Norræn ráðstefna verður haldin í dag um kynferðisofbeldi gegn börnum – forvarnir á Norðurlöndunum.
Þar koma saman sérfræðingar af öllum Norðurlöndunum, fólk sem hefur þekkingu, áhuga og sterkan vilja til að vinna gegn þeim hræðilega glæp sem misnotkun barna felur í sér.
Misnotkun barna er víðfeðmt vandamál og geysilega flókið viðfangsefni. Ekkert samfélag er óhult en vandinn er mjög falinn. Lengi vel neituðu margir að horfast í augu við raunveruleikann og staðreyndin um misnotkun barna sem samfélagslegt mein lá í þagnargildi.
Til þess að baráttan gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og alvarlegum afleiðingum hennar verði árangursrík þarf skýra stefnu, mikla vinnu, öflugt og þverfaglegt samstarf og samvinnu þjóða á milli. Í þessu ljósi var það merkur áfangi þegar Evrópuráðssamningurinn um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun var gerður í Lanzarote 25. október árið 2007. Nú – sex árum eftir að samningurinn var gerður – hafa öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað hann og 32 þeirra hafa lokið innleiðingu hans, þeirra á meðal Ísland sem lauk innleiðingunni haustið 2012.
Samfélagið er orðið miklu meðvitaðra en áður um vandann og hætt að afneita honum líkt og fyrr á árum. Nú er tekið á málum sem áður voru hunsuð, þögguð niður eða fékkst aldrei nein vitneskja um.
En gera má betur, svo miklu betur. Forsenda fyrir bættum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum er þekking. Með því að deila þekkingu og reynslu af því sem gefist hefur vel munum við ná betri árangri, til að tryggja velferð barna okkar.
Ráðstefnan fer fram á ensku. Hægt verður að fylgjast með henni á vef Velferðarráðuneytisins og hefst útsending 8.30.
Rita ummæli