Miðvikudagur 22.01.2014 - 12:06 - 2 ummæli

Haraldur og fullt jafnrétti

Það er ekki oft sem maður heyrir ungan karlmann tala um að jafnréttismál séu honum hugleikin en það gerði Haraldur Einarsson, félagi minn, svo eftir var tekið í störfum þingsins í gær.

Í ræðu sinni fjallaði hann sérstaklega um rétt til forræðis barna.  Í barnalögum hafa stór skref verið tekin í að gera sameiginlega forsjá að almennri reglu þegar fólk slítur samvistum eða hjúskap.  Nýjasta breytingin var að gefa dómara heimild til að dæma sameiginlega forsjá.  Samhliða var skerpt á hugtakinu lögheimilisforsjá.

Hins vegar gildir þetta ekki fyrir börn sem fæðast utan hjúskapar eða skráðrar sambúðar. Þar fær móðirin sjálfkrafa fullt forræði.  Foreldrum er hins vegar heimilt að semja um sameiginlega forsjá.

Í ræðu sinni sagði Haraldur: „Eðlilegra og réttara væri að snúa þessu við og reglan væri að forsjá barns væri sameiginleg óháð hjúskaparstöðu en svo væri hægt að semja um annað.  Slíkt væri í anda þeirra lagabreytinga sem átt hafa sér stað á undanförnum missirum í tengslum við þá meginreglu að við skilnað eða sambúðarslit foreldra sé forræðið sameiginlegt… Ég tel að þetta sé hrópandi tímaskekkja sem við siðmenntuð þjóð og fulltrúar þjóðarinnar þurfum að betrumbæta með hagsmuni barna að leiðarljósi.  Þegar barn kemur í heiminn ættu að sjálfsögðu báðir foreldrar að hafa jafnan rétt og jafnt forræði yfir barninu.  Það hlýtur að vera markmiðið að barnið hafi jafnan rétt að báðum foreldrum sínum, jafnan rétt til að fá uppeldi frá mömmu og pabba.  Í mínum huga á forgangurinn að vera réttur barnsins.“

Undir þetta get ég tekið og vonast til að enn fleiri  karlar fari að beita sér fyrir jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.

Aðeins þannig náum við markmiði  um fullt jafnrétti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Ég óttast að gamaldags hugsanagangur hamli framgöngu málsins í þinginu. Vona að þingmenn láti kné fylgja kviði og jafna rétt foreldranna, ekki síður að barnið njóti forsjár beggja foreldra. Með öllu ólíðandi að faðir barns skuli vera háður vilja og ákvörðunarrétti móður.

  • Ingimundur

    Gott er að sameiginleg forsjá sé og verði reglan, en vont er að lögheimilishafi getur takmarkað gríðarlega það sem við höldum að forsjá gefi – lögheimilisaðil getur de facto flutt með barn hvert sem sá vill nema til útlanda án samþykkis hins forsjáraðilans. Því er m.v. núverandi ástanda afar brýnt að heimila og gera almennt ráð fyrir tvöföldu lögheimili, barnanna og beggja aðstandenda vegna!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur