Fimmtudagur 24.01.2013 - 09:00 - 9 ummæli

Evrusnuðið

Mér líður stundum eins og  ég sé að taka snuð af ungabarni þegar ég bendi á að evran er ekki lausn á okkar vandamálum. Staðreyndin er þó að stundum þarf að gera meira en gott þykir.

Undir það tók samráðshópur um mótun gengis- og peningamálastefnu sem skilaði af sér til fjármálaráðherra 4. október 2012.  Þar segir:

„Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum.  Því er mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Slíkt sé grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulagi gengismála og peningastefnu.  Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.  Hvað varðar valkosti til lengri tíma eru skoðanir skiptari en samstaða er um að einhliða upptaka annarrar myntar komi ekki til álita. “

Í hópnum sátu fulltrúar allra þingflokka, fulltrúi ráðherra, og fulltrúar frá SA og ASÍ.

Þessu er ég sammála.

Því hef ég m.a. lagt fram frumvarp ásamt þingflokki framsóknarmanna þar sem ráðherra yrði falið að taka upp þjóðhagsvarúðartæki og endurskoða hvernig staðið er að fjárlagagerð hvers árs o.fl.

Einhver kynni að spyrja hvað er lengri tími? Árið 2009 spáði Árni Páll Árnason að kosið yrði um aðild að ESB árið 2010, eða í síðasta lagi 2011.  Nú spáir Katrín Júlíusdóttir að kosið verði um aðild árið 2014, eða síðasta lagi 2015.  Staðreyndin er að jafnvel þótt við samþykktum aðild á morgun væru mörg ár þar til við getum uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins og tekið upp evru.

Staðið verður fast á Maastricht skilyrðunum. Því til stuðnings má benda á Pólland.  Pólland hefur verið fyrirmyndar ESB ríki.  Árið 2010 uppfyllti landið þó aðeins tvö af fimm Maastricht skilyrðunum.  Árið 2004 var því þó spáð að aðeins tæki 12-20 mánuði að ná þeim.  Innganga í ERMII er ekki talin vænleg fyrr en 2015 og upptaka evru þá í fyrsta lagi 2017.  Áhuginn virðist þó takmarkaður og Pólverjar vilja bíða og sjá hver þróunin verður á evrusvæðinu, þó það þýði strangari inngönguskilyrði.

Þetta er nákvæmlega það sem Yves-Thibault de Silguy, fv. framkvæmdastjóri hjá ESB, sem bar ábyrgð á undirbúning upptöku evrunnar og hefur verið kallaður „faðir evrunnar“, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið:

1)      Ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru eru tvær ólíkar ákvarðanir.   „Þið þurfið að byrja á að ákveða hvort þið viljið Evrópusambandið eða ekki.  Það er pólitísk ákvörðun. Svo þurfið þið að vera í Evrópusambandinu í ákveðinn tíma áður en þið getið komið ykkur inn í  myntbandalagið.“

2)      Íslendingar munu ekki fá neina flýtimeðferð í gegnum það ferli sem fylgir upptöku evru. „…eftir það sem gerðist með Grikkland þá held ég að öllum ströngustu skilyrðum um inngöngu í myntbandalagið verði fylgt.“

3)      Við munum ekki geta fengið aðstoð Evrópusambandsins við að aflétta gjaldeyrishöftunum. „Nei, það er að mínu mati ekki mögulegt….Við verðum að vera viss um að fjármagn geti farið hindrunarlaust á milli aðildarlanda.  Það er einfaldlega skilyrði.  Ég get ekki séð að það sé mögulegt að fá undanþágu frá þessum reglum.“

Raunveruleg stefna er því: Króna, traust peningastefna með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Tal um annað er að skila auðu í málefnum heimilanna, í stjórnun efnahagsmála.

Hvað með krónueignir erlendra aðila?  Til að taka á þeim þarf þrennt til: Afskrifa þær að hluta, endurfjármagna að hluta og auka útflutning til að afla meiri gjaldeyris sem notaður verður til að borga það sem út af stendur.

Ef menn telja aðild að ESB skipta máli pólitískt, fínt.  En evran leysir ekki efnahagsvanda okkar.

Það getum við ein gert.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Björn Kristinsson

    Held að allir hljóti að vera sammála um að eitt af því mikilvægasta sem verður að ráðast í er peningastefnan á Íslandi. Í dag heyrist hæst upp úr tveimur skotgröfum:

    1) Ganga í ESB og taka upp EUR

    2) Ganga ekki í ESB og hafa IKR

    Hvað á að gera ef þjóðin mun segja nei við aðildarsamningi þegar/ef hann verður borinn undir atkvæði ? Eru þeir sem hanga á leið (1) með plan B ef „NEI“ verður ofan á ?

    Hverju ætla þeir sem styðja (2) að bjóða upp í nýrri skipan peningamála ?

    Frá mínu sjónarhorni eru báðir hóparnir fastir í eigin hugarheimi. Annar með „patentlausn“ en ekkert plan B, hinn „status quo“ sem ekki gengur upp.

  • Magnús Björgvinsson

    Veit að það er hægt að skattleggja útstreymi á gjaldeyri. En sorry held að þapð sé ekki hægt að afskrfa hann! Held að sérstaklega þeir sem eiga hér krónur og vilji komast í burt með þær innan ESB og EES tækju því ekki þegjandi og hljóðalaust að þeirra krónur sérstaklega yrðu afskrifaðar. Held að það færi alveg með veru okkar í EES. Verðum að muna að við þegar erum að teygja verulega á skilyrðum sem við erum bundin innan EES. Við getum en þjóða nú ekki borið við neyðarrétti.
    Held að þar til að við höfum fengið fullkláraðn samning þá getum við ekki fullyrt að við fengjum ekki einhverja möguleika á stuðning við krónuna til að ná markmiðum okkar að uppfylla skilyrðin.
    Bendi á að varðandi EFTA samnninginn á sínum tíma þá var þetta líka sagt að við gætum ekki fengið neitt umfram aðra. En við náðum því samt í gegn að við ein þjóða fengum styrki frá EFTA ríkjum til að uppfylla skilyrði okkar varðandi þann samning. Og þá aðallega vegna þess að við vorum fátæk, fámenn og þessar upphæðir voru litlar í samhengin við stærð og umfang EFTA. Allar þær útöluraddir sem þá heyrðust um að þar með væri fullveldi okkar úr sögunn og Ísland myndi færast í eigu útlendinga og við réðum engu hafa ekki staðist. Sömu menn létu einnig svona þegar við gerðumst aðilar að EES. Og sömu aðilar tala svona í dag. Þ.e. að um ekkert sé að semja, við fáum ekkert tillit tekið til okkar og evran sé bara einhver draumur.
    Að lokum bendi ég á að skuldir okkar í krónum eru sennilega nú um 50 til 60% hærri í krónum talið en þær hefðu verið ef krónan hefði ekki fallið. Og eins að krónueign útlendinga hér er helmingi hærri en hann hefði verið ef að krónan hefði ekki fallið um 88% gagnvart evru síðan 2007. Þannig að ef að hægt væri að auka gengi krónunar raunverulega þá myndu skuldir okkar í krónum lækka verulega. Sé ekki alveg í ljósi þess að við erum með krónuna eins og hún er að hingað streymi fjárfestar sem geta ekki treyst á að við höfum ótakmarkaðan gjaldeyri til að geta leist þá héðan út með skömmum fyrirvara ef þeir svo kjósa. Sem og að við ráðum illa við lækkandi álverð, fiskverð og markaði erlendis. Því finnst mér svona setningar eins og að við þurfum bara að auka útfluttning um slatta, dálítið ódýrt sem og að við þurfum bara að virkja þá reddist allt líka. Sbr. að það eru virkjanir upp á um 2 Kárahnúkavirkjanri í pípunum en það er engin alveg viss um að hann vilji kaupa þess orku.
    Held nefnilega við eigum enga örugga einfalda leið út úr þessu. Veit að ESB er ekki örugg einföld leið. En þar til að við höfum samning þá vitum við ekki hvort að hún sé hugsanlega sú skásta.

  • Ég myndi ekki taka svo djúpt í árinni að evruleiðin leysi engan vanda, hún leysir ákveðinn hluta vandans sem er óvissan í íslenskri peningastefnu. jafnvel þó bestu viðvörunarbjöllum væri komið upp um hver fjárlög er mikil óvissa hver myndi bregðast við því og hvernig. sennilega myndu bjöllurnar gjalla við hver einustu fjárlög og fjáraukalög. Fyrst myndu menn líta í kringum sig að sjá hvaða hávaði þetta væri. Þar sem þingheimur sér ekki reykinn og þaðan af síður eld þá munu viðbrögðin sljóvgast. En litið frá hinni hliðinn þá leysir krónuleiðin heldur engan vanda í bráð og lengd frekar en evran en framlengir bara óvissuna. Mér finnst því tími til kominn að Framsóknarflokkurinn taki á sig rögg og gangi að evrópusamvinnunni með opnum huga. Óánægjuna með aðildarviðræðurnar hafa Sjálfstæðismenn einir getað nýtt sér en hvorki Framsókn né VG. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki slíta aðildarviðræðum þegar á hólminn kemur. Kannski þeir komi þessu í þjóðaratkvæði og ég þekki mína þjóð. Hún gengur ætið með kápuna á báðum öxlum.

  • Elvar Örn Arason

    Það er ekki alveg rétt hjá þér að áhugi Pólverja á upptöku evru sé takmarkaður, en það er rétt að Pólverjar eru í biðstöðu. Nýlega lýsti utanríkisráðherra Póllands því yfirí viðtali við þýskt dagblað að Pólverjar stefni að því að taka upp evruna, um leið og evrusvæðið væri búið að leysa úr sínum málum.

    http://www.brecorder.com/world/europe/76830-poland-will-join-euro-when-crisis-over-minister.html

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Elvar, spurningin er hvort áhugi hafi einhverja raunverulega þýðingu í þessu sambandi enda staðreyndin sú að Pólverjar hafa í raun ekkert val. Þeir eru jú eins og þú veist skyldugir til þess að taka evruna upp samkvæmt aðildarsamningi sínum við Evrópusambandið hvort sem þeim líkar betur eða verr.

  • Evran er betri en hin íslenska ónýta króna. Sem stendur núna í 1€ = 172,11 ISK eða 23,06 ISK = 1 DKK. Þetta er mjög slæmt gengi og hefur ekkert lagast núna 5 árum eftir efnahagshrunið á Íslandi.

    Ég heima við hliðina á evrusvæðinu (Þýskalandi) og því veit ég að málflutningur þeirra sem tala gegn Evrópusambandinu og evrunni er tóm þvæla. Enda byggir þessi málflutningur á rangfærslum og fáfræði.

    Verðlag hefur ekkert breyst hérna í Danmörku eða í Þýskalandi þessa rúmlega 9 mánuði sem ég hef búið hérna. Ef eitthvað er. Þá er helsta breytingin sú að verðlag hefur lækkað ef það breytist á annað borð. Hækkanir eru litlar og oftast tengdar breytingum á sköttum sem danska ríkið leggur á matvöru.

    Ég er ekkert á leiðinni aftur til Íslands. Þar sem verðlag breytist yfirleitt upp á við (allt að daglega til vikulega) og staða almennings er mjög slæm í því umhverfi sem er til staðar á Íslandi.

  • Valur Bjarnason

    Svona bull erum við íslendingar búnir að þurfa hlusta á í 60 ár =>

    „Raunveruleg stefna er því: Króna, traust peningastefna með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.“

  • Það er vissulega rétt að evra er ekki skyndiredding á hinum alvarlega vanda sem við búum við núna í gjaldmiðilsmálum og Ísland fengi ekki inngöngu í ESB með gjaldeyrishöft. Reyndar verður Ísland ekki lengi í viðbót innan EES með gjaldeyrishöft heldur.

    Það er alveg ljóst að krónan verður aldrei alvöru gjaldmiðill á frjálsum opnum markaði. Ef höftunum verður aflétt að fullu þá er alveg ljóst að enginn heilvita maður mun geyma fjármuni í krónum til lengri tíma, allur sparnaður verður í fasteignum, hlutabréfum eða erlendum bankareikningum/skuldabréfum. Íslenskur skuldabréfa markaður mun hrynja og lán til lengri tíma yrðu eingöngu fáanleg í erlendri mynt (eða verðtryggð) eða hver fengist til að lána í íslenskum krónum?

    Nánast öll stærri íslensk fyrirtæki hafa valið Evru eða $ sem sína bókhaldsmynt, þegar svo er komið þá er baráttan töpuð.

    Í nýútgefinn skýrslu seðlabanka íslands þá er það skýrt að valkostir Íslands aðeins tveir, halda áfram krónubaslinu (sennilega með höftum að einhverju tagi) eða upptaka evru (með inngöngu í ESB).

    Upptaka evru er ekki skyndiredding heldur framtíðarlausn á gjaldmiðils vanda Íslands sem myndi koma í veg fyrir það sem gerst hefur undanfarin ár muni ekki endurtaka sig. Innleiðing á Evru er ferli sem tekur nokkur ár innan svokallaðs ERM II.

    Innan ERM II þá myndi Seðlabanki Evrópu standa með Seðlabanka Íslands við að verja gengi krónunnar þannig að það haldist innan þeirra marka sem stefnt er að þannig að Seðlabanki Íslands þurfi ekki að standa kostnað af risa gjaldeyrisvarasjóð eins og nú er:
    „When necessary, the currency is supported by intervention (buying or selling) to keep the exchange rate against the euro within the ±15% fluctuation band. Interventions are coordinated by the ECB and the central bank of the non-euro area Member State.“
    http://ec.europa.eu/economy_finance/euro/adoption/erm2/index_en.htm

    Þau lönd sem undanfarið hafa sótt í að taka upp evru eru fyrst og fremst litlu löndin í Evrópusambandinu, Malta, Kýpur, Eystrasaltslöndin, Slóvakia og Slóvenia. Í dag eru Lettland, Litháen og Danmörk í ERM II ferli hin löndin eru komin með Evru.
    Þetta er mjög skiljanlegt, það er gríðarlega dýrt og erfitt (eins og við þekkjum á eigin skinni) að halda úti litlum gjaldmiðli í opnu alþjóðahagkerfi.

    Stærri lönd eins og Pólland og Svíþjóð eiga val þar sem eigin gjaldmiðill hefur jú sína kosti en fyrir minni lönd þá vegur kostnaður gjaldmiðilsins mun þyngra en kostirnir.

  • @Magnús Björgvinsson:

    Helsti vandi okkar í dag er sá hvernig við eigum að leysa úr snjóhengjuvandanum og sá vandi er grafalvarlegur fyrir efnahagslega framtíð okkar. Einnig minnkar sá vandi ekki með að gera ekkert, þvert á móti eykst hann. Því má spyrja sig af hverju það er ekki forgangsatriði hjá stjórnmálafólki að vinna að þessu risastóru vandamáli?

    Við skulum þó líta á annað og það er það að þú lítur algjörlega framhjá fórnarkostnaði þess að halda áfram samningaviðræðum við ESB á þessum tímapunkti þegar grafalvarlegi snjóhengjuvandinn hangir yfir okkur. Sá kostnaður er sennilega gríðarlega hár vegna þess að 1) sá tími sem fer í ESB-vinnu innan stjórnsýslunnar er sá tími sem fer til spillis við að laga snjóhengjuvandann okkar. Þetta er mjög mikilvægt. Ekki síður mikilvægt er að 2) stjórnarflokkar hafa engan hvata til að vinna að snjóhengjuvandanum okkar. Ástæðan er sú að því lengur sem hann hangir yfir okkur og stækkar (með að gera ekkert), þeim mun líklegra er að mikill óstöðugleiki skapist á endanum. Því meiri líkur á óstöðugleika, því meira fylgi ætti ESB-flokkur að fá. Þetta gæti verið ástæða þess að vinna að stærsta vandamálinu okkar er ekki í gangi. Ef svo er raunin er það glæpsamlegt athæfi að mínu mati.

    Þú segir að það sé vel hæt að skattleggja útstreymi á gjaldeyri og er það vel. Svo segir þú að ekki sé hægt að afskrifa hann. En ef möguleg staðreynd sé sú að Íslendingar GETI EKKI greitt þessar kröfur? Hvað þá? Er hægt að greiða kröfur sem ekki er hægt að greiða? Með það í huga er mjög mikilvægt að kanna hvernig bankarnir voru einkavæddir eftir hrun og hreinlega athuga hvort það ferli geri það að verkum að í dag geti Íslendingar ekki lokið við nauðasamninga banka, geti mögulega ekki greitt þær kröfur og geti mögulega ekki losað fjármagnshöftin vegna þessa. Ef svo er, þá er það annað glæpsamlegt athæfi í mínum huga. Svo gæti auðvitað hugsanlega verið að fjármagnshöft verji okkur að einhverju leyti gagnvart því stórkostlega ruglaða ástandi sem í gangi er á meginlandinu. Einnig má velta því fyrir sér hvort SÍ geti yfirhöfuð mótað einhverja peningastefnu meðan stjórnmálastéttin ýtir þessum vanda á undan sér.

    Þó það væri ekki nema bara fyrir þær svakalegu stóru og miklu breytingar sem eiga sér stað nú innan ESB og sem munu eiga sér stað á næstu misserum, er það langskynsamlegast fyrir íslenskan þjóðarhag að setja þessa umsókn á ís. Með því fengjum við mun betri yfirsýn um hvers konar breytingar það eru innan ESB sem munu eiga sér stað, og hvort við séum hlynnt þeim breytingum eða ekki. Eins og var rakið að ofan gætum við einnig unnið saman að stærsta vandamálinu okkar í stað þess að gera ekkert í því.

    Hvernig sem litið er á hlutina, þá á það að vera forgangsatriði stjórnmálamanna að vinna að snjóhengjuvandanum okkar. Aðild að ESB á að vera algjört aukaatriði á þessum tímum. Hins vegar er það ekki svo. Af hverju ekki?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur