Mánudagur 18.11.2013 - 16:44 - 9 ummæli

Tekið á skuldavandanum

Heimilin eru undirstaðan og þau eru drifkraftur samfélagsins.  Á þeim byggist allt annað, án þeirra verður enginn vöxtur og engin velferð.

Það er ástæða þess að svo skýrt er tilgreint í stjórnarsáttmálanum hvernig stjórnarflokkarnir hyggjast taka markvisst á skuldavanda íslenskra heimila.  Þar er grunnviðmiðið að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007 til 2010.  Þar talar ríkisstjórnin um að beita megi bæði skattalegum aðgerðum og beinni niðurfærslu höfuðstóls, í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka.

Við erum líka sammála um að þetta eigi að vera almenn aðgerð óháð því hvenær fólk tók lán til að kaupa heimili sín, að lykilatriðið sé jafnræði.  En það verður að vera hægt að beita fjárhæðartakmörkunum vegna hæstu lána sem og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.  Og að halda þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná þeim markmiðum að taka á skuldvanda íslenskra heimila.

Þetta er ramminn sem verið er að vinna innan og sér brátt fyrir endann á.

Við erum líka sammála um að þeir sem ollu hruninu, ollu forsendubrestinum, hinir föllnu bankar, eigi að greiða fyrir leiðréttinguna.  Það er sanngjarnt og það er réttlátt.

Þessar áherslur er fyllilega í samræmi við áherslur beggja stjórnarflokka frá landsfundum og flokksþingi og í kosningabaráttunni.

Sjálfstæðismenn töluðu um að taka á skuldvanda heimilanna þannig að ná mætti 20% lægri höfuðstól meðalíbúðaláns á næstu árum með skattaafslætti og skattfrjálsum séreignarsparnaði.  Framsóknarmenn töluðu um leiðréttingu á forsendubrestinum og á almenna höfuðstólslækkun til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán.  Við nefndum líka skattalegar aðgerðir til að lækka höfuðstól lána.  Því til viðbótar vildu Sjálfstæðismenn hvetja til húsnæðissparnaðar og breyta lögum um stimpilgjald en frumvarp þess efnis er þegar komið fram.

Því til viðbótar lögðu báðir flokkar áherslu á að taka húsnæðiskerfið til gagngerrar endurskoðunar, meðal annars að lögum yrði breytt þannig að lántaki gæti afsalað sér heimili sínu til lánveitanda án þess að það leiddi til gjaldþrots.  Sú vinna er þegar hafin með skipan verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóp um mótun húsnæðisstefnu til framtíðar.

Þannig stendur þessi ríkisstjórn með heimilunum.  Þannig ver þessi ríkisstjórn íslensk heimili.

Á grunni ályktana landsfunda og flokksþinga, á grunni stjórnarsáttmálans og á grunni ákvarðana Alþingis.

Því heimilin eru undirstaðan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Sigurður

    Þetta er allt gott og blessað, og engin ástæða að ásaka ykkur um svik enn sem komið er, en hitt er þó stórfurðulegt.

    Að þið skuluð ekki stöðva nauðungarsölur í hvelli.

    Ekki bara vegna þess að það sé ekki nema korter í að þið birtið ykkar niðurstöður um aðgerðir, en svo ekki síður vegna þess að það eru ekki nema nokkrir mánuðir í niðurstöðu EFTA um lögmæti þessara lána.

    Hvers vegna er það látið viðgangast að fjármálastofnanir sópi núna að sér heimilum landsmanna, nákvæmlega eins og gert var árin 2009-10 meðan beðið var dóma um gengistryggðu lánin.

    Hvar er lærdómurinn af öllum mistökum síðustu ríkisstjórnar?

    Hvar var þessi „stjórnarskrárvarði eignaréttur“ kröfuhafa þegar síðasta ríkisstjórn stöðvaði tímabundið nauðungarsölur?

    Ég kaus ykkur, en mér finnst þetta stórfurðuleg hegðun og framkoma við það fólk sem lagði sitt traust á ykkur í síðustu kosningum varðandi þessi skuldamál, og á ég þó engra hagsmuna að gæta sjálfur í þessu.

  • Erla Einars.

    Sæl Eygló.
    Mig langar að spyrja, þar sem þér er mjög tíðrætt um að þessi ríkisstjórn standi með og verji heimilin: Er það ekki algert forgangsmál að stöðva í hvelli nauðungarsölur á heimilum fólks og útburð á fjölskyldum af heimilum sínum svo fólk geti í það minnsta lifað án ótta á meðan beðið er eftir marglofuðum úrræðum?
    Ef svo er þá er „í hvelli“ ekki teygjanlegt hugtak svo það ætti að koma til framkvæmda fyrir mánaðarmót. Ef ekki, þá hvers vegna?
    Og einnig í framhaldi af þessu: Hvernig ætlið þið að gæta sanngirni milli þeirra sem hafa meira milli handanna og hafa getað greitt af sínum lánum hingað til og hinna sem hafa þegar misst heimili sín, sem eru jú gjarnan þeir sem lægri hafa tekjurnar?
    Með vinsemd og virðingu og von um skýr svör.
    Erla Einarsdóttir, „ekki lengur íbúðareigandi og bráðum heimilislaus“.

  • kristinn geir st. briem

    held að það sé ekki hægt að leita jafnræðis aðstæður mann eru svo misjafnar en vonandi hef ég rangt fyrir mér. gangi ykkur vel með þettað ekki veitir af

  • Ásmundur

    Hinir föllnu bankar munu að sjálfsögðu ekki greiða fyrir niðurfellingu skulda enda hefur slíkt ekki staðið til.

    Kröfuhafarnir eru allt annar handleggur. Meðal þeirra eru Íslendingar sem áttu skuldabréf gefin út af bönkunum og íslenskir lífeyrissjóðir en þó aðallega erlendir bankar og sjóðir. Þessir aðilar bera að sjálfsögðu enga ábyrgð á falli bankanna og meintum forsendubresti.

    Það er ljóst að ekki stendur til að bíða eftir lækkun á krónueignum kröfuhafa til að lækka lánin enda er ekkert verið að ræða við þá. Hinn kosturinn er því að prenta peninga fyrir lækkuninni. Það er augljóslega sú leið sem nú er stefnt að. Til marks um það hve fráleit hún er hefur engum dottið í hug að standa vörð um heilbrigðiskerfið með þeim hætti.

    Þessi leið verður væntanlega réttlætt með því að peningarnir skili sér síðar í ríkissjóð með samningum við kröfuhafa. Það er þó vel líklegt að það verði ekki niðurstaðan enda er hér að miklu leyti um að ræða vogunarsjóði sem eru alræmdir fyrir að gefa aldrei eftir kröfur.

    SDG segir kröfuhafa verða að ganga að þeim kostum sem ríkið samþykkir því að annars komast þeir ekki með fé sitt úr landi. Kröfuhafarnair gera sér hins vegar grein fyrir að Íslendingum liggur á að losa um gjaldseyrishöftin. Þeir geta því beðið þolinmóðir enda liggur þeim ekkert á.

  • Geturðu komið með dæmi um hvar þið framsóknarmenn töluðu fyrir þessum „skattalegu aðgerðum“ og ekki bara fyrir „niðurfellingu“?

    Og hvernig búist þið við að þessar skattalegu aðgerðir virki fyrir lægstu tekjuhópana? Fá þeir skatta-afslátt á öllum aurunum sem þeir eiga eftir við lok hvers mánaðar?

  • Loforð ykkar var að þetta yrði gert fljótlega og við yrðum strax vör við lækunina. Við vitum jú núna hvað strax þýðir hjá framsókn.
    Við vitum jú öll líka að 20% lækkun á höfuðstól verður komin til baka innan 5 ára.
    Allt tal um lága verðbólgu og ábyrga hagstjórn með einhverskonar þjóðarsátt, er bara brandari.
    Ábyrg hagstjórn og lág verðbólga hefur aldrei verið í boði fyrir íslendinga nema í nokkra mánuði, mesta lagi ár eða svo – ef þá svo lengi.

    Okkar eina von er að erðtryggingin verði dæmd ólögleg og við fáum leiðréttingu í gegnum lög en ekki loforð.

  • Guðmundur Sigurðsson

    Sæl Eygló

    Takk fyrir góða grein. Það er eitt í greininni sem ég hjó sérstaklega eftir. Að í vinnslu væri frumvarp sem gæfi fasteignaeigendu kleift að skila eigninni án þess að verða gjaldþrota. Það er í dag hægt að “ skila eigninni “ m.ö.o hætta að borga og eigning boðin upp. En í dag heitir það árangurslaust fjárnám og skilur fólk eftir með ónýta kennitölu, ónýtt nafn, ónýtur þegn í lausu lofti til framtíðar. Víða í dag ef þú ætlar að leigja er farið fram á bankaábyrgð og í reglum Íbúðarlánasjóðs er tekið fram að þeir sem séu hæfir sem leigutakar megi ekki vera í skuld við sjóðinn. Í dag er betra að verða gjaldþrota og verða ónýtur í 2 ár heldur en ónýtur alla æfi ef kröfuhafa sínist svo. Stendur til að breyta þessu þ.e.a.s að ekki sé hægt að elta skuldara út fyrir gröf og dauða.

    kv
    Guðmundur

  • Það er ljóst af umræðunni, að valdamikil öfl vinna gegn þeirri staðföstu stefnu ríkisstjórnarinnar að leiðrétta skuldir heimilanna.
    Fjármálaöflin og vogunarsjóðirnir með alla sína almannatengla ganga þar harðast fram enda ríkir hagsmunir í húfi. Það vekur hins vegar undrun hvaða aðilar vinna gegn þessu réttlætis- og hagmunamáli í þágu almennings eða láta sig það lítt varða. Forystumenn ASÍ þegja þunnu hljóði en leiðtogar Seðlabankans hafa opinberað afstöðu sína með afgerandi hætti og ljóst að seðlabankastjóri hefur með yfirlýsingum sínum sem eru sannanlega af pólitískum toga talað sig út úr embættinu.
    Og þá vekur það ekki síður furðu, að leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa allt á hornum sér gagnvart leiðréttingaráformunum, einkum Árni Páll Árnason og verður ekki annað skilið af málflutningi hans en að hann vilji þetta helsta mál ríkisstjórnarinnar feigt. Það er hans jafnrétti, réttlæti og bræðralag og hætt við, að gengnir leiðtogar sósíaldemókrata á Íslandi snúi sér við í gröfinni vegna hegðunar nýja alþýðuforingjans.

  • Bíða öll ummæli samþykktar hjá þér eða bara þau sem hæla þér ekki?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur