Miðvikudagur 02.04.2014 - 09:05 - 2 ummæli

Heilbrigðari börn

Árið 1972 hófu vísindamenn í Bandaríkjunum að fylgjast með tveimur hópum barna frá fátækum fjölskyldum.   Öðrum hópnum var boðið upp á heilsdags leikskóla til fimm ára aldurs.  Þar fengu börnin flestar sínar daglegu máltíðir auk ýmis konar þjálfunar og leikja.  Hinn hópurinn fékk þurrmjólk, en ekkert umfram það. Markmiðið með rannsókninni var að sjá hvort sérmeðferðin myndi auka gáfur barnanna.

Svarið var já.  Hæfni ungabarnanna var svipuð í upphafi, en strax við þriggja ára aldur var marktækur munur á árangri.  Um þrítugt voru börnin sem voru svo heppin að fá sérmeðferðina fjórum sinnum líklegri til að hafa útskrifast úr háskóla en börnin í viðmiðunarhópnum.

En rúmlega fjörutíu árum seinna hafa komið fram nýjar upplýsingar, sem vísindamennirnir áttu ekki von á.  Börnin sem fengu sérmeðferðina eru líka mun heilbrigðari.  Konurnar í hópnum voru t.d. mun ólíklegri til að vera með foreinkenni hás blóðþrýstings eða aukna magafitu, sem eru áhættuþættir fyrir hjartasjúkdóma.  Þær lifðu líka heilbrigðari lífi.  Þær byrjuðu seinna að drekka áfengi og voru líklegri til að hreyfa sig og borða hollan mat en konurnar í samanburðarhópnum.

Michael Marmot, einn helsti vísindamaður heims á þessu sviði, kom til landsins stuttu eftir að ég tók við embætti ráðherra.  Þar lagði hann áherslu á að fyrstu æviárin skiptu öllu máli til að tryggja að börnum farnist sem best.  Hér eru upplýsingar um heimildamynd sem fjallaði um áhrif fátæktar á líf okkar og byggði á rannsóknum hans.

Í ráðuneytinu er nú unnið að nýrri fjölskyldustefnu og breytingum á stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar.  Von mín er að með markvissari og öflugari vinnubrögðum getum við sem vinnum með viðkvæmustu einstaklingunum í samfélaginu gert enn þá betur.  Þar tel ég mikilvægt að horfa til snemmtækrar íhlutunar vegna vanda barna og unglinga í samstarfi við heilbrigðisráðherra, því rannsóknir segja okkur einfaldlega að það skilar miklum árangri fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Frábært framtak og styð heilshugar, við eigum að gera allt sem okkur er fært til að efla sem mest þroska og færni þeirrar kynslóðar sem tekur við, það er ekki til betri fjárfesting.

  • Úff!

    Barnaleg vísindahyggja og trú á tölfræði án þess að hið minnsta sé hugað að þeim ótölulega fjölda breytna sem haft geta áhrif á „niðurstöður“.

    Átakanleg bernska og beinlínis hættuleg,

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur