Föstudagur 28.03.2014 - 08:16 - 10 ummæli

Sparnaður = frelsi

Tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til handa heimilunum eru komnar fram á Alþingi.

Fátt hefur komið á óvart í umræðunni um skuldaleiðréttingarhlutann.  Hvet ég fólk til að kynna sér málið sjálft með því að fara inn á skuldaleidretting.is.  Hér eru einnig ágætis pistlar eftir Jóhannes Þór Skúlason og Marinó G. Njálsson um málið.

Umræðan um séreignasparnaðarhlutann hefur þó komið mér á óvart.  Nú síðast er dreginn á flot sérfræðingur í séreignasparnaði sem virðist beinlínis tala gegn því á forsíðu Fréttablaðsins að fólk borgi niður skuldir sínar.

Ég vona svo sannarlega að fólk hunsi þessar ráðleggingar.

Eitt helsta vandamál Íslendinga áratugum saman hefur verið of lítill sparnaður og of mikil skuldasöfnun.  Eini raunverulegi sparnaðurinn hér hefur verið lögþvingaður lífeyrissparnaður.  Við lögðum meira að segja af valfrjálsa húsnæðissparnaðarreikninga og skyldusparnaðinn og ekki tók nema nokkur ár þar til inn á húsnæðismarkaðinn komu heilu kynslóðirnar sem áttu ekkert sparifé.

Ég er af þeirri kynslóð sem lærði aldrei að spara.  Árum saman hef ég barist fyrir sjálfstæðu lífi án skulda.  Þar sem ég væri raunverulega frjáls.  Biblían hefur verið The Complete Cheapskate e. Mary Hunt.  Þar er einfaldlega lagt til að fólk borgi fyrst niður skuldir með hæstu vextina, svo koll af kolli þar til allar skuldir eru uppgreiddar. Ingólfur í spara.is hefur verið með svipaðar hugmyndir.  Hún leggur líka til að maður stofni svokallaða frelsisreikninga til að leggja fyrir fé fyrir óvæntum útgjöldum eða fyrirsjáanlegum eins og sumarfríi.

Það er von mín að með aðgerðum stjórnvalda sjáum við nýtt upphaf.  Þar sem við umbunum fólk fyrir ráðdeild, fyrir sparnað, fyrir að skulda lítið.

Þar sem við sem þjóð lærum að spara fyrir hlutunum.

Aðeins þannig getum við tryggt efnahagslegt sjálfstæði okkar um ókomna tíð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hrunið sjálft ætti að vera nóg lexía fyrir fólk að læra að spara og eiga fyrir hlutunum en þessar aðgerðir eru akkúrat að gera hið gagnstæða, þ.e. að kenna fólki að það þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af skuldsetningu því ríkið muni á endan koma því til bjargar.

    Nú verið að refsa þeim sem sýndu aðhald á árunum fyrir hrun og notuðu góðærið til að greiða niður skuldir á þeim tíma.

    Undirritaður er í þeim hópi og mun ekki fá neitt út úr þessum úrræðum.
    Ég hefði betur notað peningin í utanlandsferðir og keypt mér nýjan land cruser (sem hefur tvöfaldast í verði) á gengisláni eins og flestir gerðu. Nú fer skattféð mitt í að greiða niður skuldir þeirra sem gerðu það. Lexían mín úr þessu og öðru sem hefur gerst á undanförnum árum er að greidd skuld er tapað fé.

    Það væri nær að ríkið sýndi gott fordæmi og notaði skattféð í að greiða niður skuldir ríkisins, nú eða þar sem ráðherrarnir eru af þeirri kynslóð sem kann ekki að spara að nota féð til að reisa nýjan landspítala og laga forsendubrest heilbrigðiskerfisins.

  • Elsa M. Ágústsdóttir

    Sæl Eygló,
    Viðurkenni það að ég er ekki búin að taka ákvörðun um hvort ég nýti þessa leið en þú talar um að sparnaður sé of lítill. Er viðbótarlífeyrir ekki einmitt leið tli að spara til elliáranna?
    Mbk,
    Elsa

  • kristinn geir st. briem

    gét bara ekki gert að því að vera tregur. en afherju skildi þettað ganga betur núna. þegar gamli skyldusparnaðuri var aflagðurfeingu menn að setja þettað á sérstakan innlánsreiknínga. og feingu skattaafslátt eflaust að undirlagi sjálfstæðismanna . enn það entist ekki nema í nokkur ár samt vila þeir fara sömuleð í dag. hversvegna er það haghvæmt í dag en ekki meðan þessir reikníngar voru til . p.s. var að hlusta á umræðuna um ibúðarlánasjóð í sjónvarpinu þótti það gott hjá vilhjálmi bj. um að ibúðarlánasóður hefði verið að reina að verða heildsölubanki en ekki tekist. en hafði hann nokkurt val því ekki gat hann sett það inní seðlabankan því hann fékk ekki sömu fyrirgreiðslu og bankarnir. ekki virtust sjálfstæðismen auðvelda ibúðarlánasjóði lífið því þeir vildu gera ibúðarlánasjóð að heildsölubanka. því þótti mér skrítinn viðbrögð hjá framsóknarmönum við ræðu hans. því í raun var hann að skamma sjálfstæðisflokkinn

  • Hlynur Jörundsson

    Nokkrar spurningar

    Hvað leigja margir Eygló ?

    Hversu margir þeirra geta nýtt séreignarsparnaðinn til húsakaup ef við gefum okkur að þeir séu allir með 12.5 milljón í árslaun ?

    Og nákvæmlega hvað íbúðir eiga þeir að kaupa ?

    Þessar sem þeir leigja ?

    Hættið nú þessu væntingahjali …. það er enginn viðsnúningur á byggingarmarkaðnum og engin lækkun né smækkun á íbúðum bara hjal yfir kaffibollum. Og þú þarft ekki annað en skoða tölur hagstofunnar um stöðuna til að sjá að það eru ekki á leið á markaðinn næstu 3 ár nægjanlegur fjöldi til þess að þetta komi að raunverulegum notum. ( ´sér í lagi þar sem ennþá er verið að byggja 95 til 165 m2 íbúðir). Hype Dags og annarra er bara hype þangað til búið er að byggja.

    Er kannski hugmyndin að þeir sem taki út séreignarsparnaðinn sinn leggi hann á ríkisreikninga til geymslu þar til húseigandi selur þeim íbúðina sem þeir leigja eða einhver byggir íbúð sem þeir ráða við og er ekki lofuð þúsundum annarra leigenda eða nýrra kaupenda á markaðnum ?

    Þetta hype í fjölmiðlum kemur í bakið á þeim sem vilja raunverulega vinna að endalegum lausnum… „forsendubrestsleiðrétting“ er bara smyrsl … vandamálið er eftir og verður ekki leyst með fallegum myndum úr erlendum tímaritum né fögrum orðum. Lestu endann á greininni hans Marinó sem bæði Jóhannes og þú vitna í.

    Skyldusparnaðinn ? Ja sei sei … þennan sem menn voru jafnvel að gifta sig tímabundið til að ná út ? Búin að skoða hvernig það dæmi nýttist ?

    Hver var annars skatturinn á vinnu iðnaðarmann í þá daga … en það er víst stór hluti byggingarkostnaðar ? Hafið þið yfirleitt kynnt ykkur það sem þið talið um ?

  • Hallgrímur

    Hvað verður gert þegar komandi kynslóðir krefjast leiðréttingar lána vegna einhvers konar forsendubrests?

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er sérkennilegur pistill svo ekki sé meira sagt. Fullyrt er að eitt helsta vandamálið sé of lítill sparnaður og of mikil skuldasöfnun. Hins vegar er ekki gerð ein einasta tilraun til að útskýra af hverju hlutirnir eru svona. Þess í stað er vitnað í einhvers konar sjálfshjálparbók eftir Mary Hunt (amerísk?). Einng er vitnað í Ingólf ? son en hann var einn af þeim sem ráðlögðu fólki að taka gengistryggðu lánin svokölluðu. Heldur var þetta þunn súpa.

  • Ég veit þú leyfir ekki að fólk tjái sig við innleggin þín en von mín er að þú þetta samt.

    Þorri fólks getur ekki sparað á láglaunalandinu Íslandi. Helmingur landsmanna má þakka fyrir að halda húsnæði sínu og eiga mat á borð fyrir brörnin sín.

    Hjá hinu opinbera er mikill fjöldi kvenna sem vinnur skrifstofustörf (ritarar, fulltrúar, skjalaverðir osl) sem eiga varla til hnífs og skeiðar. Svo ekki sé nú talað um símastelpurnar.

    Viljir þú að fólk spari þarf ríkið að ganga fram með fordæmi fyrir mannsæmandi launum – sérstaklega fyrir þessar konur sem vinna störf sem karlmenn fengjust aldrei til að vinna. Launin eru niðurlægjandi og væri óskandi að þú sem ráðherra talaðir fyrir þessum hópi sem er í öllum ráðuneytum og hafa aldrei átt sér talsmann.

  • Snæbjörn

    Einungis með nýjum gjaldmiðli gengur þetta upp. Annars verða þetta innantóm orð.

  • Sparnaður er lykill að persónufrelsinu einsog svo mörgu öðru. Það er aðdáunarvert að ráðherra Framsóknarflokksins talar um kjarna málsins en ekki út og súður um glórulausar væntingar.

    Þeir sem hafa möguleika á að greiða niður lánin sín munu græða mest þegar upp er staðið. Með 90 – 110% skuldastöðu er maður skuldaþræll. Þetta á við þjóðir einsog einstaklinga.

    Eygló er ævinlega málefnaleg og laus við þrætur og öfgar. Þó ég sé enginn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og get ekki beðið eftir því að hún fari frá sem fyrst þá er Eygló og hennar málflutningur það sem stendur upp úr og vona ég að hún eigi sér langa framtíð í stjórnmálum þrátt fyrir að málflutningur hennar hentar augljóslega ekki grímulausum öfgaflokki einsog Framsóknarflokki SDG.

  • http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/item/1696-%C3%A1skorun-%C3%A1-eygl%C3%B3-har%C3%B0ard%C3%B3ttur-h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0herra.html

    Ætlar ráðherrann að sjá til þess að þessi mál fái flýtimeðferð og að ríkið standi ekki í vegi fyrir að fólkið geti sótt rétt sinn? Kannski ætti ríkið að borga fyrir þessi málaferli því niðurstaðan skiptir okkur öll – líka ríkið gífurlegu máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur