Miðvikudagur 13.11.2013 - 16:34 - 2 ummæli

Norræn forysta

Í síðustu viku fór fram umræða á Alþingi um formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Norðurlöndin skipta með sér formennskunni árlega og á næsta ári er það komið í hlut Íslendinga  að veita samstarfinu forystu.

Ísland mun leggja sérstaka áherslu á þrjú verkefni. Í fyrsta lagi að náttúruauðlindir í norðri þurfi að nýta á sjálfbæran hátt án sóunar og að grunnur að grænum hagvexti til framtíðar er að börn og ungmenni alist upp í þeim anda. Lögð verður áhersla á að vinna verkefni á sviði orku-, umhverfis- og lofslagsmála í þessu sambandi. Í öðru lagi að vinna að norrænni velferðarvakt í anda Íslensku velferðarvaktarinnar, sem komið var á í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi. Rannsakaðar verði afleiðingar kreppa í norrænum ríkjum og viðbrögð við þeim. Á grunni niðurstaðna verði  þróaðir s.k. velferðarvísar, sem munu nýtast við að verja og viðhalda velferðarþjónustu norrænu ríkjanna. Í þriðja lagi verður lögð áhersla á að þróa sérstakan norrænan spilunarlista í þeim tilgangi að koma norrænni tónlist á framfæri á alþjóðavettvangi.

Auk ofangreindra verkefna mun Ísland halda utan um allt annað hefðbundið norrænt samstarf á vettvangi ráðherraráðsins á næsta ári. Norrænt samstarf er gamalt og gott, um það þarf ekki að deila. Fyrir fámenna þjóð, eins og okkar, er ómetanlegt að hafa aðgang að samstarfi fjölmennari þjóða á jafnræðisgrundvelli.

Íslendingar eru um 1% Norðurlandabúa og greiða tæpt 1% af fjárlögum norræna samstarfsins. Þær krónur fáum við margfalt til baka. Þær nýtast við að efla innviði okkar, í aðgangi að fagþekkingu, eflingu menntunar- og menningar, útdeilingu margskonar styrkja, og í að verja hagsmuni okkar í víðtæku samhengi svo eitthvað sé nefnt.

Varast ber að taka norrænu samstarfi sem gefnum hlut. Að því þarf að hlúa.

Okkur er því hollt að velta fyrir okkur svarinu við spurningunni; Hvernig væri íslenskt samfélag ef við hefðum aldrei notið norræns samstarfs, betra eða verra? Svarið er augljóst. Umræðurnar á Alþingi um norrænt samstarf komandi árs einkenndust af samstöðu.

Slík samstaða er þakkarverð og hvatning til öflugrar forystu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Eygló er eini Framsóknarmaðurinn sem hefur skýra hugsun og viðkunnarlega framsetningu. Það er alltaf þess virði að kíkja á pistlana hennar.

  • Úff.

    Erfitt að lesa um þetta.

    Þarna þarf nýja nálgun.

    Þetta samstarf er gorkúla á haug.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur