Þriðjudagur 11.09.2012 - 09:55 - 7 ummæli

Verðtrygging – böl eða blessun?

Ræða á fundi Samfylkingarfélagsins í Kópavogi 10. september 2012 um verðtrygginguna – böl eða blessun?  Frummælendur voru Vilhjálmur Þorsteinsson og ég:

„Er ekki hægt að gera eitthvað í þessari verðtryggingu.“ spurði rúmlega tvítug systir mín fyrir stuttu í fjölskyldumatarboði. Ég sat og horfði á hana og hugsaði: Mikið vildi ég að ég gæti bara sagt já.  Boðið henni einfaldar lausnir.  T.d. sagt „við bönnum hana bara“ eða „við tökum bara upp evru“.

"Hmmm...bara eitt smáatriði." sagði töfrakonan við Öskubusku

Smellum bara fingri og allt verður gott. Svona eins og góða töfrakonan í Öskubusku.

Í staðinn sagði ég já, en… það er ekki einfalt… (kannski svipað og í Öskubusku þegar töfrakonan fór að tala um að vagninn myndi breytast aftur í grasker klukkan tólf).

Lífið vill oft vera svo miklu, miklu flóknara en við óskum okkur.  Helsta ástæða þess að hægt hefur gengið að aflétta verðtryggingunni á Íslandi er að gífurlegir hagsmunir eru þarna undir.  Í umræðunni um verðtrygginguna hafa tekist á þeir sem eiga peninga … og þeir sem skulda peninga.  Í ljósi þess að við erum enn með eitt hæsta hlutfall almennrar verðtryggingar í heiminum, – tel ég nokkuð ljóst hverjir hafa haft betur hingað til.

Ég skal fúslega viðurkenna hvorum hópnum ég tilheyri.  Ég hóf að taka mín fyrstu lán í kringum tvítugt með kreditkortum.  Fyrsta verðtryggða lánið (og yfirdráttur) var í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna og viðskiptabankans, svo Íbúðalánasjóðs við kaup á fyrstu fasteigninni.  Seinna meir voru það gengistryggð lán í boði bankans og fjármögnunarfyrirtækjanna.

Það sem flækir hins vegar sviðsmyndina, og hagsmunatengslin er sú staðreynd að við, almennir borgarar þessa lands, erum einnig helstu fjármagnseigendur landsins í gegnum lögbundinn sparnað okkar í lífeyrissjóðunum. Utan um þessar eignir halda Samtök launþega og atvinnurekenda fyrir okkar hönd.  Eignir lífeyrissjóðanna nema um 2200 milljörðum og árlega streyma um 150 til 200 milljarðar inn í sjóðina í nýjum iðgjöldum.  Þeirra hlutverk er að ávaxta þessa fjármuni og greiða lífeyri við starfslok. Þetta endurspeglast í því að 70% af skuldabréfum Íbúðalánasjóðs eru í eigu lífeyrissjóðanna, sem og stór hluti af öðrum skuldum ríkisins og annarra sem eru á skuldabréfamarkaði. Lífeyrissjóðirnir eru skuldbundnir til að greiða verðtryggðan lífeyri í gegnum lög, og hafa lagt áherslu á jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda.  Því hafa t.d. skuldabréf Íbúðalánasjóðs verið mjög góð fjárfesting að þeirra mati.

Trú margra hefur verið að forsenda góðrar stöðu lífeyrissjóðanna sé verðtryggingin.  Þessu hef ég að vísu verið ósammála, og bent á að staða lífeyrissjóðanna fór ekki að batna með upptöku verðtryggingar, heldur þegar raunávöxtunin fór að vera jákvæð með vaxtafrelsinu.

En trúin á mikilvægi verðtryggingarinnar er sterk.  Sem og trúin á skaðsemi hennar.

Blessun og böl.

Þetta eru þær staðreyndir sem við stóðum frammi fyrir í vinnu verðtrygginganefndarinnar.

Nefndin var skipuð samkvæmt ályktun Alþingis frá júní 2010 um að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi, meti kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni.

Nefndinni var falið að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt.  Jafnframt skyldi hún leggja fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika væri ógnað.

Heimild: Valdimar Ármann, fyrirlestur 10. sept. 2012 hjá SFF um verðtrygginguna.

Hlutverk nefndarinnar var ekki að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána.

Nefndina skipuðu fulltrúar allra flokka á þingi, auk eins fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis og eins fulltrúa fjármálaráðuneytis.  Strax í upphafi vinnunnar var ákveðið að leita eftir að áheyrnarfulltrúa frá Seðlabanka Íslands.

Okkar hlutverk var ekki að koma með tillögur til að afnema verðtryggingu, heldur að draga úr vægi hennar.

Niðurstöður nefndarinnar endurspegluðu að sjálfsögðu þessa staðreynd.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um 15 mismunandi hugmyndir að mögulegum leiðum til að ná markmiðum nefndarinnar.  Þær eru bann við verðtryggingu á öllum fjármálagerningum, bann við verðtryggingu lána með veði í húsnæði, bann við verðtryggðum jafngreiðslulánum, staðgreiðsla verðbóta, þak á verðtryggingu, önnur viðmið en núverandi vísitölu til verðtryggingar, síleska leiðin þar sem komið var upp sérstakri mælieiningu (UF) til að sýna raunvirði til að sporna gegn peningaglýju og misskilningi fólks á afleiðingum verðbólgu, vaxtabætur aðeins greiddar þeim sem skulda óverðtryggt, breytingar á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða, upptaka annarrar myntar, aukið framboð af ólíkum tegundum lána, afnám kvaða af verðtryggingu, að ná valdi á verðbólgu, bæta neytendavernd og óbreytt ástand. Þessar hugmyndir komu sumar fram hjá gestum nefndarinnar og aðrar úr ýmsum heimildum.

Hugmyndir að leiðum endurspegluðu ekki afstöðu einstakra nefndarmanna eða nefndarinnar í heild.

Í lok vinnunnar urðum við sammála um að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu sé ábyrg stjórnun efnahagsmála.  Bæta þarf hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja, líkt og Seðlabankinn hefur kallað eftir.  Nefndin taldi að tryggja yrði fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum.  Hluti af því er útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Hvetja yrði til sparnaðar vegna kaup á fasteign og búseturétti.

Síðast en ekki síst lögðum við áherslu á að efla fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku og neytendavernd til að sporna gegn ofskuldsetningu og áhættu tengda ólíkum lánaformum.

Þrjú sérálit er lögð fram í skýrslunni.

  • Arinbjörn Sigurgeirsson, Hrólfur Ölvisson, Lilja Mósesdóttir og ég stóðum að áliti þar sem lagt var til afnám verðtryggingar með nokkrum aðgerðum. Vegna núverandi lána verði sett þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli (hámark 4%) og unnið að lækkun raunvaxta. Jafnframt verði innleitt óverðtryggt húsnæðislánakerfi og fjölgað búsetuformum.
  • Vilhjálmur Þorsteinsson taldi að stefna eigi að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Til lengri tíma litið muni vextir og verðbólga færast nær því sem gerist á evrusvæðinu og verðtrygging hverfa úr sögunni. Upptaka evru leiðir ekki sjálfkrafa til afnáms verðtryggingar á skuldabréfum en efna mætti til skiptaútboða verðtryggðra skuldabréfa yfir í óverðtryggð.
  • Pétur H. Blöndal lagði áherslu á að fráleitt sé að hafa tvær myntir í ekki stærra efnahagslífi, verðtryggða og óverðtryggða krónu. Óstöðugleiki og erfið hagstjórn, ótti sparifjáreigenda við verðbólguskot og lokaðir erlendir markaðir gera það að verkum að byggja verður upp peningalegar eignir með sparnaði til að tryggja innlent lánsfé.   Því er ekki hægt að styðja afnám verðtryggingar á þessari stundu.

Það sem gerst hefur í framhaldi af vinnu nefndarinnar er að Alþingi samþykkti að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða óverðtryggð lán og breytilega vexti og hefur sjóðurinn unnið að því að bjóða þess háttar lán.

Efnahags- og viðskiptanefnd undir forystu Helga Hjörvars fór í mikla vinnu við að leggja til frekari tillögur en ekki náðist samstaða í nefndinni.  Þingflokkur Framsóknarmanna tók virkan þátt í þeirri vinnu og beið með að leggja fram sitt frumvarp um vexti og verðtryggingu þar til ljóst var að ekki næðist samstaða innan nefndarinnar.

Í frumvarpi okkar er m.a. lagt til 4% þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli á neytendalánum, leyfa neytendum að færa sig yfir í óverðtryggð lán, upptöku þjóðhagsvarúðartækja, endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, afnema sjálfkrafa hækkanir hjá hinum opinbera og reglu um verðtryggingajöfnuð hjá lánastofnunum.  Við munum endurflytja frumvarpið aftur á nýju þingi.

Nú á mínu fertugasta aldursári get ég staðið hér og horft tilbaka yfir feril minn og Íslendinga almennt sem lántakar og viðurkennt fúslega að það felist ekki mikið lán í því að taka lán.

Húsið vinnur alltaf, - eða hvað?

Þvert á móti, – hefur lántaka hér á landi reynst vera ein stór rússíbanareið, eða löng heimsókn í spílavíti þar sem húsið virðist einhvern veginn alltaf vinna.

En ekki íslensk heimili, ekki fjöldinn, ekki við.

Því er kannski ekki að undra að ég hef mikinn áhuga á að börnin mín og barnabörn þurfi ekki að upplifa það sama.

Því hef ég talað fyrir breyttu fyrirkomulagi. Að við afnemum verðtrygginguna, endurskoðum húsnæðislánakerfið okkar og hvetjum börnin okkar til að spara fyrir hlutunum.  Því hef ég jafnframt fyrir afnámi verðtryggingar, stutt þær breytingar sem stjórnvöld hafa lagt til á húsnæðiskerfinu til að fjölga búsetuformum, lagt fram frumvarp um skattaafslátt vegna húsnæðissparnaðar hjá ungu fólki, og hvatt til endurskoðunar á lífeyrissjóðakerfinu.

Því það er kominn tími til að hagsmunir hússins og okkar nái saman.

Við verðum að axla ábyrgðina sjálf á stjórnun okkar efnahagsmála.  Hluti af því er afnám verðtryggingarinnar.

Engar töfralausnir, enginn töfrakona sem sveiflar töfrasprotanum, heldur markviss skref til betra Íslands.

Án verðtryggingar.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Jón Ólafur

    Þegar Jóhanna og Steingrímur hækka skatta á tóbak og áfengi, hækkar verðtryggður höfuðstóll innistæðu á bankabók, sömuleiðis hækkar höfuðstóll verðtryggðar skuldar vegna íbúðarkaupa.

    Mér þætti vænt um ef einhver gæti sagt mér hvaða verðmæti hafi orðið til.

  • Jens Jónsson

    Það er allt í lagi að hafa verðtryggingu fyrir þá sem vilja en ef verðtrygging er á lánum þá verður lántaki að skilja hvað hann er að skrifa undir, ein leið til að auka skilning á verðtryggðum fjárskuldbindingum er að setja inn skilyrði um að í lánaútreikningum sé reiknað með meðaltalsverðbólgu síðustu 10 ára fyrir lántöku. Í dag rétt um 5% sem þýðir að endurgreiðsla á 17.000.000kr láni verður rúmlega 100.000.000kr á 40 árum ef miðað er við 3,75% vexti á verðtryggðum jafngreiðslu lánum en 80.000.000 ef um jafnar afborganir er að ræða.
    Þegar ég tók mitt verðtryggða lán þá var ekki hægt að prenta út greiðsluáætlun ef gert var ráð fyrir verðbólgu í útreikningum.

  • Ómar Kristjánsson

    Engin verðmæti orðið til. það sem gerðist var verðrýrnun krónunnar. það þarf fleiri krónur í dag til að uppfylla sama verðgildi og miðað var við í gær.

    Varðandi dæmin, skattur á áfengi og tóbak – að þá er betra að líta á þetta í heildina. það eru margir þættir inní reikningsgrunni vísitölu þeirrar sem miðað er við. M.a. áfengi og tóbak og þeir viðmiðunarvöruflokkar geta stundum haft áhrif.

    Í staðinn fyrir að hugsa sem allt hækki – þá er miklu betra að skilja þetta með því að hugsa sér að kaupið lækki – allavega tímabundið.

    Við erum í raun að tala um verðbólgu. Verðbólga er sögulega sé afar mikil hér að meðaltali. Til að leysa þetta vandamál þarf að leysa orsakir verðbólgu. það er ekki til neins, og gerir jafnvel illt verra, að taka burtu verðtryggingu – en huga ekkert að rót vandans sem er verðbólgudraugurinn.

  • Þorgeir J. Kjartansson

    Endemis þvæla er þetta sífellt um verðtryggð lán. Þingmaðurinn ætti að vita að það hafa verið í boði óverðtryggð íbúðalán í yfir ár. Fólk ætti því að skipta yfir í óverðtryggð lán ef það treystir sér í hærri greiðslubyrði.

    Vissulega er nauðsynlegt að banna verðtryggingu á nýjum lánum. spurningin er bara hvað á að gera fyrir þá sem eru með gömul verðtryggð lán og ráða ekki við hærri greiðslubyrði.

  • Skerðing á lífeyrisréttindum um 130 milljarða frá hruni/þjófnaði sem framin var á þjóðinni, slík aðgerð gerir það að verkum að engin rök eru lengur fyrir verðtryggðum lánum, hvar er verðtryggingin á útgreiddum lífeyri ? Nema það að færa eignir frá almenningi til lífeyrissjóðanna, tvennt kemur til greina til að jafna stöðu lántakanns og lánveitandanns, verðtryggja launin með nkl sömu vísitölum og eru á lánum, og/eða skipta verðtryggingar-hagnaði á milli aðila, eignarréttar-ákvæðið hlýtur að gilda í báðar áttir, ef ekki þá er framinn áframhaldandi þjófnaður á almenningi í birtingarmynd eignaupptöku, sem skýrir vel aukin vanskil hjá íbúðarlánasjóði og bönkum, almenningur er þessi misserin að hafna því að vera á hamstra-hjólinu (þræll). Því fyrr sem stjórnvöld og þingþjónar gera sér grein fyrir þessu og taka á vandanum (óréttlætinu) því betra fyrir nýtt-Ísland.
    Takk Eygló fyrir ágæta grein.

  • Þorgeir J. Kjartansson
    Þú skilur ekki vandann.
    Lánin hafa hækkað svo mikið út af verðbólgu skotinu að fólk getur ekki skipt yfir.
    Engin banki leyfir fólki að skipta yfir nema það sé undir 65% veði.

    Einungins fólk sem á 35% útborgun í nýju húsnæði eða skuldar það lítið í sínu húsnæði getur skuldbreytt.

    Fólk sem er fast eftir þjófnaðinn 2008 201— fer verst úr þessu.
    mbk.

  • Þorgeir J. Kjartansson

    Benedikt

    Við skulum vona að íbúðalánasjóður geri ekki kröfu um undir 65% veðsetningu, þ.e þegar þingmenn loks lufsast til að leyfa íbúðalánasjóði að lána óverðtryggt.

    En það breytir ekki því að fyrir þá sem breyta í óverðtryggt lán verður greiðslubyrðin 30 til 40% hærri (miðað við jafnar afborganir)

    Mikilvægast nú er að banna verðtryggingu á nýjum lánum og banna lán til lengri tima en 30 ára.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur