Laugardagur 16.02.2013 - 07:57 - 9 ummæli

Húsnæðislán: Meira öryggi, betri kjör.

Hvernig væri nýtt og betra húsnæðiskerfi?  Þar sem fólk hefði raunverulegt val um að kaupa eða leigja.  Í skýrslu verðtrygginganefndarinnar lagði ég ásamt meirihluta nefndarinnar til að nýtt óverðtryggt húsnæðislánakerfi yrði innleitt.

Það myndi fela í sér að  hætt yrði að bjóða ný verðtryggð lán á húsnæðislánamarkaði. Boðin yrðu húsnæðislán með endurskoðunarákvæðum á vöxtum á ákveðnum tímabilum (0, 3, 5 eða 7 ára fresti), í stað verðtryggðra jafngreiðslulána. Ný lán hjá Íbúðalánasjóði yrðu með þessum kjörum til einstaklinga. Aðrar lánastofnanir myndu einnig breyta lánaformum sínum í óverðtryggð lán með endurskoðunarákvæðum.  Lánstími yrði styttur og útlán og greiðslumat vandað. Flutningur á milli lánsforma yrði auðveldaður með því að fella niður gjaldtöku við skilmálabreytingu og endurfjármögnun. Veð yrði takmarkað við veðandlag hverrar lánveitingar, sbr. tillöguna um lyklafrumvarpið.

Helsta nýjungin yrði að ný íbúðabréf yrðu boðin út í samræmi við breytt fyrirkomulag útlána og jafnvægi tryggt á milli einstaks húsnæðisláns og íbúðabréfs. Lífeyrissjóðirnir verða að koma að þessari breytingu og því þyrfti að hefja viðræður um endurfjármögnun útistandandi skuldabréfa Íbúðalánasjóðs til að flýta fyrir kerfisbreytingu.

Einnig þyrfti að auka samstarf og/eða samkeppni á milli fjármálastofnana og Íbúðalánasjóðs til að tryggja fjölbreytni á húsnæðislánamarkaði.

Þarna er horft til danska húsnæðislánakerfisins og ályktaði flokksþing Framsóknarmanna sérstaklega um þetta.

Því er ánægjulegt að sjá að ASÍ leggur til samskonar tillögur um húsnæðislánakerfi. Í samhljóma tillögum þeirra segja þeir að þetta kerfi muni gefa húsnæðiskaupendum valkost um hagstæð og örugg langtímalán sem byggja á föstum nafnvöxtum og fyrirsjáanleika inn í framtíðina í stað verðtryggðra lána.

Ekkert í þessum tillögum kemur í veg fyrir að fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóður geta áfram tekið og gefið út verðtryggð skuldabréf.

Enda eru þeir sem helst geta metið áhættuna af verðbólgunni og gert eitthvað til að bregðast við henni.

Við lögðum einnig til að fjölga yrði búsetuformum til að tryggja raunverulegt val og öryggi í húsnæðismálum, óháð efnahag og félagslegri stöðu.  Því þyrfti að styrkja rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga.  Styðja þyrfti við fjármögnun þeirra með stofnstyrkjum, ívilnunum og tímabundnum opinberum stuðningi til að treysta rekstrargrundvöll þeirra.  Hluti af því er nýtt húsnæðisbótakerfi, en aðeins hluti.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • kristinn geir briem

    skiptir máli hvort það er verðtryggt ef menn geta borgað verðtryggínguna jafn óðum. það verður erfit að koma á eðlilegri samkeppni því að menn keppa ekki á jafnrettisgrundvelli ef íbúðarlánasjóður er fjármagnaður á annan hátt enn bankarnir hallar á annan hvorn aðilann. það þarf að áhveða hvernig á að fara með íbúðarlán ef bankarnir sjá um þettað þurfa að vera skýrar reglur um það svo þeir okri ekki á ibúðarkaupendum á að niðurgreiða láninn.?. Ef íbúðarlánasjóður verður áfram hvaða hlutverki á hann að þjóna. að vera félaglegur hvernig á að fjármagna það ekki verður það gert á markaðslegum forsendum , eða að veita öllum lán í samkeppni við banka. er þeirrar skoðunar að það eigi að vera eitn aðili sem lánar til íbúðarkaupa til þess að gera þettað ekki of flókið. það reindist ílla þessi samkeppni milli íbúðarlánasjóðs og bankanna á sínum tímma. en kanski er hægt að samræma þetta sé það ekki sjálfur

  • Þetta er vonalus barátta nema tekin verði í notkun nothæf mynt.

    Bankarnir munu berjast gegn þessu þar sem þeir telja sig geta tapað. Þeim er dauðans sama um fólk eins og margsinnis hefur komið í ljós. Það eina sem fyrir þeim vakir er að blóðmjólka viðskiptavini sína eins mikið og eins lengi og þeir geta, helst fram í dauðann.

    Er fyrir löngu búinn að missa alla trú á stjórnmálaflokka og bullið í þeim. Eina sem getur breytt einhverju er alvöru bylting almennings.

  • Hver heldur þú Eygló að vilja lána peningana sína óverðtryggða? Þetta verður rústun á fjármálakerfinu, eftirlaunakerfinu og bankakerfinu.

  • Eygló Harðardóttir

    Af hverju ekki? Geta menn bara lánað peningana sína á Íslandi ef þeir eru með verðtryggingu, ríkisábyrgð og bann við uppgreiðslum?

  • Vegna þess að þeir vilja fá amk fá sama verðgildi tilbaka. Ekki bið ég um bann við uppgreiðslum, heldur hvet ég alla lántakendur til að borga lán sín hraðar tilbaka ef þeir hafa getu til.
    Mér finnst satt að segja Framsóknarmenn vera fulldjarfir í loforðunum og bið alla þá sem ætla kjósa Framsókn um að vona, þjóðarinnar vegna, að ekki verði staðið við þau. Þá finnst mér athyglistvert að formaðurinn, sem nú virðist vera orðinn skíthræddur við að þurfa að axla ábyrgð, skuli treysta á að vogunarsjóðir muni gefa eftir kröfur sínar. Til upplýsinga: Vogunarsjóðir eru vogunarsjóðir vegna þess að þeir taka áhættu, kaupa kröfur með afföllum, og þeir gefa ekki eftir kröfur sem þeir geta innheimt.

  • Eygló Harðardóttir

    En af hverju eiga þeir að fá verðgildið með vaxtavöxtum sbr. útfærslan á íslensku verðtryggðu lánunum? Sérstaklega þegar þettta fyrirkomulag kemur í veg fyrir skynsama peningastefnu og að við róum öll í sama átt.

    Við höldum ekki að vogunarsjóðirnir gefi eitt eða neitt eftir. Þeir þurfa einfaldlega að beygja sig undir íslensku stjórnarskránna, með góðu eða illu.

    Ég hef engar áhyggjur að formaður minn muni ekki sýna kjark, þor og staðfestu í baráttunni fyrir íslenskt samfélag :). Það hefur hann gert og mun gera áfram, ólíkt ýmsum öðrum 🙂

  • 1. Ég veit ekki hvernig þú skilgreinir vaxtavexti í þessu sambandi. Verðbætur eru ekki vextir heldur afrétting verðgildis.
    2. Þú ert það ung að þú manst ekki tímana án verðtryggingar, en það er tæpast hægt að kalla þá skynsamlega peningastefnu, með um 80% verðbólgu á ári. Það var ekki fyrr en að verðtryggingin var tekin upp að nokkur stöðugleiki í fjármálum komst á.
    3. Ekki veit ég hvað það er í íslensku stjórnarskránni sem getur komið í veg fyrir að aðilar fái lögmætar kröfur sínar greiddar. Þú verður að gera þér grein fyrir að þetta fé sem krafist er var einu sinni fengið að láni og það kom lántakendum að notum.
    4. Formaðurinn þinn hefur látið mikið og haft hátt, fullkomlega ábyrgðarlaus í mjög illa innrættri stjórnarandstöðu. Komist hann til valda efast ég ekki um að barátta hans mun koma auðmönnum þessa lands til góða á kostnað almennings.

  • Eygló Harðardóttir

    1. Vaxtavextir verða þegar verðbótum er bætt við höfuðstólinn (ekki staðgreiddar) og síðan verðbætur reiknaðar aftur af verðbættum höfuðstól. Endilega kynna þér skrif Hagsmunasamtaka heimilanna um þetta.
    2. Nei, verðtryggingin tryggði það ekki heldur samtakamáttur um að ná tökum á verðbólgunni og þjóðarsáttin undir forystu Steingríms Hermannssonar. Því til viðbótar má benda á að raunávöxtun lífeyrissjóðanna varð ekki jákvæð fyrr en vextir voru gefnir frjálsir. Verðtryggingin er og verður hækja, flótti undan því að taka á efnahagsstjórnun landsins.
    3. Í stjórnarskránni stendur hverjir fara með völdin hér á landi. Man ekki eftir að þar standi fjármagnseigendur eða erlendir kröfuhafar né að þeir þurfi ekki að borga til samfélagsins eins og aðrir.
    4. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2386

    Held annars að við verðum að vera sammála um að vera ósammála um nær flest 🙂

  • Já það verðum við, vegna þess að undir þessa speki get ég ekki skrifað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur