Föstudagur 07.06.2013 - 19:35 - 3 ummæli

Alþingi og kyn

Alþingi skipaði í nefndir.  Enn á ný endurspeglar skipanin þá kynjaskiptingu sem er til staðar í íslensku samfélagi. Karlar eru líklegri til að fara í nefndir sem hafa með fjár-, atvinnu- og utanríkismál á meðan konur sitja frekar í nefndum sem fara með velferðar-, mennta- og dómsmál.

Ég hef áður bent á þetta og lýst yfir áhyggjum af þessu.  Mikilvægt er að þingflokksformenn allra stjórnmálaflokka fari yfir þetta þegar þing kemur aftur saman í haust og tali saman um skipan í nefndir, ekki aðeins út frá áhugasviðum þingmanna heldur líka út frá kynjasjónarmiðum.

Efast ég ekki um að það verði gert.

Þetta er okkur ekki auðvelt. Staðreyndin er sú að við erum með mjög kynskiptan vinnumarkað á Íslandi.  Konur eru líklegri til að velja menntun og starfssvið á sviði velferðarmála og starfa hjá hinu opinbera.  Karlar eru líklegri til að velja menntun á öðrum sviðum og starfa hjá einkafyrirtækjum.

Þessu þarf að breyta.

En það er ekki auðvelt.  Fyrir stuttu var frétt um að fjölgun hefði orðið í fjölda þeirra sem luku sveinsprófi í húsgagnasmíði.  Stór hluti fréttarinnar snérist ekki um þá gleðilegu staðreynd, heldur að einn af sveinunum (áhugavert orð út frá kynjagreiningu) var kona sem var komin að fæðingu.

Það hvernig við metum störf karla og kvenna endurspeglast ekki bara í virðingu starfsins heldur líka hvernig við greiðum fyrir þau.  Eitt af því sem ég hef rekið mig á þann stutta tíma sem ég hef verið ráðherra er munurinn á greiðslum fyrir nefndar- og stjórnarsetur eftir sömu kynjuðu skiptingunni.

Eitt mest sláandi dæmið er t.d. munurinn á greiðslum fyrir stjórnarsetu í Fjármálaeftirlitinu og Tryggingastofnun ríkisins. Stjórnarformaður FME fær 600.000 kr. á mánuði, á meðan stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins fær greiddar 60.000 kr.  Eru verkefni FME virkilega 10 sinnum erfiðari eða virðingarmeiri en verkefni Tryggingastofnunar?  Nei, ég held nú síður.

Það er löngu kominn tími til að við áttum okkur á að velferðarmálin eru ekki neinn mjúkur málaflokkur.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að tæplega helmingur af útgjöldum ríkisins er í höndum Velferðarráðuneytisins.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að Tryggingastofnun greiðir út árlega ríflega 120 milljarða króna í bætur til aldraðra og öryrkja .  Það er svo sannarlega ekkert mjúkt og sætt við þá staðreynd að Íbúðalánasjóður sem tilheyrir mínum málaflokki er með efnahagsreikning upp á 900 milljarða króna og í mjög erfiðri stöðu. Það er ekkert  mjúkt við þá staðreynd að þúsundir Íslendinga eru í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara eða allir þeir sem eru á vinnumarkaði eru á mínu borði í gegnum m.a. Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóð, Ábyrgðarsjóð launa, Fæðingarorlofssjóð og Ríkissáttasemjara.

Konurnar og karlinn sem taka sæti í velferðarnefnd Alþingis undir styrkri stjórn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gera sér væntanlega grein fyrir þessu.

Og eru tilbúin að axla þá þungu ábyrgð með mér.

Vonandi verða líka fleiri karlar tilbúnir til þess í haust.

Uppfært 7. júní 2013 kl. 22.37: Nákvæmlega þá fær stjórnarformaður TR greiddar 63.180 kr. á mánuði samkvæmt mínum upplýsingum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Já nú þarf að bretta upp ermarnar. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar fagna eðlilega leiðréttingu sinna kjara, og afturvirkt, var það ekki? Gósentíð framundan. Loksins kemur ráðherra sem ætlar að sinna okkar mestu smælingjum.

  • Einar Steingrimsson

    Af hverju þarf að breyta þessu?:

    „Staðreyndin er sú að við erum með mjög kynskiptan vinnumarkað á Íslandi. Konur eru líklegri til að velja menntun og starfssvið á sviði velferðarmála og starfa hjá hinu opinbera. Karlar eru líklegri til að velja menntun á öðrum sviðum og starfa hjá einkafyrirtækjum.

    Þessu þarf að breyta.“

  • kristinn geir st. briem

    er eithvað sem skyrir þettað meiri vinnuskilda visulega getur viðskiptanám verið dýrt samkeppni um manskap en annara er það skrýtið einusini var karlin titlaður deildarstjóri enn konan ritari enn unnu sama starfið eini munnurin voru launin .P.S. nú er talað um gjaldþrot seðlabankans hafi lent á ríkisskassanum .
    N ú var ég að velta því fyrir mér ef farin er leið hægri grædna og fleiri um að seðlabankinn borgi útt íbúðarláninn og ílla færi og hann kæmist í greiðsluþrot mindi það gjalþrot lenda á rikisjóði því þeir munu græða sem ætla sér ekki að fara úr landi með peníngana sem ég er frekar ósáttur við að muni græða á þessu er þeirar skoðunar að allir kröfuhafar eigi að taka þátt í að bjarga heimilinum ekki bara sumir því er ég á móti því að íbúðarlán séu borguð að fullu en þettað fer alt eftir útfærsluni

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur