Greiningardeildir og viðskiptafréttamenn eru farnir að tala um bólur í hlutabréfum, fasteignum og ríkisskuldabréfum. Vandinn er að þessar bólur skapa ekki ný verðmæti, enga raunverulega nýsköpun og engan gjaldeyri.
SA sagði að hagvöxturinn þyrfti að vera 5% 2011-2015 til að við gætum farið að bæta lífskjörin, útrýma atvinnuleysi og borga niður skuldir af alvöru. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 2,6-2,9% hagvexti fyrir sama spátímabil. Samtökin töluðu um að fjárfesta í útflutningi, uppbyggingu og framtíðarstörfum, ferðaþjónustuna utan háannatíma, stóriðju og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins.
Lykilatriðið var þó lánsfé á lægri vöxtum.
Núna er fjármagn að leita í fjárfestingar sem munu ekki hjálpa okkur út úr kreppunni. Við þurfum að eyða peningum á réttum stöðum.
Ein leið er að fá stóru fjármálafyrirtækin til að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki (SMEs). Í Bretlandi hafa stjórnvöld í samstarfi við stærstu bankana farið á stað með svokallað Project Merlin þar sem lána átti 76 milljarðar punda til SMEs. Í Bandaríkjunum eru seðlabankamenn farnir að ræða opinskátt hversu lítill hluti af lánsveitingum stórra fjármálafyrirtækjanna er að fara til SMEs og hindra þannig viðsnúninginn. Skoða þarf leiðir til að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest í nýsköpunarverkefnum, en ekki bara stærri fyrirtækjum og skuldabréfum. Samningar við kröfuhafa gömlu bankanna verða að beina fjármagninu á rétta staði.
Aukið framboð lánsfjár ætti að lækka vexti, sem og endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.
Búum til réttar bólur.
Í fjölgun starfa, auknum kaupmætti og raunverulegri verðmætasköpun.
Meðan gjaldeyrishöftin eru til staðar verða allar fjárfestingaákvarðanir bjagaðar. Verkefni þitt sem stjórnmálamanns ætti því að vera að finna leiðir til að afnema þau sem fyrst. Þetta er langstærsta málið sem við stöndum frammi fyrir og lykillinn að aukningu kaupmáttar. Stjórnarskrármálið er dvergvaxið miðað við þetta verkefni, breytingar á sjávarútvegi líka, jafnvel þó áhrif beggja málanna á lífskjör á Íslandi verði skelfileg ef þau verða samþykkt.
Alþingi á að eyða miklu meiri tíma í að finna lausn á gjaldeyrishöftunum, allt annað á að fá að mæta afgangi.
Með eignabólum er venjulega átt við að verð eigna hækkar tímabundið langt umfram undirliggjandi hagrænt virði – sem leiðréttist síðan til lengri tíma – oft með látum og tjóni. Þess vegna eru allar eignabólur í eðli sínu rangar en engar réttar.
En þingmanninum til huggunar er líklegt að sú bólumyndun eigna, sem er að hefjast í íslensku hagkerfi, muni einnig leita í ýmsar óskráðar minni eignir ef marka má söguna.
Þökk sé íslensku krónunni og gjaldeyrishöftunum!
Skrítið. Minnir einmitt að SA hafi talað um þetta sem lykilþátt í afnámi gjaldeyrishaftanna = skapa gjaldeyri, draga úr atvinnuleysi og auka kaupmátt.
Þannig að þetta er hluti af lausninni við afnám gjaldeyrishaftanna. Beina hluta af lausu fé í réttar fjárfestingar sem skapa gjaldeyri. Aðrir leiðir eru td. útgangsskattur og skiptigengisleiðin eða uppboðsleiðin.
Allt leiðir sem við verðum að vera tilbúin til að fara í, – svo maður tali nú ekki um almenna jákvæðni gagnvart atvinnulífinu og sköpun starfa 🙂
Ég held að vandamálið sé miklu fremur skortur á fjárfestingatækifærum í krónuhagkerfinu fremur en skortur á fjármagni. Það er töluvert framboð af fjármagni (krónum) og fjárfestum í dag sem eru að reyna að finna hagkvæm fjárfestingatækifæri. Ekki veit ég hvernig á að „beina“ fjármagni í „réttar“ áttir umfram það sem sjálfsbjargarviðleitni og frumkvæði sem er í gangi í dag. Kannski stofna opinberan fjárfestingasjóð – á því sviði liggur mikil reynsla!