Fimmtudagur 14.02.2013 - 09:43 - 2 ummæli

Með réttlætið á heilanum

Um hver mánaðamót sitja íslenskar fjölskyldur við eldhúsborðið og velta fyrir sér hvaða reikninga eigi að borga.  Hvernig borga eigi bæði stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán og mat fyrir fjölskylduna.  Á flokksþingi lofaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins því að eitt meginverkefnið Framsóknarmanna yrði að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig leysa megi, eða létta mjög, vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis.

Við vitum að þetta verður ekki auðvelt.  Talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu til að halda heimilunum áfram í skuldafangelsi.  Þeir munu klifa á því að við getum engu breytt og ekkert gert.

Þessu höfnum við Framsóknarmenn.  Tími er kominn til að rjúfa umsátrið um heimilin og tryggja þeim réttlæti.

Á þessu kjörtímabili hefur þingflokkur Framsóknarmanna ítrekað lagt fram tillögur til lausna.  Ætíð hafa þær tillögur verið talaðar niður. Við höfum barist fyrir almennri leiðréttingu skulda, lagt fram tillögur um hvernig taka megi á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum, varað við ólögmæti gengistryggðra lána og bent á að engin sanngirni felist í að bankarnir og erlendir vogunarsjóðir græði á tá og fingri á því að mergsjúga íslensk heimili.

Eflaust hafa einhverjir talið okkur jafnvel með skuldavandann á heilanum.  En í stórum málum dugar ekkert annað en staðfesta og þor.

Vandinn er þríþættur. Taka þarf á uppsafnaða vandanum, þeim sem ekki var leiðréttur eftir efnahagshrunið.  Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að lánin geti aftur stökkbreyst með því að taka á verðtryggingunni og loks þarf að tryggja fólki betri lífskjör til framtíðar.  Ekkert réttlæti er í að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns. Tryggja þarf neytendavernd á fjármálamarkaði og skipta ábyrgð jafnar á milli lánveitenda og lántaka.  Setja þarf „lyklalög“ og auðvelda fólki að færa lánaviðskipti á milli lánastofnana. Við viljum afnema verðtryggingu á neytendalánum og skal starfshópur ljúka þeirri vinnu fyrir árslok 2013. Jafnframt höfum við lagt til nýtt húsnæðislánakerfi og hefur ASÍ lagt fram sambærilegar hugmyndir.  Þá verða betri lífskjör aðeins tryggð með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins.

Á sama tíma og heilu kynslóðirnar hafa orðið eignalausar hafa bankarnir og kröfuhafar hagnast mjög á viðskiptum sínum og uppfærslu lánasafnanna.  Eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á sanngjarnan máta milli þjóðarinnar og kröfuhafanna.

Til þess þarf kjark og þor.  Til þess þarf Framsókn fyrir Ísland.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. febrúar 2013)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Halldór Guðmundsson

    Til haningju með glæsilegt flokksþing, voandi tekst að vinn á verðtryggingunni, það sem ég fæ ekki botn í , afhverju næst ekki samstaða um að leggja fram frumvarp um flýtimeðferð verðtryggingar í gegnum dómskerfið, því það er borðliggjandi að ekki verða gerðir neinir samningar við kröfuhafa gömlu bankanna fyrr en niðurstaða fæst í því máli, ef samfylkingin, VG og Björt framtíð eru á móti því, verður að upplýsa almenning um það.
    ev. þarf að skoða vel 3.gr þingskjals 579-457 mál (undanþegnir d-og e lið 1. mgr.)því ca. 60% af námsefninu hafa þessir aðilar aldrei lært,stenst ekki neytendasjónarmið né jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

  • Hókus pókus fílirókus að allar skuldir hverfi meðverðtryggingunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur