Föstudagur 25.10.2013 - 10:00 - 10 ummæli

Helgi og kröfuhafar

Í nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni.  Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna.  Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.
Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hrafn Arnarson

    Steinunn segir að kröfuhafar hafi áhyggjur af því að viðræður við stjórnvöld gangi hægt. „Við erum löngu tilbúin og við erum búin að vinna mikla greiningarvinnu hjá okkur og erum með tillögur að lausnum sem við teljum að geti gengið upp. Og það eru vissulega mikil vonbrigði og í rauninni fullkomlega óskiljanlegt að stjórnvöld komi ekki að því verkefni sem er fyrirsjáanlegt framundan. Það er að segja að leysa málefni þessarra stóru banka til þess að hægt sé að ljúka þessum skiptum og í leiðinni að leysa þau vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir að því marki sem að það er hægt.“

    http://www.ruv.is/frett/oskiljanlegt-ad-vidraedur-seu-ekki-hafnar

  • kristinn geir st. briem

    skil reindar ekki tal hjá bönkunum um viðræður við ríkið eða seðlabanka. ef á að gefa út skuldabréf ættu þeir að tala við lífeyrisjóði um að kaupa bankana fyrir gjaldeyrir þar sem þeir hugsa báðir meira um penínga heldur en þjóðina ættu þeir að géta komist að samkomulagi á viðskiplegum forsendum. þá þarf ríkið ekkert að koma nálægt þessu það verða mikklu hærri tala heldur en 75% þá fá þeir eithvað uppí tapið af hruninu og gætu tekið yfir íbúðarlánasjóð og gylfi gétur þá óáreitur tekið upp danska kerfið

  • Guðný Ármannsdóttir

    Þjóðin er ekki sjálfstæð ef heimilin eru öll yfirskuldsett

  • Gísli Tryggvason

    Eða Framsókn og kröfuhafar (fyrir kosningar)
    Því hvað sögðu framsóknarmenn fyrir kosningar og vísuðu þar með í hóp fólks til að taka á snjóhnegjuvandanum, til að bæta stöðu heimilanna, að
    „svigrúmið geti numið um 800 milljörðum króna. Það er a.m.k. ljóst að um leið og leifar efnahagshrunsins verða gerðar upp mun gefast tækifæri til að koma til móts við heimilin og gera aðrar ráðstafanir til að rétta stöðu íslensks samfélags.“ Tekið af heimasíðu Sigmundar Davíðs.

    Nú ert þú þingmaður og í ríkisstjórn. Hjá þér eru hæg heimatökin að uppfylla þau loforð sem veitti Framsóknarmönnum um 25% atkvæða, mikið til af fólki sem trúði ykkur og er ekki vel statt fyrir. Því þið sögðuð það skýrt fyrir kosningar (og það stendur í stjórnarsáttmála) að lækka á verðtryggðar skuldir (allt að 20% ?) án þess að það komi niður á stöðu ríkissjóðs. Að það yrði fjármagnað af kröfuhöfum bankanna og að „Framsóknarmenn væru bestir að skjóta niður þann fugl í skógi“ (Frosti).
    Þess vegna er spurt, hvenær ætlið þið að standa við stóru orðin og koma með aðgerðir ? Fólk og fyrirtæki bíða. Nú þegar er farið að gæta óþreyju enda var aðgerðum lofað strax. Amk tímaramminn hefur því verið svikinn. Finnst þér sem þingmanni þetta vera í himnalagi? Að lofa og efna síðan ekki, nema eftir dúk og disk ? Eða aldrei ? Hver veit.

  • Magnús Björgvinsson

    „Nú hafa flestir málsmetandi menn fallist á að það sé bæði framkvæmanlegt og nauðsynlegt að uppgjöri snjóhengjunnar, og þar með talið gömlu bankanna, ljúki með verulegri eftirgjöf kröfuhafanna og efnahagslegu svigrúmi fyrir Ísland. Menn hafa líka fallist á að hægt sé að ná þessari niðurstöðu hratt með skattlagningu ef samningaleiðin dugar ekki til.“

    ”…eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.“

    ”Þetta er einfalt: Það þarf að skipta eignum þrotabúanna. Það þjónar hagsmunum allra. Samhliða þeim uppskiptum verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og koma til móts við skuldsett heimili og bæta ríkinu og velferðarkerfinu það tjón sem leiddi af hruninu sem nú er verið að gera upp. Við höfum einstakt tækifæri til að bæta tjón undanfarinna ára. Það tækifæri má ekki glatast!“

    Af heimasíðu Sigmundar Davíðs fyrir kosningar!

  • Ásdís Jónsdóttir

    Ertu að meina að slitastjórnirnar eigi að semja um að bankarnir borgi kröfuhöfum eitthvert brot af skuldum bankanna svo að „svigrúmið“ fræga myndist?

  • Alltof mikil leynd hvílir yfir skuldaleiðréttingunni, sem upplýsist þá vonandi í nóvember. Slík óvissa fyrir heila þjóð (óvissa er einna verst fyrir heilbrigðar efnahagslegar ákvarðanir einstaklinga og fyrirtækja) í svona mikilvægu máli, þrátt fyrir tal um akkurat hið öfuga fyrir kosningar, ætti ekki að líðast.

    Það er ekki merki um góða stjórnun lands, það er merki um slaka stjórnun lands.

  • stefán benediktsson

    Verða þá engir samningar?

  • Nú er skörin heldur tekin að færast upp á bekkinn. „Við erum ekki í neinum samningum við [kröfuhafa] um uppgjör þrotabúanna. […] Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti. Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.“ Ha? Ég hélt að nú ætti þvílíkt að taka kröfuhafana í bakaríið með kylfum og haglabyssum? Og að meint aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum hafi stappað nærri landráðum, ef marka mátti frambjóðendur Framsóknar?

    Svona skrifaði Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, fyrir kosningar um fyrirætlanir fyrri ríkisstjórnar – sem voru nákvæmlega þær sömu og Eygló lýsir hér: „Afleiðingin verður að tækifæri til nauðsynlegra afskrifta við nauðungarsamninga við vogunarsjóðina glatast. Hrægammasjóðirnir með aðstoð þessara aðila ná að koma ofurgróða sínum í skjól – afleiðingin mun leiða til lakari lífskjara almennings næstu áratugi. Og fyrir þessu stendur umboðslaus ríkisstjórn – korteri fyrir kosningar. Við Framsóknarmenn munum berjast af alefli gegn þessu. Almenningur í landinu verður að rísa upp og mótmæla – lokaorustan um hverjir eiga Ísland er hafin.“

    Hvernig á að skilja pistil Eyglóar? Er verið að glata „tækifæri til nauðsynlegra afskrifta við nauðungarsamninga við vogunarsjóðina“? Hvað er þessi ríkisstjórn að gera öðru vísi en sú síðasta?

  • Ásmundur

    Mér þykir það í meira lagi hæpið að ætlast til að slitastjórnir bankanna komi með lausn á kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Er þetta ekki endanleg staðfesting á að ríkisstjórnin er endanlega búin að gefa skuldalækkunarloforðið upp á bátinn?

    Ábyrgðarleysi Framsóknarflokksins felst ekki síst í að vilja prenta peninga til að lækka skuldir heimilanna án þess að nokkuð liggi fyrir um að kröfuhafar muni að lokum greiða kostnaðinn.

    Áður en hægt er að ákveða skuldalækkunina þarf að liggja fyrir hve mikið kröfuhafar eru tilbúnir að gefa eftir af krónueignum sínum. Síðan þarf að ákveða hvernig þeirri upphæð er skipt á milli skulda heimilanna og skulda ríkisins ofl.

    Lækkun á skuldum heimilanna verður að vera með þeim hætti að ójöfnuður í þjóðfélaginu minnki. Mörg skuldug heimili hafa ekki orðið fyrir neinum forsendubresti vegna sinna lána vegna þess að neysluverðsvísitalan hefur hækkað minna en launavísitalan. Skuldalækkun til þessara heimila er því út í hött.

    Kosningaloforð Framsóknarflokksins gengur út á hlutfallslega sömu lækkun til allra skuldugra heimila. Mikill meirihluti lækkunarinnar mun þá fara til þeirra sem hafa það best fjárhagslega enda skulda þeir mest. Þetta væri því fjármagnstilfærsla frá hinum verr settu til hinna betur settu

    Að sólunda með þeim hætti upphæð sem nemur margföldum byggingarkostnaði nýs spítala væri ótrúlegt bruðl. Hreint feigðarflan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur