Fimmtudagur 26.07.2012 - 12:05 - Rita ummæli

Ég fíla samþykki

Það styttist í Þjóðhátíð okkar Eyjamanna.  Eftir síðustu Þjóðhátíð var samfélagið enn á ný í áfalli eftir fjölda tilkynninga um nauðganir og margir veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera.

Ábyrgðin væri ætíð ofbeldismannanna, – en við hlytum að geta gert eitthvað til að gera þeim grein fyrir að þetta væri ekki liðið. Að við yrðum að gæta að vinum, félögum og gestum. Að við yrðum að tryggja að ofbeldismenn myndu ekki fá neitt skjól hjá okkur.

Nokkrir frábærir einstaklingar ákváðum svo að gera eitthvað.  Jóhanna Ýr Jónsdóttir, Birkir Thor Högnason og fleira gott fólk stofnuðu forvarnahóp ÍBV og ætla að beita sér af krafti á Þjóðhátíð með aðstoð okkar allra.

Einkennismerki hópsins er bleikur fíll sem táknar aðgerðaleysi og vanmátt samfélagsins til þess að bregðast við nauðgunarbrotum.

Markmiðið er að útrýma fílnum.

Í staðinn veljum við að segja að „Ég fíla samþykki“. Að það sé ekkert sem heitir þögult samþykki við kynlífi. Hópurinn ætlar að dreifa bolum, límmiðum og plakötum auk þess sem skilaboð munu birtast á milli atriða á stóra sviðinu á Þjóðhátíð.

Fjöldi vinnustaða í Eyjum hefur ákveðið að taka þátt með því að starfsfólk þeirra klæðist bolum með þessum skilaboðum og má þar nefna 900 Grillhús, Kakadú, Einsa Kalda og Herjólf.

Tökum höndum saman með forvarnahóp ÍBV og sendum skýr skilaboð.

Að við munum ekki líða nauðganir á Þjóðhátíðinni okkar.

PS. Hvet ég fólk til að like-a síðuna þeirra á Facebook, kaupa bolina þeirra og takast á við bleika fílinn! Bolina er hægt að kaupa á 1000 kr. með því að senda póst á johanna@yr.is og birkir.hognason@gmail.com eða með því að senda skilaboð á Facebook.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur