Fimmtudagur 09.05.2013 - 12:17 - 1 ummæli

Íslenskar fjölskyldur

Þegar ég ólst upp fannst mér fjölskyldutengsl annarra aldrei flókin.  Reynslan af því að eiga eitt alsystkin, sex hálfsystkin og slatta af stjúpsystkinum hafði vanið mig snemma við að skilja hratt og vel fjölbreytt fjölskyldutengsl.   Vorkenndi jafnvel vinum mínum sem áttu ekki nema eitt alsystkin og það skrítnast af öllu: Foreldra sem bjuggu enn saman.

Staðreyndin er nefnilega að íslenskar fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum.

Ísland er ekki einsdæmi hvað það varðar.  Í pistli á Eyjunni í dag er fjallað um 37 skilgreiningar dönsku Hagstofunnar á fjölskyldugerðum.  „Til dæmis er möguleiki á föður og móður, móður og sammóður (lesbískt samband), móður og stjúpföður, eingöngu föður, eingöngu móður o.s.frv.  Eru alsystkin í fjölskyldunni eða hálfsystkin? Er hjónabandið númer eitt, tvö eða þrjú? Er fólk í sambandi en býr hvort á sínum staðnum? Eiga börnin tvo eða fjóra hálf- eða alforeldra? Kannski er pabbinn bara vinur mömmu eða jafnvel númer úr sæðisbankanum.“

Óháð stærð eða gerð fjölskyldunnar þá er hún og verður meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags.  Þar fáum við sem einstaklingar og ekki hvað síst börnin okkar, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika okkar til hins ýtrasta.  Þar byggjum við upp okkar nánustu tengsl í sorg og gleði.

Í þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir okkur á undanförnum árum er því fátt mikilvægara en gott samspil fjölskyldu og samfélags til að tryggja heilbrigða samfélagsþróun.

Rannsóknir hafa sýnt að það eru ekki hvað síst einstæðir foreldrar og barnafjölskyldur sem hafa fundið mest fyrir kreppunni.  Baráttan við skuldirnar er því barátta fyrir fjölskyldur þessa lands.

Árið 1997 var samþykkt þingsályktun um sérstaka fjölskyldustefnu.

Sextán árum seinna held ég að aldrei hafi verið mikilvægara að fylgja eftir ályktuninni.

Í henni er talað um að tryggja grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.  Þar er talað um meira jafnvægi á milli fjölskyldulífs og atvinnu. Um jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og umönnun og uppeldi barna sinna.  Hvatt til þess að stofnanir samfélagsins starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnunum sínum.  Að fjölskyldstefna eigi að beita sér gegn misrétti, m.a. á grunni kynþáttar, trúarbragða, fötlunar eða kynhneigðar.  Um vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og þar sem fjölskyldur njóta verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Þar sem við setjum fjölskylduna raunverulega í fyrirrúm.

Allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttu mynd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Heimilin í forgrunni var einmitt krafa kjósenda. Niðurstöður kosninganna eru að því leyti skýr. Virtur sagnfræðingur sagði í sjónvarpsviðtali líklegustu ástæðurnar fyrir fylgishruni fráfarandi ríkisstjórnarflokka vera þær, að boðuð skjaldborg um heimilin hafi brugðist með öllu. Það sem gert var af hálfu stjórnvalda hafi verið í skötulíki og þar af leiðandi embætti umboðsmanns skuldara veikt og vanburða og árangur í samræmi við það. Í stuttu máli gleymdust heimilin en áhersla lögð á gæluverkefni sem almenningur hafði takmarkaðan áhuga á og má þar nefna stjórnarskrármálið og aðildarviðræður við ESB. Til viðbótar eru þau eftirmæli verst, að vinstri stjórnin sem kenndi sig upphaflega við velferð hversu hliðholl hún var bönkum og fjármálastofnunum og tók hagsmuni þeirra fram yfir afkomu almennings.
    Leiðtogarnir sem nú vinna að stjórnarmyndun hafa því fordæmið fyrir framan sig. Gangi þeir gegn loforðum sínum í kosningunum og bregðist heimilunum er það ekki aðeins ávísun á fylgishrun eftir fjögur ár heldur er heiður þeirra og æra sem stjórnmálamanna í húfi. Þess vegna; flokka þeirra vegna og þeirra sjálfra verður málefnasamningurinn að vera skýr og án froðu og orðagjálfurs. Atvinnumál, skattamál og velferðarmálin verða í forgrunni en strax verða að koma fram yfirlýsingar um eftirfarandi eigi ný ríkisstjórn að fá sæmilegt start og trúverugleika hjá almenningi í landinu:
    Skýrar áætlanir um það hvernig tekið verður á skuldamálum heimilanna. Þak sett á verðtrygginguna strax og tímasett hvenær hún verður afnumin með öllu. Og síðan og ekki síst að sett verði lyklalög.
    Jafnmikilvægt þessu er að skipaður verði ráðherra án ráðuneytis sem hafi umsjón með uppgjörinu við föllnu bankana, einkum vogunarsjóðina; fylgi eftir lögum og dómum Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin auk þess að fylgja eftir gagnvart bönkum og fjármálastofnunum stjórnvaldsákvörðunum sem lúta að skuldamálum heimilanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur