Mánudagur 17.06.2013 - 12:37 - 18 ummæli

Dorrit og lögheimilið

Töluvert hefur verið fjallað um lögheimilisskráningu Dorritar Moussaieff, forsetafrúar okkar.  Það sem ég hef saknað úr þeirri umræðu er umfjöllun um lögin um lögheimili (nr. 21/1990).  Ættum við ekki að spyrja okkur að því hvort tími sé kominn til að endurskoða lögin út frá auknum fjölbreytileika fjölskyldna í nútíma samfélagi?

Það skal viðurkennast að lög um lögheimili eru ekki á mínu málasviði sem ráðherra, en það eru málefni fjölskyldunnar og því get ég ekki orða bundist.

Í umræðu um stefnuræðu forseta gerði ég að sérstöku umtalsefni áherslur nýrrar ríkisstjórnar á fjölskylduvænt samfélag.  Fjölskylduvænt samfélag fyrir allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttustu mynd.

Því spyr ég mig hvort fjölskyldur séu aðeins fjölskyldur ef þær eiga sameiginlegt heimili?

Í þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu frá 1997 var fjölskylda skilgreind sem „…hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum.  Meðlimir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra).  Þeir eru skuldbundnir hvorum öðrum í siðferðilegri gagnkvæmri hollustu.“

Við hjónin höfum verið gift í 13 ár og stóran hluta af þeim tíma höfum við verið búsett á sitthvorum staðnum.  Ég verið í námi erlendis eða starfað uppi á landi á meðan eiginmaður minn bjó ásamt dætrum okkar í Eyjum.  Á tímabili hefði ég gjarnan viljað búa áfram í Eyjum á meðan eiginmaðurinn og dæturnar hefðu viljað vera búsettar upp á landi.  Lögheimilisskráning okkar endurspeglaði ramma laganna frekar en þennan veruleika.

Við vorum þó alltaf fjölskylda, tengd djúpum tilfinningaböndum, óháð því hvort við deildum í raun sameiginlegu heimili.

Ég hef líka heyrt af öðrum pörum sem hafa búið við sambærilegar kringumstæður, þar sem annar makinn vinnur langdvölum annars staðar á landinu eða erlendis.  Í Vestmannaeyjum fyrir hrun var þetta svo algengt að talað var um að vera í fjarbúð, frekar en sambúð.  Sama hafa margar fjölskyldur upplifað eftir hrun þegar fólk hefur leitað út fyrir landsteinana til að hafa í sig og á, – og átt í erfiðleikum með lögheimilisskráninguna.

Foreldrar sem deila forsjá hafa einnig rætt töluvert um lögheimilisskráningu.  Í vinnslu nýrra barnalaga var nánast ekkert rætt um sameiginlega forsjá (enda mikil sátt um hana sem almenna reglu), heldur fyrst og fremst lögheimilisforsjá (annað nýyrði) og rétt dómara til að dæma um forsjá og þar með líka lögheimilisforsjá.

Það sem flækir þetta er að fjölmörg réttindi og skyldur eru tengd lögheimili líkt og komið hefur fram í umræðunni um forsetafrú okkar.  Skoða þyrfti það samhliða breytingum á lögum um lögheimili.

Kannski eftir einhver ár munum við geta horft til baka og þakkað Dorrit og hennar háöldruðu foreldrum fyrir að opna umræðuna.  Óháð því þá snýst þetta í mínum huga ekki um fjölskyldu forsetans, heldur hvers konar samfélag  og þar af leiðandi lög viljum við hafa.

Ég vil lög sem endurspegla fjölskylduvænt samfélag.

Fyrir allar fjölskyldur, í  allri sinni fjölbreyttu mynd.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Haukur Kristinsson

    Er ekki Eygló að draga athyglina frá því sem er mergur málsins?

    Ríka fólkið flytur úr landi til að forðast skatta.

    Þetta „issue“ er í dag mjög ofarlega í umræðunni erlendis.

  • Ágætt að sjá að ráðherra sjái ekkert athugavert að forsetafrúin brjóti lög. Heldur á að aðlaga lögin að því sem hentar.

  • Þórður Magnússon

    Er algerlega sammála þér, þessi lög eru tímaskekkja.
    Þeim þarf að breyta.
    En þangað til að þið breytið þeim þá eru þau í gildi og lög eiga skv stjórnarskrá að gilda jafnt gagnvert öllum .

    „65. grein
    Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

    Um þetta snýst málið, ekki neitt annað. Gilda lögin fyrir alla eða ekki?
    Gaman væri að heyra álit þitt á því.

  • Gunnar Tómasson

    Sammála þér, Eygló.

    Íslenzk lög heimila tvöfaldan ríkisborgararétt.

    Hver er ástæðan – önnur en hefð – að hjón verði að hafa sama lögheimili?

  • Björn Pétursson

    En viltu ekki örugglega að farið sé að gildandi lögum og að enginn sé yfir þau hafinn?
    Hvað finnst þér um það að Dorrit hafi flutt lögheimili sitt í trássi við íslensk lög?

  • Frá skattrannsóknarstjóra:
    Flosi mælti þá til Bergþóru: „Gakk þú út húsfreyja því að eg vil þig fyrir engan mun inni brenna.“

    Bergþóra mælti: „Eg var ung gefin Njáli og hefi eg því heitið honum að eitt skyldi ganga yfir okkur bæði.“

    Síðan gengu þau inn bæði.

    Bergþóra mælti: „Hvað skulum við nú til ráða taka?“

  • Albert Sveinsson

    Eg vill búa í landi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum og ekki þar sem sumir eru jafnaðri en aðrir. Hvort að fjármagnstekjuskatturinn kemur þarna inn það veit ég ekki en ef svo er hvar endar þá búsetuform elítunar í framtíðinni annað aðlinn sem á ekkert býr á íslandi en hinn í skattaparadís og þá erum við búin að fá aukna fjölbreytni í íslensku elítufjölkylduna í nútíma samfélagi.

  • Ragnar Freyr Ingvarsson

    Þetta hljómar allt voða fallegt hjá þér Eygló – fjölbreyttar fjölskyldur og svoleiðis. Flestar fjölskyldur búa þó undir sama þaki og greiða skatta og skyldur eftir því hvar einstaklingar hafa lögheimili (í flestum tilfellum).

    Mál Dorritar er varla þess eðlis – mann grunar að þegar allt er á botninn hvolft þá lyktar þetta mál af skattaundanskotum og ætti að rannsaka það sem slíkt!

    mbk, Ragnar

  • Lögheimilisskráning sem Eygló vísar til er 7. gr. lögheimilislaga. Í fv. t. l. á Þisk. 135 112 lþ. er 7. gr. hin efnislega hin sama og í l. nr. 35/1960. Í greinagerð við nýju 7. gr. er sagt að framkvæmd 7. gr. hafi ekki verið fylgt í framkvæmd um lögheimili hjóna. Engin tilraun er samt gerð til að herða á ákvæði 7. gr. löggjafinn boðaði áfram slaka í framkvæmd 7. gr. varðandi hjón. Síðan koma lög um „Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum“ l. nr. 5/1985. Þjóðskrá hefur nokkuð frjálsar hendur um framkvæmd laganna og hefur samþykkt þessa tilhögun DM.

    Ekki er minnst á Icesafesamninginn í frumvörpum til Lögheimilislaga, því miður verða vinstrimenn að finna betri rök. Rök hægrimanna að „Dorriet hafi gert í rúmið“ duga heldur ekki í þessu máli Helgi Hjörvar kvað uppúr um það opinberlega skömmu eftir sl. aldamót.

  • …og hvað viltu gera í því? Breyta lögunum væntanlega. Mér segir svo hugur að lögheimilisfesti hjóna sé til orðin af skatta-og útsvarsskilum þar sem hjón hafa lengst af veið samsköttuð. Annað hafi ekki vakað fyrir löggjafanum. Þessi sömu lög gilda einnig elendis þar sem ég þekki til á norðurlöndum. ef ríka nauðsyn ber til að breyta lögunum verður að haga svo til að þau gildi fyrir alla borgara en ekki bara elítuna.

  • Freyr Þórarinsson

    Lögunum má breyta, satt er það. En svona eru þau í dag og engin haldbær afsökun er fyrir því að forsetahjónin brjóti þau eða fyrir því að aðrir opinberir aðilar skula hafa horft fram hjá því. Skömm þeirra er mikil.

  • s.s ef einhver lög koma einhverjum fræglingi (celebrity) illa þá þarf að breyta þeim í snarhasti – alveg eins og þegar fræglingur veikist af tilteknum sjúkdómi, þá þarf allt í einu að finna lækningu við þeim sjúkdómi hið snarasta.
    ef sömu lög (eða sjúkdómar) bitna illa á óþekktu fólki (sem er ekki lengur kallað fólk… s.b. „fólk í fréttum“) þá heyrist ekki múkk í marga mansaldra.

  • Lögheimilismál forsetafrúarinnar fara hátt í umræðunni þessa dagana og margir tilbúnir til þess að fordæma breytingu á lögheimilisskráningu hennar. Löglærðir tala um lögbrot þar sem forsetahjónin eru ekki að slíta samvistum og því hljóti hér að vera á ferðinni vítaverð tilraun til þess að koma sér undan skattgreiðslum til íslenska ríkisins. Dorritt sjálf ver þessa breytingu á lögheimili sínu með því að hún hafi verið nauðsynleg til þess að hún gæti stutt við aldraða foreldra við rekstur fyrirtækis þeirra í Bretlandi. Auk þess sem hún hafi metið stöðuna þannig á sínum tíma að eiginmaður hennar færi ekki í forsetaframboð í fimmta sinn.
    Allt þetta vekur upp spurningar um atriði sem ekki hefur verið fjallað um enda umræðan að mestu verið í æsingastíl.

    1) Það atriði að forsetafrúin hafi metið stöðuna þannig að eiginmaður hennar færi ekki í forsetaframboð í fimmta sinn bendir tll þess að ósk um lögheimilisbreytinguna hafi borist Þjóðskrá fyrir nær tveimur árum. Þjóðskrá er undirstofnun Innanríkisráðuneytis og hefur umsóknin því verið að velkjast um í kerfinu allan þennan tíma án nokkurra athugasemda. Hvernig stendur á því?
    2) Mikið hefur verið gert úr auðlegð Moussaieff fjölskyldunnar í blaðaskrifum og margt gefið í skyn varðandi skattgreiðslur forsetafrúarinnar til íslenska ríkisins og m.a. stórfrétt í Viðskiptablaðinu um að hún greiddi ekki auðlegðarskatt. Þá vaknar spurningin. Er Dorritt skráður meðeigandi að fyrirtæki Moussaieff fjölskyldunnar í Bretlandi? Ef svo er má gefa ýmislegt í skyn varðandi skattamál hennar. En ef svo er ekki og fyrirtækið alfarið í eigu foreldra hennar og skráð á þeirra nafn verður vandséð að hún hafi hlunnfarið íslenska ríkið um himinháar fjárhæðir. Að vísu á forsetafrúin í eigin nafni allgóða íbúð í miðbæ Lundúna en varla sér landinn ofsjónum yfir því.

    Aðalatriðið er að fjallað verði um mál forsetafrúarinnar af sanngirni og án stóryrða. Hafi ekki verið farið að lögum verður að staðfesta það af þar til bærum aðilum og hafa skal í heiðri að allir eru landsmenn jafnir fyrir lögunum.

  • Árni Hafþór Guðnyjarson

    Vona að það hafi ekki farið framhjá Háttvirtri að lögin eru í enn gildi og meðan svo er á að virða þau en ekki að (fara á svig) við þau eins og og ykkur í foréttindaflokkunum er tamt.
    Með virðingalausri vinsemd
    Árni
    ps. Ég bar virðingu fyrir þér fram að þessum pisli

  • Steingrímur Jónsson

    Af hverju breyta lögunum? Af hverju ekki afnema þau alfarið? Hvers vegna hafa lög um lögheimili þegar háir og lágir fara í kringum þau? Sigmundur Davíð á lögheimili einhvers staðar fyrir austan. Hversu miklar líkur eru á því að maður hitti á hann þar? Með því að leggja niður lögheimilisskráningu væri hægt að leggja niður Þjóðskrá og spara stórfé. Og ef „stóri bróðir“ vill endilega vita hvar hver og einn er á hverjum tíma er einfaldast að setja GPS-flögu („chip“) í hvern Íslending, eins og gert er við úlfana í Svíþjóð svo unnt sé að fylgjast með þeim.

  • Marinó G. Njálsson

    Ótrúlegt að til séu lög sem fyrirskipa að fólk slíti samvistum! Næst er að taka upp vistaböndin.

  • Úr frétt DV (Sjá: http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2013706179979):
    „Töluvert hefur verið um það eftir bankahrun að íslensk hjón slíti tímabundið samvistir að forminu til svo að annað þeirra geti flutt lögheimili sitt til útlanda og stundað þar vinnu, til dæmis í Noregi. Fyrir þessu er margra ára hefð og Þjóðskrá Íslands hefur ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag.“

    Þetta virðist því ekki vera neitt nýtt og svo sannarlega ekki tengjast efnahag, hvort fólk býr að Bessastöðum eða annars staðar eða hvort það heitir Jón eða Séra Jón.

  • Kristján Gunnarsson

    7. gr. laga nr. 21/1990:

    Hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort skv. 1. gr. skal lögheimili þeirra vera hjá því hjónanna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveður Þjóðskráin það. Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð eftir því sem við getur átt.
    Hjón, sem slitið hafa samvistir, eiga sitt lögheimilið hvort.

    Nú hefur komið fram að Dorrit og Ólafur hafa ekki slitið samvistir.

    Lögin eru skýr, óháð skoðunum á réttmæti þeirra.

    Einföld spurning: Á forseti Íslands og eiginkona hans ekki að fara að lögum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur