Sunnudagur 21.10.2012 - 15:01 - 4 ummæli

Ansi framsóknarleg niðurstaða

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir. Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði vilja að tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar endurskoðun á stjórnarskránni.

Gaman var að sjá hvað niðurstöður kjósenda við hinum spurningunum voru í miklu samræmi við stefnu og ályktanir Framsóknarflokksins.

Sp. 2

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?  82,5% já, 17,5%  nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006.“ Á 135 og 136. löggjafarþingi flutti þingflokkur Framsóknarmanna tillögu um þjóðareign á náttúruauðlindum auk þess sem þingflokkurinn studdi frumvarp til stjórnskipunarlaga sem flutt var af forystumönnum allra flokka á Alþingi fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar 2009.  Þar mátti finna nokkuð samhljóða ákvæði um auðlindir í þjóðareign og þingflokkur framsóknarmanna hafði lagt til.

Sp. 3

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? 57,5% já,  42,5% nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Þjóðin þekkir rætur sínar, menningararf og þau siðrænu gildi sem hún hefur bygg samfélag sitt á um aldir. Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum  jarðvegi enda hefur kristin kirkja haft mótandi áhrif á menningu þjóðarinnar  undanfarin þúsund ár. Við viljum að áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“

Sp. 4

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?  77,9% já, 22,1% nei.

Í ályktun flokksþings 2011 segir: „Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri „.

Sp. 5

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? 63,2% já, 36,8% nei (vantar tölur úr Rvk norður).

Í ályktun flokksþings 2011  segir: „Við viljum að vægi atkvæða verði jafnað eins og kostur er.  Við höfnum alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi.“ Í grundvallarstefnuskrá flokksins segir: „I. Þjóðfélagsgerð. Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. V. Stjórnarfar. Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu. IX. Búsetuskilyrði. Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.“

Sp. 6

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? 72,2% já, 27,8 nei. (vantar tölur úr Rvk norður)

Í kosningastefnuskrá 2009 er talað um“…að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.“.  Í grunnstefnuskrá flokksins segir: „V. Stjórnarfar. Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.“

Því er óhætt að fullyrða að niðurstaðan er ansi framsóknarleg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Halldór L.

    „Þessi siðrænu gildi eru að miklu leyti sprottin úr kristnum jarðvegi “

    Þessi gildi okkar eru s.s. að berjast gegn rétti samkynhneigðra, berjast gegn trúfrelsi, berjast gegn málfrelsi og níðast á ókristnum á meðan við ljúgum öllu til þess að halda forréttindastöðu okkar í ríkissjóði?

    En gaman að enn skuli vera fólk frá miðöldum sem vilji mismuna eftir trúarbrögðum.

  • Vita Sigmundur Davíð og Vigdís Hauks. af þessum flokksþingsályktunum og kosningastefnuskrám?

  • Stefna Framsóknarflokksins er að mörgu leyti mjög góð. Það virðist hins vegar vera mín kæra eins og ákveðnir aðilar innan flokksins séu bara ekki alveg meðvitaðir um hvaða stefnu flokkurinn stendur fyrir. Hvorki þá stefnu sem þau voru kosin út á í kosningunum 2009 né stefnumörkun grasrótar flokksins. Ég minnist þess t.d. að hafa þurft að taka miklar rökræður á flokksþinginu 2011 við ákveðna menn sem töldu persónukjör alls ekki eiga heima í stefnu flokksins og töluðu mjög gegn því.

    Niðurstaða gærdagsins er stórsigur fyrir íslensku þjóðina og skref að betra Íslandi 🙂

  • Jörundur

    Verð að viðurkenna að ég var mjög tvístígandi við að svara fyrstu spurningunni. Svo margt vel gert í tillögum ráðsins en hafði efasemdir um einstaka punkta… Hins vegar þótti mér verst hvernig umræðan var öll. Þeir sem dirfðust að hreyfa andmælum eða sýna efasemdir eins og svo margir Sjálfstæðismenn – það var hraunað yfir þá. Sömuleiðis Útvarp Saga sem ég hafði metið svo mikils, þeir gersamlega brugðust. Iðulega með þátt eftir hádegi á föstudögum og þar voru eingöngu til svara menn úr stjórnlagaráðinu. Jón Valur Jensson og Jón Magnússon sem höfðu verið með vikulega þætti og voru andsnúnir eða vildu fá fram umræðu um ákveðna þætti í tillögunum, þeir voru látnir hætta með sína pistla. Mér fannst því kosningarnar að sumu leyti ósigur lýðræðislegrar umræðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur