Föstudagur 07.02.2014 - 10:58 - 4 ummæli

Auknar eftirlitsheimildir TR

Í frétt hjá RÚV er fjallað um að þingmenn kvarti undan að fá ekki nægan tíma til að vinna þingmál.  Þar er nefnt sérstaklega lög um auknar eftirlitsheimildir til handa Tryggingastofnunar til að tryggja réttar greiðslur og koma í veg fyrir bótasvik.

Oft má gagnrýna hraða málsmeðferð í þinginu, ekki hvað síst rétt fyrir jóla- og sumarfrí. Ég tel þó að þetta eigi ekki við um lögin um auknar eftirlitsheimildir.

Frumvarp um auknar eftirlitsheimildir kom fyrst fram á sumarþingi 2013 í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með greiðslum úr almannatryggingakerfinu.  Velferðarnefnd fjallaði um frumvarpið á fimm fundum nefndarinnar og lagði til að þetta ákvæði yrði ekki afgreitt á sumarþingi. Það var aftur lagt fram á haustþingi 1. nóvember 2013 þar sem tekið hafði verið tillit til athugasemda umsagnaraðila og nefndarálits velferðarnefndar.   Fjallað var um málið á átta fundum velferðarnefndar fyrir 2. umræðu.  Frumvarpið fór svo í 2. umræðu 15. janúar 2014 og var afgreitt sem lög frá Alþingi 21. janúar sl.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að ætla mætti að bótasvik í almannatryggingakerfinu hafi numið 3,4 milljörðum kr. árið 2011.  Til að setja þessa upphæði í samhengi þá hefðu 3,4 ma.kr. dugað til að fjármagna rekstur Menntaskólans í Reykjavík (574 m.kr.), Menntaskólans á Akureyri (563 m.kr.), Menntaskólans á Laugarvatni (183 m.kr.), Menntaskólans í Hamrahlíð (854 m.kr.), Menntaskólans við Sund (510 m.kr.), Menntaskólans á Ísafirði (287 m.kr.) og Menntaskólans á Egilsstöðum (321 m.kr.) í heilt ár og vel það.

Eða staðið undir öllum útgjöldum ríkissjóðs vegna sérstakrar uppbótar lífeyrisþega (2.7 ma.kr.) plús mæðra- og feðralauna (349 m.kr.), makabóta og umönnunarbóta (130 m.kr.), dánarbóta  (68,4 m.kr.) og barnalífeyris vegna menntunar (166 m.kr.) samkvæmt lögum um félagslega aðstoð á þessu ári.

Þeir fjármunir sem greiddir eru úr sameiginlegum sjóðum okkar eiga að fara til þeirra sem eiga rétt á þeim.  Bótasvik eru einfaldlega þjófnaður og skaðar okkur öll.

Því tel ég að þingmenn sem studdu lagabreytinguna geti verið bæði stoltir af sinni vönduðu vinnu og stuðningi sínum við málið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Stefán Ólafsson

    Hárrétt. Það þjónar ekki hagsmunum þeirra sem þurfa á almannatryggingum að halda að einhverjir komist upp með að svíkja út bætur, án þess að eiga til þess rétt. Heilbrigt eftirlit og aðhald er því mikið hagsmunamál samfélagsins.

  • Mjög þarft og gott framtak sem margir munu fagna þó svo margir muni ekki þora að gera það opinberlega.

    Þannig er þöggunin í þessu þjóðfélagi.

    Mér þykja viðurlögin við bótasvikum hins vegar allt of væg.

    Eins og ráðherra segir sjálf eru bótasvik þjófnaður. Þau á líka að meðhöndla sem slík með refsingum en það er ekki gert í nýju lögunum.

    Bendi á þá miklu vinnu sem t.d. ríkisstjórnin í Danmörku hefur lagt í að draga úr bótasvikum. Einnig stjórnin í Bretlandi. Þar er litið á bótasvik sem afbrot rétt eins og þjófnað, skatta- og tryggingasvik.

    Hvers vegna er það ekki gert hér?

    Væru fælingaráhrifin ekki augljós?

    En ég ítreka að þetta er gott framtak þótt þarna þurfi að breyta ákvæðum um refsingar.

    Þakka Eygló hennar vinnu í málinu.

    Þótt þetta sé ekki risastórt skref hefur það krafist umtalsverðs hugrekkis.

    Þannig er nú lobbýisminn og sérhagsmunavarslan á Íslandi í dag.

    Hún er nefnilega ekki bundin við LÍÚ og hina vondu karlana.

    Kveðja
    Rósa G.G.

  • Aron Ívars.

    Af hverju er alltaf bara tekið á hlið „svikarans“? Af hverju er ekki tekið tillit til þeirra sem þurfa virkilega á góðri tryggingaþjónustu að halda án þess að krafist sé um öll persónugögn þeirra? Við verðum að finna lausn fyrir alla, þannig að ríkið getið komið í veg fyrir bótasvik, og bætt þjónustu TR án þess að krefjast viðkvæmra upplýsinga sem fólk treystir aðeins læknum sínum fyrir. Það er kvartað mikið yfir þessari þjónustu, og auðvelt er að bæta hana án þess að stimpla alla þá sem sækja um aðstoð sem bótasvindlara.

  • Eygló:

    Svik eru sameiginlegum sjóðum eru slæm og það ber að refsa fyrir þau.

    A. Hvað varðar mat Ríkisendurskoðunar þá er um gróft „slump“ að ræða:
    „Tryggingastofnun hefur ekki metið umfang bótasvika við bótagreiðslur hér á landi, hvorki eftir bótaflokkum né í heild… að því gefnu að hlutfall bótasvika sé 3-5% hér á landi eins og í Danmörku má því ætla að þau hafi numið 2-3.4 ma. kr. árið 2011 (þ.e. 3-5% af 67.3 ma kr)“ bls. 23 í skýrslu Ríkisendurskoðunar

    B. Að nota þessa tölu 3.4ma kr (þú velur efri mörkin, en ekki t.d. miðgildið) og draga fram það sem hægt væri að gera fyrir þennan pening sem stuðning fyrir því á að Tryggingarstofnun fái aðgang að sjúkraskrám fólks er ansi hæpin rökfimi – fyrir því eru amk þrjár ástæður.

    C. Fyrst ber að nefna að bótasvikin gætu verið lægri eða hærri. Þessi tala sem þú ákveður að nota hefur takmarkaða merkingu.

    D. Í annan stað, þá er engin trygging fyrir því að árangur í að draga úr bótasvikum skili sér í hærri bótum eins og þú lætur að liggja. Afhverju ætti að eyrnamerkja þann pening bótakerfinu, en ekki t.d. til að hækka laun framhaldsskólakennara eða styðja við útflutningsgreinar?

    E. Það verður aldrei hægt að koma með öllu í veg fyrir bótasvik, svo lengi sem bætur eru í boði. Kortleggja þarf vandann hér á landi og að því verki loknu skapast forsendur fyrir því til hve (harkalegra) aðgerða þarf að taka.

    Í stuttu máli: bótasvika upphæðin sem þú nefnir hefur takmarkaða merkingu; það verður aldrei hægt að endurheimta nema hluta þess fjárs sem svikinn er út; kortleggja þarf vandann almennilega svo stjórnvöld geti vegið og metið áætlaðan árangur aðgerða/aukinni lagaheimilda og skerðingu á persónufrelsi; og að lokum er engin trygging fyrir því að sá peningur sem verður endurheimtur skili sér til ‘lögmætra’ bótaþega.

    Áður en farið er á þá óheillabraut að veita skrifstofufólki á Tryggingarstofnun aðgang að sjúkraskýrslum allra bótaþega til að finna (mögulega) rotnu eplin (þú virðist ganga út frá því að þau séu 5%) – væri ekki ágætt fyrsta skref á að byrja að nýta þær lagaheimildir sem nú þegar eru til staðar og kortleggja almennilega vandann (en ekki slumpa).

    Nefna má að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur enginn greiðsluþegi hlotið dóm fyrir að svíkja út bætur. Væri ekki nær að byrja á því sækja svindlara til saka og lyfta dulu þess refsileysis sem óhjákvæmilega hvetur fólk til að svíkja úr okkar sameiginlegu sjóðum?

    Ragnar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur