Mánudagur 17.09.2012 - 09:00 - 18 ummæli

Ekki láta glepjast af úrtölumönnum

Leiðari Fréttablaðsins í dag og laugardagsgrein Þorsteins Pálssonar náðu athyglisverðum samhljómi varðandi Framsóknarflokkinn.  Ég hugsaði eftir lestur þeirra: “ Við erum greinilega aftur farin að ýta við  ákveðnum öflum í samfélaginu.“

Fyrir síðustu kosningar var hamrað á því við kjósendur að eina leiðin út úr vandanum væri Evrópusambandið.  Þar væri að finna lægri vexti, enga verðtryggingu, lægra matvælaverð, – í raun alla okkar drauma.

Við þyrftum að vísu að vera þæg og góð við erlenda kröfuhafa og fjármagnseigendur.

Allar aðrar hugmyndir s.s. að við sjálf gætum unnið okkur út úr vandanum, að við sjálf gætum afnumið verðtrygginguna, að við sjálf gætum lækkað vexti, að við sjálf gætum tryggt afskriftir skulda voru talaðar niður í svaðið.

Hvað þá að menn hafi viljað viðurkenna að við þyrftum hvort sem er sjálf að taka á okkur málum áður en okkur yrði hleypt inn í myntbandalagið.

Ég trúi að Íslendingar geti sjálfir tryggt sér betri lífsgæði.

Lykilinn að því er að við látum ekki glepjast af úrtölumönnum.

Höfum trú á okkur sjálfum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Magnús Björgvinsson

    Svona bara að benda á í sambandi við þetta:
    „Allar aðrar hugmyndir s.s. að við sjálf gætum unnið okkur út úr vandanum, að við sjálf gætum afnumið verðtrygginguna, að við sjálf gætum lækkað vexti, að við sjálf gætum tryggt afskriftir skulda voru talaðar niður í svaðið.“

    Kannski að fólk sé að horfa á 80 ára reynslu okkar á því að hafa sjálfstæða mynt. Það hefur aldrei tekist að halda krónunni stöðugri á þessum tíma nema með lántökum og gervi gengi. Það hafa fræðimenn bent á að örmynnt kallar á háavexti svo að héðan streymi ekki út verðmæti sem og að hún verður allta sveiflótt. T.d. bendi ég að krónan virðist dæmd til að falla þegar að ferðatímabilinu hér líkur á haustin. Eins þegar að verð á fiski lækkar, eftir stórframkvæmdir og svo framvegis. Ef að verðtrygging við þessar aðstæður er tekin af þá hlýtur það líka að kalla á hærri vexti og breytilega. Því að enginn lánar peninga til að tapa þeim. Og eins þá leggur enginn peninga inn á sparnað ef að ljóst er að vegna verðbólgu í lengri tíma þá tapa menn hluta af raunvirði inneigna sinna. Þanniig get ég séð að innan nokkar ára verði komin krafa um að vegna hækkandi afborgana af óverðtryggðum lánum þá verði ríkið að koma inn með hærri vaxtabætur svo um munar.

  • Jón Ingi

    sammála því sem hér kemur fram. Einn öflugasti úrtölumaður á þinginu er formaður þess sem þennan pistil ritar SDG…vonandi hafa Framsóknarmenn unnið heimavinnuna sína og endurhlaðið forritið í formanninum með jákvæðum straumum.

  • Pétur Kristjánsson

    Er framsóknarflokkurinn orðinn málssvari Bjarts í Sumarhúsum? Hvað með samvinnuhugsjónina? Og er eitthvað að því að eiga samvinnu við erlenda aðila eins og Evrópusambandið? Raunin held ég að sé sú að innganga í ESB yrði stærsta skref fram á við í félagsmálum og efnahagsmálum sem Ísland gæti stigið.
    Með fullri virðingu fyrir Framsóknarflokknum þá blasir stefna hans fyrir mér þannig að hún snúist fyrst og fremst um fjölskylduhagsmuni formannsins. Meira að segja Íhaldið virðist nær miðju en Framsókn.

  • Ég held að þessi hugsun þín: „Við erum greinilega aftur farin að ýta við ákveðnum öflum í samfélaginu.“ sé sjálfsblekking. Nú er það svo að flokkurinn þinn hefur verið duglegur að finna uppá einhverju bragði til að laða að kjósendur í aðdraganda kosninga. Það er í sjálfu sér eðlilegt. En saga þessara kosningabragða ykkar er ekki glæsileg: Kárahnjúkavirkjun, 90% húsnæðislán, 20% almenn lækkun lána og nú skattatrikkið. Þetta er ábyrgðarlaus afstaða hjá flokknum og afleiðingar þess sem komst í verk ekki til að hrópa húrra fyrir. Kárahnjúkavirkjun: stórfelld náttúruspjöll, lánamálið: stór þáttur í bóluhagkerfinu og Hruninu, 20% komust sem betur fer ekki í gegn og sama verður um skattatrikkið.

  • Eygló Harðardóttir

    Sælir, – flokkurinn minn hefur verið til í nær 100 ár og á þessum árum hefur Ísland farið frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu yfir eina þá ríkustu í heimi. Á þessum tíma hefur Framsóknarflokkurinn gert mistök, en hann hefur líka gert margt gott. Eitt af því er áherslan á að vinna er forsenda velferðar og trúin á okkur sjálf.

    Það er leitt að menn séu svo fastir í skotgröfunum að þeir geta ekki fagnað nýjum hugmyndum og vilja til samvinnu, sem og haft meiri trú á sjálfum sér og þjóðinni.

    En kannski er það eina leiðin fyrir úrtölumennina að markmiði þeirra?

  • Já Eygló hér gapa Evropusinnar sem vilja gera allt til að komast í það samband, þó það logi stafna á milli. Ekki er ég framsóknarmaður, en það er rétt hjá þér að við þurfum að hlusta á allar raddir, einungis þannig getum við þroskast upp úr skotgröfunum. Það er líka látið líta svo út sem Samfylkingin hafi ekkert nálægt hruninu komið. Það er reynt að breiða yfir hlutdeild þeirra í því, sem er raunar frekar vandræðalegt þar sem bæði Jóhanna og Össur voru í lykilsætum í Samfylkingunni á hruntímanum.

  • Sæl Eygló.

    Verð að játa að ég er ekki að skilja hvert þú ert að fara með þessum pistli þínum.
    Skil ekki um hvern þú ræðir þegar þú tala um „úrtölumenn“ Eru það menn sem vilja halda upp barráttunni að ganga inn í ESB ?
    Eða kannski þá hinir sem vilja ekki missa völdin yfir almenning með því að ESB setji hér skýrari reglur um hvernig eigi að ganga um fjár- og gengismál, eftir að við höfum gengið að skilyrðum ESB vegna inngöngu.
    Veit ekki með þig en ég er einn af þeim sem bíð spenntur eftir því að sjá téð samningsdrög, því ég telst hluti af sauðsvörtum almenning, er ekki fjármagnseigandi, skulda mín húsnæðislán með verðtryggingu, lán sem hafa hækkað mikið frá því 2008. Ég er ekki mikið spenntur fyrir 20 % leiðinni ykkar, því þá sé ég fram á að horfa upp á mikið af fólki í kringum mig sem tók áhættu, að fá sín 20 % ( 6 til 8 milljónir) tilbaka, á minn kostnað og margra annara. Ég tók ekki áhættu fyrir hrun en er ásamt mörgum öðrum að greiða hrunið niður hægt og örugglega.
    Ef innganga í ESB þýðir að ég get haldið mínu starfi, borgað lægri tolla af mat, tekið hagstæðaði lán, þá veistu hvað ég mun kjósa.

    Síðustu misseri hef ég fylgst með umræðu ykkar stjórnarandstæðinga um ESB og mig grunar að þetta snúist ekki lengur um okkur almenning og okkar hag heldur það að vera hugsanlega bundin af því að geta ekki gert og haft hlutina eins þinn flokkur hefur haft það á meðan hann hefur stýrt.
    Lækka gengi þegar beðið er um það, hækka tolla þegar beðið er um það, sýnt óráðsíu í peningamálum sem svo aftur eykur verðbólgi á kostnað almennings.
    Ég á bara ekki mikið traust til ykkar stjórnmálamanna til að bera, til geta boðið mér og minni fjölskyldu upp á betra líf til frambúðar, því miður.
    En þú færð, enn of aftur plús í kladdann hjá mér, fyrir hógværa nálgun og að þora að setja fram þínar skoðanir 🙂

  • Jón Ingi

    Ásthildur..skammst þú þín fyrir að vera Evrópubúi ??

  • Hvað hefur þú fyrir þér í því að Ísland hafi verið ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 20. aldar. Ekki benda á Jónas frá Hriflu!

  • Nei svo sannarlega ekki Jón Ingi. En ég vil hafa allan heiminn undir ekki bara 27 ríki ESB. Ég þekki ágætlega til í Evrópu, hef dvalið þar löngum bæði í Austurríki, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Skotlandi, og heimsótt mörg lönd í styttir heimsóknum, eins og Eistsland, Póllalnd, Serbíu, Ungverjaland, Slóveníu, Slóvakíku, Tékkland, Frakkland, Írland, Spán, Lúxemburg og fleiri. Þekki fólk á þessum stöðum og líkar vel við bæði þjóðir og lönd. Það hefur aftur á móti ekkert að gera með væntingar mínar um að vera utan þessa bandalags. Enda vara vinir mínir í ESB mig við að við höfum ekkert þangað inn að gera. Svo þar ber allt að sama brunni.

  • Pétur Henry

    Vissulega, því er mikilvægt að allar hugmyndir fari í gegnum einhverskonar hlutlaust mat t.d. á kostnaði og árangri. Ef það er gert af heilum hug og nákvæmni og sýnir t.d. mikinn kostnað eru það þá úrtölur? Nei ekki endilega, það er þá bara gerð sú krafa að það sé skýrt hvaðan sá kostnaður á að koma, sem er pólítísk spurning. En það þarf þá að svara henni.

    „Seðlabankinn komst að þeirri niðurstöðu í apríl, eftir ítarlegustu greiningu sem framkvæmd hefur verið á 20 prósenta almennum skuldaniðurfærslum, að leiðin myndi kosta 261 milljarð króna. Tæplega 60 prósent afskriftanna myndu falla í skaut tekjuháum heimilum en einungis fjórðungur skila sér til tekjulágra heimila.“ úr leiðara FB

  • Ásmundur

    Við getum sjálf unnið okkur út úr vandanum. Við getum sjálf afnumið verðtrygginguna. Við getum sjálf lækkað vexti. Leiðin til þess er að taka upp samstarf við Evrópuþjóðir og ganga í ESB. Og taka svo upp evru í tímans rás.

    Enginn hefur sýnt fram á að önnur leið sé fær. Hins vegar hafa sterk rök verið færð fyrir því að svo sé ekki. Þeir sem tala fyrir annari leið verða að sýna fram á lausnina. Við höfum ekki efni á nýju hruni eins og erlend skuldastaða rikisins er. .

  • Kristján Kristinsson

    Sýndu okkur áætlunina, þ.e. hvað þetta allt kostar (þá á ég við nýjustu hugmynd SDG) og hvar á að taka þessa peninga. Sem sagt, komið með ykkar eigið fjárlagafrumvarp. Ef það er ekki gert um leið og þessar tillögur eru kynntar þá er þær ekkert annað en blaður út í loftið.

    Ég vil líka sjá áætlun um hvernig á að afnema verðtrygginguna og halda svo krónunni.

  • Eygló Harðardóttir

    Sælir,
    ég veit að merking orðanna samráð og samvinna hefur orðið óskýrara í hugum margra á síðustu árum, – en í mínum huga þýðir það enn að menn leggja fram ákveðnar hugmyndir og eru svo tilbúnir til að ræða útfærsluna við samstarfsmenn sína.

    Ekki þannig að menn leggja fram fastmótaðar tillögur sem ekki má svo hreyfa við.

    Út á það gengur okkar tillaga, – samvinnu, skynsemi og rökhyggju.

    Ég vil einnig benda á að ýmsir voru tilbúnir að samþykkja greiðslu 36-40 milljarða í erlendum gjaldeyri árlega vegna Icesave án þess að nokkrir útreikningar lægju fyrir um hvar ætti að afla þeirra fjármuna, -án nokkurs samráðs eða samvinnu og afhenda þá fjármuni Bretum og Hollendingum.

    Þeir sömu virðast svo hafa miklar áhyggjur af hvernig megi veita heimilum þessa lands aðstoð, okkur öllum til hagsbóta.

    bkv. Eygló

  • Petur Henry

    Svo skal bol baeta ad tengja andstaedan malstad vid icesave,esb eda hitler.

  • Pétur Henry

    ÆÆææææ þetta er eitthvað svo rökþrota umræða. Snýst um sérkennilega túlkun (aha, ég er farin að ýta við öflum sem vinna gegn hag almennings, ég hlýt því að vera að vinna að hag almennings), yfir í að tengja þá sem ekki gleypa við því sem er sagt við úrtölufólk, ESB sinna og nú síðast þá sem aðhylltust ákveðna stefnu í ICESAVE – ÞÓ eru enginn bein tengls milli þessara mála – þetta er allt ad hominum rök (= þeir sem er með *mögulegri* inngöngu í ESB og voru með samingaleið ICESAVE sem *besta kosti* í stöðunni (eins og meirihluti þingsins), geta ekki sagt neitt af viti um skuldastöðu heimilanna eða fjármál ríkisins).

    Og að lokum, kemur svo í ljóst að dæmið hefur ekki verið reiknað til fulls, heldur er treyst á komandi samráð í þeim efnum. Það eru allir sammála um að gott væri að leysa skuldavanda heimilanna, ég held að allflestir sem skulda stökkbreytt lán, og eru með lækkandi laun, séu þess fylgjandi að breyta kerfinu, fella niður skuldur, losa okkur við verðtryggingu u.s.w. En það hefur bara enginn sýnt fram á að það sé hægt án þess að ríkið (semsagt við) fari á hausinn, eða jú ríkið geri alvöru rúmrusk hjá öðrum valdamiklum aðilum í þjóðfélaginu. Er vilji til þess? Það þarf ekki að þýða að það sé ekki hægt, það er bara ekki hægt að tala í hálfkveðnum vísum, heldur segja hvernig það á að gera það hvað það kostar og hver borgar. Það eru lausnir byggðar á samvinnu, skynsemi og rökhyggju.

  • Kristján Kristinsson

    Ég veit ekki betur en að síðasti Icesave samningur hefði kostað okkur fram til ársins 2016 um 40 milljarða (hámark, en auknar endurheimtur úr þrotabúi þá er kostnaðurinn eitthvað minni). Því skil ég ekki þessa tölu 36-40 milljarða árlega sem þú ert að tala um.

    Það er fínt að koma með tillögur, en það verður að fylgja með hvaðan peningarnir eiga að koma. Hvar þarf að skera niður? Er hægt að auka tekjur ríkisins til að mæta þessum kostnaði? Ef svo er, hvernig? Hvaða tekjuhópi gagnast svo þessi tillaga mest? Tekjulágum? Eða kannski tekjuháum?

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Fín skrif hjá þér, Eygló, sem greinilega fara í taugarnar á mörgum.

    Maður sér að spuna-áróðursvél Samfylkingarinnar er farin í gang.

    Nú á að ráðast á Framsókna líkt og gert var fyrir kosningarnar 2007 og sparka í hana frá öllum áttum og gera þingmenn hana tortryggilega sem að flokkurinn fá slæma útreið í kosningum 2013 líkt og 2007.

    Maður sér þetta í leiðurum Fréttablaðsins, greinarskrifum þar og hér á Eyjunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur