Hver á að greiða þetta stóra kosningaloforð Framsóknar?

    http://www.visir.is/kostnadur-vid-10-prosent-nidurfellingu-husnaedislana-er-124-milljardar/article/2012120609994

  • Garðar Garðarsson

    Svo það fari ekki á milli mála þá er ég hér að ofan að ræða um tillögu Framsóknar um almenna 20% niðurfellingu skulda vegna íbúðakaupa og kosnaðinn upp á ca. 250 milljarða sem það myndi hafa í för með sér og spurningin er hver greiðir?.

  • Sigurður M. Grétarsson

    Bara svo það sé á hreinu þá hefur aldrei verið til staðar tækifæri til flatrar niðurfellingar lána án þess að kostnaðurinn við það lenti að meistu eða öllu leyti á skattgreiðenduym ekki heldur við uppgjör milli á lánasöfnum milli nýju og gömlu bankanna. Það breytir engu hversu oft þingmenn Framsóknaflokksins og helstu talsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna ljúga öðru að okkur.

    Stjórnvöld hafa aldrei haft völd til að lækka eignasöfn gömlu bankanna með niðurfellingu innheimtanlegra skulda án samþykkis kröfuhafa. Í því efni breytir engu þó stjórnvöld skipi formlega slitastjórn gömlu bankanna.

    Því stendur eftir spurningin hans Garðars Garðarssonar hér að ofan. Hver á að borga fyrir þær aðgerðir sem Framsóknarflokkurinn vill fara? Framsóknarmenn hafa aldei komið með tillögur um leiðir til þess sem hafa möguleika á að ganga upp.

    Það hjálpar ekki skuldugum heimilum að koma fram með loftkastala í fjölmiðlum og gagnrýna allar þær aðgerðir sem stjórnvöld eru að gera og eru í flestum tilfellum á ystu mörkum valdheimilda hannar og fjárhgaslegu svigrúmi ríkissjóðs. Það sem hjálpar þeim er samvinna við stjórnvöld um að finna raunhæfar og framkvæmanlegar, ég endurtek raunhæfar og framkvæmanlegar leiðir til að hjálpa fjölskyldum í skuldavanda.

    Það að rægja niður þær leiðir sem farið hafa og letja þannig fjölskyldur sem gætu notið góðs af þeim til að nýta sér þær gerir ekkert annað en að auka á vandamál þeirra. Það er ljótur leikur að gera slíkt til þess eins að slá pólitískar keilur og til að freista þess að koma stjórnvöldum illa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur