Þriðjudagur 02.10.2012 - 19:30 - 2 ummæli

„Faðir evrunnar“ um Ísland og ESB

Viðskiptablaðið birtir áhugavert viðtal við Yves-Thibault de Silguy, fv. framkvæmdastjóra hjá ESB sem bar ábyrgð á undirbúning upptöku evrunnar og hefur verið kallaður „faðir evrunnar“. Það sem vakti einna helst athygli mína í viðtalinu var eftirfarandi:

1)      Ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eru tvær ólíkar ákvarðanir.   „Þið þurfið að byrja á að ákveða hvort þið viljið Evrópusambandið eða ekki.  Það er pólitísk ákvörðun. Svo þurfið þið að vera í Evrópusambandinu í ákveðinn tíma áður en þið getið komið ykkur inn í  myntbandalagið.“

2)      Íslendingar munu ekki fá neina flýtimeðferð í gegnum það ferli sem fylgir upptöku evru. „…eftir það sem gerðist með Grikkland þá held ég að öllum ströngustu skilyrðum um inngöngu í myntbandalagið verði fylgt.“

3)      Við munum ekki geta fengið aðstoð Evrópusambandsins við að aflétta gjaldeyrishöftunum. „Nei, það er að mínu mati ekki mögulegt….Við verðum að vera viss um að fjármagn geti farið hindrunarlaust á milli aðildarlanda.  Það er einfaldlega skilyrði.  Ég get ekki séð að það sé mögulegt að fá undanþágu frá þessum reglum.“

4)      Evran er ekki ástæða kreppunnar í Evrópu. Hennar hlutverk var ekki að tryggja vöxt eða velmegun, heldur til að vernda, viðhalda og bæta hinn sameiginlega markað.  „Evran er einfaldlega bara góður blóraböggull.“  Má ekki segja það sama um alla gjaldmiðla?  Þeir einfaldlega endurspegla hagstjórnina, en skapa hana ekki.

5)      Tvö svæði eru og verða innan Evrópusambandsins. „Ég held að Evrópa verði á tveimur hraðstigum, ef svo má að orði komast; evrusvæðið og svo afgangurinn af fríverslunarsvæðinu.  Með markaðsreglum verði tryggt að hinn sameiginlegi markaður virki fyrir alla Evrópu.“

6)      Aukin samþætting evrusvæðisins mun væntanlega til samskonar kerfis og í Bandaríkjunum.  „Hvers konar lýðræðislegt skipulag setur maður inn í þetta kerfi?  … En lykilinn að velgengni er alltaf meira lýðræði og meiri samþætting.“

Hafið þið lesið viðtalið?  Hvað fannst ykkur?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Magnús Björgvinsson

    Finnst hann nú full viljugur að lýsa því að við fengjum ekki hjálp við að losa um gjaldeyrishöftin. Held að ljóst sé reyndar hvort eð er þá þurfum við að losa um þau þar sem við fáum ekki endalaust undanþágur frá EES reglum um að frjálst flæði fjármagns. Og við hugsanlega upptöku Evru siðar meir eða fullvissu þeirra sem eiga hér eignir sem vilja út um að svo verði þá minnkar væntanlega þrýstingur á að það gerist strax.
    Og alveg sama hvað fólk segir þá sýnir sagan okkur að við höfum aldrei ráðið við að hafa sjálfstæða mynnt. Hún hefur stöðug rýrnað og þegar um skamman tíma gengi hennar hefur hækkað þá er það yfirleitt ljóst að engar innistæður voru fyrir því.
    Við höfum síðan 1970 stöðugt verið að auka samstarf og samvinnu við Evrópu í gengum EFTA og síðar EES. Og eins aðeins fyrr þegar við gengum í Norrænaráðið. Í öll þessi skipti hafa viðsemjendur okkar virt sérstöðu okkar. Og í kjölfar allra þessara samninga höfum við upplifað vöxt og aukin lifsgæði. Minni á t.d. að hér var alvarleg kreppa 1968 sem ekki lauk fyrr en einmitt eftir að við gerðumst aðilar að EFTA og svartsýnisraddir þá um að útlendingar myndu leggja Ísland og auðlindir okkar undir sig stóðust ekki. Næsta alvarlega kreppa sem ég man eftir var um 1988 eða 1989 og henni lauk ekki í raun fyrr en að við gerðumst aðilar að EES. Því þá var aflétt t.d. tollum af útflutningsvörum okkar til Evrópu að stórum hluta. Og þá eins og áður voru hér raddir um að útlendingar tækju allt verðmætt hér og hér myndi allta fyllast af erlendum mönnum sem myndu kaupa allar útgerðir með brellum og allt land sem þeir kæmust yfir. Þetta stóðst ekki.
    Nú eru nákvæmlega sama umræða fólks í gangi sem þekkir ekkert til þessara mála.
    Svona bara að lokum. Halda menn að Finnar, Danir Svíar séu svona miklu vitlausari en við og hafi bara fyrir 20 árum ákveðið að leggja þessi lönd bara niður og gerast ESB? Er ekki ljóst að öll þessi lönd teljaað hag sýnum sé betur borgið í þessu samstarfi? Halda menn að eitthvað af þessum löndum sé tilbúið að leggja sig niður sem sjálfstætt þjóðríki þó þau ákveðið að hafa náið samstarf og samvinnu á ákveðnum sviðum? Finnst þessi umræða þurif að þroskast. Hvað t.d. með það ef að hér verður áfram svoan ástand þar sem fólk getur ekki treyst á að vextir séu ekki helmingi hærri á næsta ári en þessu, verðbólga getur við eina stórframkvæmd rokið upp um 2 til 5% sbr. lok á Kárahnjúkum. Gengið getur fallið um tugi % eins og við þekkjum. Heldur fólk að unga fólkið okkar komi til með að sætta sig t.d. við að kaupa húsnæði með lánum í krónum sem ekki er nokkur leið að spa til um hvernig þróist ár fram í tíman og þar með vextir sem og annar kostnaður við að lifa hér. Það kostar þau ekki nema nokkra tugi þúsunda að fljúga héðan og koma sér í öruggara umhverfi til framtiðar.

  • Til að geta rætt upptöku minntar á borð við Evru verður aðhorfast í augu við það að ríkisstjórnir missa möguleikann á að hagræða fyrir útflutningsfyrirtækin með gengisfellingum. Þetta krefst þess að fyrirtæki og ríkisvald verður að hagræða með öðrum hætti í gegnum mannahald og fjárlög. Eðlilega eru margir hræddir við að „fastgengi“ Evrunnar muni leiða til atvinnuleysis og niðurskurðar. Menn eru hræddir við að fyrirtæki flytji starfsemi sína úr landi ef það telur hag sínum best borgið þannig. Fyrirtæki eiga ekkert þjóðerni og hagnaður þeirra stafar ekki af þjóðrækni. Þess vegna hefur mér fundist að stór hluti landsmanna telji að með þvi að læsa okkur inni í „þjóðkrónu“ muni vera hægt að „stýra“ efnahagslífinu eftir þörfum „þjóðarinnar“. Það verði bara að sætta sig við fjárlagahalla og ósjálfbæran hagvöxt. Það er rétt hjá fv framkvæmdastjóra ESB að íslendingar eiga engan sjálfsagðan rétt á að þeim verði hjálpað við að borga skuldir sínar við erlenda kröfuhafa og taka upp Evrur í þeim tilgangi. Það er ekki tilgangurinn með evrusamstarfinu að koma á frjálsu flæði fjármagns. Það verður að vera komið á áður en evran er tekin upp ásamt fleiri skilyrðum. Þess vegna er mikilvægt að sjá hvaða möguleika við eigum í aðildarsamningum að ná þessum markmiðum með eða án aðstoðar. Framsóknarflokkurinn hefur því að mínu mati ákveðið að fækka möguleikum okkar til að komast til botns í þessu vandasama máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur