Laugardagur 23.03.2013 - 09:42 - 3 ummæli

Kýpur með morgunsólinni

Morgunstundinni var eydd við lestur hinna ýmsu erlendra fjölmiðla og álitsgjafa um krísuna á Kýpur.

Flest allt af þessu hljómar kunnuglega. Í greiningu Paul Krugmans virðist vandi Kýpurs liggja í alltof stóru bankakerfi sem lokkaði til sín erlent fjármagn í formi innistæðna með lágum vöxtum og hagstæðu skattaumhverfi eða svokölluð skattaparadís.  Mikið af fénu kom frá Rússlandi og snéri fljótt þangað aftur í gegnum ýmsar „fjárfestingar“.  Nægjanlega stór hluti var þó eftir til að streyma m.a. í fjárfestingar á Grikklandi og  á innlendan fasteignamarkað.   Afleiðingin var innlend verðbóla, þar sem verð ekki hvað síst á fasteignamarkaði blés út.

Þegar afskrifa varð skuldir hjá Grikklandi, voru það meðal annars kýpverskir bankar sem þurftu að afskrifa.  Stjórnvöld standa því frammi fyrir gjaldþroti bankanna eða björgunarpakka Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og evrópska Seðlabankans, hið svokallaða þríeyki. Þríeykið lofaði að lána 10 milljarða evra, en Kýpverjar þyrftu sjálfur að koma með 5,8 milljarða evra.  Tillaga þríeykisins var að hluti Kýpurs yrði fjármagnaður með skatti á bankainnistæður.

Þingið hikstaði, hafnaði tillögunni, sendi fjármálaráðherrann til Rússlands í leit að peningum og Rússar afþökkuðu pent.  Vildu heldur ekki neinn skatt á innistæður og vilja heldur ekki að bankarnir fari á hausinn því þá tapa þeir og rússneskir innistæðueigendur fullt af pening.

Nýjustu tillögurnar er ríkisvæðing ýmissa eigna s.s. lífeyrissjóða og kirkjunnar, gjaldeyrishöft og endurskipulagning banka í góða banka og slæma banka. Ýmsir telja að niðurstaðan verði á endanum skattur á bankainnistæður, yfir ákveðnu lágmarki.  Enn á svo eftir að lofttæma fasteignabóluna, samkeppnishæfni landsins er í rúst, og björgun bankakerfisins mun drekkja ríkinu í skuldum.

Rússar hóta þá að fara = sbr. gjaldeyrishöft og þeirra eigin útgáfa af snjóhengju.

Krugman mælir með að Kýpur taki aftur upp eigin gjaldmiðil, einhvers konar útgáfu af íslensku leiðinni og bæti þannig samkeppnishæfni landsins.  Möguleiki sem er væntanlega ekki til í orðabók ýmissa háttsettra embættis- og stjórnmálamanna í Evrópu.

En hver hefði heldur trúað því að evruríki gæti endað uppi með gjaldeyrishöft?

Kannski er kjarni vandans sá sem Krugman bendir á (og Eva Joly): „But step back for a minute and consider the incredible fact that tax havens like Cyprus, the Cayman Islands, and many more are still operating pretty much the same way that they did before the global financial crisis. Everyone has seen the damage that runaway bankers can inflict, yet much of the world’s financial business is still routed through jurisdictions that let bankers sidestep even the mild regulations we’ve put in place. Everyone is crying about budget deficits, yet corporations and the wealthy are still freely using tax havens to avoid paying taxes like the little people.

So don’t cry for Cyprus; cry for all of us, living in a world whose leaders seem determined not to learn from disaster.“

Lærum við nokkurn tímann?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Pakkakíkir

    Össur segir að línuritið snúi öfugt….

  • Stjórnmálaflokkar auðstéttarinnar haga sér yfirleitt eins hvar sem er í heiminum eins og Sjálfstæðis- og framsóknarflokkurinn á Íslandi. Þeir verja möguleika auðmanna til að sölsa undir sig auðlindir landsins eins og nú er ljóst í auðlindamálinu sem nú er til afgreiðslu á Alþingi.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Á heimsvísu er enn helst verið að plástra afleiðingar fjármálakrísunnar.

    Sáralítið er gert í orsökunum, þó þær séu vel kunnar. Vandanum er sópað undir teppið.

    Íslendingar þurfa ekki að sækja vatn yfir bæjarlækinn til að finna ósjálfbært ástand á við Kýpur. Efnahags og stjórnmálin eru í sama Gullfiskabúri og fyrir hrun.

    Eftir Kosningar ? ….. Sama fiskabúr, sömu gulfiskar…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur