Það er samgönguvika. Vikan þar sem við eigum víst öll að vera að ræða samgöngur. Ég bý í Hafnarfirði og starfa í miðborg Reykjavíkur. Algengustu lausnirnar þegar við stjórnmálamennirnir tölum um samgönguvandann á SV-horninu eru að fleiri hjóli eða noti almenningssamgöngur eða byggja fleiri vegi, mislæg gatnamót eða brýr.
Á meðan við stjórnmálamennirnir ræðum fram og tilbaka um þessar lausnir, var skemmtilegt að sjá grein í Fréttablaðinu um frumkvæði Háskólans í Reykjavík í samgönguvikunni. Þar fylgjast stúdentafélagsmeðlimir með samgöngumáta samnemenda sinna og umbuna þeim sem skilja bílinn eftir heima eða samnýta ferðir á bílum. Þeir sem koma á hjóli, gangandi, í strætó eða margir saman í bíl fá happdrættismiða. Þeir sem koma tveir saman í bíl fá ekki happdrættismiða en þeir fá að leggja í bílastæði nálægt skólanum. Þeir sem koma einir í bíl fá bílastæðin sem eru lengst í burtu.
HR-skutla?
Því til viðbótar er skólinn að óska eftir því að fá skutlu sem gæti farið á milli BSÍ og skólans og þannig auðveldað umferð að skólanum. Andri Sigurðsson, formaður stúdentafélagsins bendir á að strætóleiðir eru ekki góðar við skólann. „Hingað gengur aðeins ein strætóleið og það á hálftímafresti. Þar að auki passar hún illa við tímatöflur annarra leiða þannig að farþegar þurfa yfirleitt að bíða í að minnsta kosti korter ef þeir þurfa að skipta um vagn. Það er kannski ekki nógu góð hvatning til að fólk taki vagninn.“
Google býður starfsfólki sínu upp á að taka G-skutluna í vinnuna og hvetur fólk til að deila bílum. Ástæðurnar eru ýmsar. Starfsmenn spara tíma og eldsneyti*. Google telur að G-skutlan dragi úr álagi á starfsmenn, minnkar þörf fyrir bílastæði og hjálpar fyrirtækinu að laða til sín rétta starfsmenn. Fyrir almenning dregur G-skutlan úr útblæstri, sparar notkun á eldsneyti og dregur úr umferð.
Ættum við öll að fara að fyrirmynd stúdentafélags HR? Ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef HÍ, Landspítalinn, stjórnarráðið og aðrir stórir vinnustaðir í miðborg Reykjavíkur myndu bjóða starfsmönnum sínum upp á skutlu eða umbun ef þeir fara fleiri en einn saman í bíl?
Kannski yrði skyndilega engin umferðarteppa á Bústaðarveginum?
*Til samanburðar er áætlaður mánaðarlegur kostnaður vegna ökutækja og almenningssamgangna 74.131 kr. fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu.
Rita ummæli