Sunnudagur 05.10.2014 - 09:13 - Rita ummæli

Aldraðir og framtíðin

Í nýlegri könnun Help Age International er lagt mat á félagslega og efnahagslega velferð eldri borgara í 96 löndum.  Ísland er í sjöunda sæti á listanum.  Það kann hins vegar að koma á óvart að helsti munurinn á okkur og Noregi sem vermir fyrsta sætið er ekki  efnahagslegar aðstæður aldraðra eða heilbrigði þeirra, heldur menntunarstig aldraðra.

Þetta eru ánægjulegar niðurstöður en um leið hvatning til að gera enn betur.  Öldruðum fjölgar hratt um allan heim. Íslendingar 70 ára og eldri eru nú rúmlega 29.000.  Eftir tuttugu ár verða þeir tvöfalt fleiri.

Í mínum huga er fjölgun aldraðra ekki vandamál – heldur staðreynd.

Okkar verkefni er að snúa umræðunni um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum.  Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af staðreyndum og raunhæfum lausnum.  Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda.

Hér á landi bera sveitarfélögin ábyrgð á félagslegri þjónustu og þar með talin ýmis þjónusta í heimahúsum, en ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu og þar með telst heimahjúkrun og hjúkrunarheimili.   Þau tilraunaverkefni sem hafa verið í gangi á Hornafirði, Akureyri og í Reykjavík sem snúa að því að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu hafa skilað miklu árangri fyrir notendur.

Í mínum huga hlýtur framtíðin því að vera sú að málefni aldraðra fari til sveitarfélaganna. Þau hafa sannarlega sýnt með yfirtöku grunnskólanna og nú síðast málefni fatlaðs fólks hvers megnug þau eru og sannfært mig enn frekar að nærþjónustan á að vera hjá sveitarfélögunum.  Þar er yfirsýnin yfir þarfir notenda, þar eru mestar líkur á að veitt séu úrræði á viðeigandi þjónustustigi og þannig skapast samlegðaráhrif sem efla sveitarstjórnarstigið til góðs fyrir íbúana.

Þáttur ríkisins í nærþjónustu á að felast í að skilgreina gæði hennar, tryggja jafnræði og sinna eftirliti. Það gerum við með stöðlum, samræmdu mati og virku eftirliti.

Við þurfum líka að hvetja til nýsköpunar á sviði velferðartækni.  Þar liggja án efa margvísleg tækifæri til að leysa ýmis hagnýt verkefni, auka öryggi fólks í heimahúsum og veita meiri þjónustu með minni tilkostnaði.

Alltaf með þarfir notenda í huga.

 

Flokkar: Aldraðir · Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur