Fimmtudagur 13.09.2012 - 09:36 - 3 ummæli

Foreldrar hætti að skíra?

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup flutti líflega og innblásna ræðu við þingsetninguna.  Í ræðunni komu skýrt fram áhyggjur hans af því að samband þjóðkirkjunnar og ríkisins væri að rofna sem og túlkun hans á því hvert hlutverk trúarinnar ætti að vera í íslensku samfélagi.

Þar vitnaði hann m.a. í Angelu Merkel, kanslara Þýskalands þar sem hún sagði: Ég lít ekki svo á að það sé aðalatriðið hvort ég er evangelisk eða kaþólsk, en þetta þýðir það að ég aðhyllist hina kristnu lífssýn og kristinn mannskilning og það tel ég vera mikils virði fyrir hið þýska samfélag.

Undir þetta get ég svo sannarlega tekið.

Ég hrökk hins vegar við þegar vígslubiskupinn talaði um að eitt mesta áhyggjuefni hans væri að ungir foreldrar hættu að bera börn sín til skírnar og hætti þar með að gefa þeim það veganesti sem kynslóðirnar hafa þegið mann fram af manni. Kannski vegna þess að þeir treystu ekki lengur kirkjunni.

Í mínum huga hefur þetta ekkert með traust til kirkjunnar minnar að gera.

Heldur val einstaklinga.

Dætur mínar eru ekki skírðar, en ég tel að við hjónin séum að kenna þeim að aðhyllast þá lífssýn og mannskilning sem frú Merkel talaði um.

Við höfum líka lagt áherslu á að þær kynnist ólíkum kirkjum m.a. Þjóðkirkjunni, Hvítasunnukirkjunni og Kaþólsku kirkjunni. Þegar þær eru eldri og þroskaðri munu þær sjálfar taka ákvörðun um hvort þær vilji skírast inn í Þjóðkirkjuna, eða annað trúfélag.

Eða standa utan trúfélaga.

Þeirra er valið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Svanur Sigurbjörnsson

    Sæl Eygló
    Takk fyrir fínan pistil. Þetta viðhorf þitt er afar heilbrigt og gott. Það var Richard Dawkins (uppáhald guðfræðinga við HÍ) sem fyrst vakti athygli manns á því að börn væru ekki kristin, íslömsk, kaþólsk, húmanísk o.s.frv. því að þau eiga réttinn á því að velja sér sína lífsskoðun þegar þau hafa náð aldri og þroska til. Í athöfnum siðmenntar (ég er umsjónarmaður athafnaþjónustu félagsins) er nafngjöfin án merkimiða. Þar er fjallað um sammannleg siðferðisgildi en barnið er ekki vígt í félag eða söfnuð og foreldrar þess þurfa ekki að játa neina lífsskoðun fyrir hönd barnsins. Valfrelsi barnsins er haft í heiðri.
    Bestu kveðjur og vegni þér vel á nýhöfnu þingi.
    Svanur Sigurbjörnsson

  • Kristbjörn Árnason

    Jesú var heldur ekki kristinn, hann var gyðingur af ætt Davíðs. En það er samt staðreynd að forysta þjóðkirkjunnar brást almenningi í landinu þegar hún gat ekki tekið á þeim ofbeldismálum sem ýmsir forystumenn höfðu gerst sekir um. En einnig vegna þess, að þessir menn gripu til lýginnar hiklaust.

    Þjóðkirkjan á Íslandi er stofnun sem fylgir fjölmörgum siðum og hefðum í guðþjónustum sem í sjálfu sér hefur ekkert með sjálfa trúnna að gera.

    Sem betur fer. Því er það, að þótt forysta þjóðkirkjunnar hafi brugðist brást trúin ekki og boðskapur hennar.

    Margir góðir íslendingar eru góðir trúmenn, en hafa skömm á þjóðkirkjunni og á öðrum trúfélögum.

  • Þarna mælir þú algerlega rétt Eygló að okkar mati. Flott grein hjá þér, hafðu þakkir fyrir..

    Angela Merkel, vel mælt
    „Ég lít ekki svo á að það sé aðalatriðið hvort ég er evangelisk eða kaþólsk, en þetta þýðir það að ég aðhyllist hina kristnu lífssýn og kristinn mannskilning og það tel ég vera mikils virði fyrir hið þýska samfélag.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur