Fimmtudagur 11.09.2014 - 13:53 - 2 ummæli

Mótum framtíð fæðingarorlofs

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag segir í stjórnarsáttmálanum. Nýlegar tölur um fæðingar á Íslandi sýna að árið 2013 var fyrsta árið frá 2003 þar sem frjósemi íslenskra kvenna var lægri en tveir, eða 1,932 börn á ævi hverrar konu.  Áætlað er að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.  Konur eru einnig töluvert eldri nú þegar þær eignast sín fyrstu börn.

Í samanburði á milli landa sést að svigrúm kvenna til að samræma starfsframa og fjölskyldulíf skiptir máli þegar kemur að frjósemi.  Rannsóknir hafa þannig sýnt að mæður eru tilbúnari til að eignast fleiri börn ef feður eru virkir þátttakendur í að sinna umönnun barna og heimilisstörfum. Í þeim löndum þar sem konur eru þvingaðar til að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna, er hættan að æ fleiri velji vinnumarkaðinn. Hér á landi má sjá skýr tengsl á milli breytinga á lögum um fæðingarorlof og frjósemi.  Lækkun á greiðslum í fæðingarorlofi eftir hrun virðist hafa dregið úr þátttöku karla í töku fæðingarorlofs, en þátttaka þeirra hefur skipt miklu máli við að jafna hlut kynjanna í umönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur. Nú sjáum við að frjósemi kvenna minnkar.

Afleiðingin af lægri fæðingartíðni er að þjóðin eldist hraðar.

Í dag er Ísland með stysta fæðingarorlofið á Norðurlöndunum auk lengsta bilsins frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Tryggja þarf samfellu og að bæði mæður og feður geti sinnt börnunum sínum.

Af hverju breytum við ekki einfaldlega lögunum til að ná fram betri samfellu? Ástæðan er að of lítil sátt er um hvernig eigi að standa að breytingum á lögum um fæðingarorlof og styttingu bilsins á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og leikskólaganga hefst. Mikilvæg forsenda þess að farið var í breytingar á lögum um fæðingarorlof á sínum tíma var aðkoma aðila vinnumarkaðarins og sátt um leiðir. Sú sátt virðist ekki vera fyrir hendi núna. Aðilar vinnumarkaðarins leggja ýmist áherslu á lækkun tryggingargjaldsins sem takmarkar verulega svigrúm til breytinga eða krefjast annað hvort lengingar fæðingarorlofsins eða hækkun greiðslu fyrst. Óhætt er að fullyrða að aukið framboð á daggæslu frá því að fæðingarorlofi lýkur var lítið til umræðu í síðustu sveitastjórnarkosningum og fá sveitarfélög bjóða upp á ungbarnaleikskóla.

Fjölskylduvænt samfélag kostar en það er líka dýrt að fæðingum fækki og þjóðin eldist hraðar. Það kostar líka að bakslag komi í jafnréttisbaráttuna og foreldrar séu tilneyddir að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna. Því mun ég á næstu dögum óska eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í formlegan starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.  Aðeins saman getum við búið íslenskum fjölskyldum besta mögulega umhverfi og mótað framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Fólk er líka orðið yngra þegar það eignast sitt seinasta barn. Oft er það orðið þannig að men eru að puðra út úr sér krökkunum í neinum stórum rykk. Það er auðvitað þægilegra þannig til að rusla uppeldisárunum frá á sem stystum tíma. Það minnst mér allavegana.

  • Það er alger sátt í þjóðfélaginu um hvernig þetta á að vera. Í fyrsta lagi lengja orlofið upp í 12 mánuði eins og var búið að ákveða og í öðru lagi þegar peningar eru til hækka hámarksgreiðsluna upp að meðallaunum svo meðaljón hafi efni á að fara í orlof. Tryggingagjaldið stendur alveg undir því núna þegar tekjurnar fara að aukast og atvinnuleysi minnka.
    Ég þekki engann sem vill að ríkistjórnin haldi að sér höndum eða skerði bæturnar, og í staðinn lækki skatta á auðmenn og útgerðir frekar en að lengja fæðingarorlof. Vinsamlegast látt þann mann standa fyrir sínu máli á opinberum vettvangi ef sá maður er til.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur