24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi 1975, verið helgaður baráttunni fyrir réttindum kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar. Á morgun eru jafnframt 100 ár liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar og því ærin ástæða til að þakka þeim sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttunni. Munum þó að enn eigum við mikið verk að vinna.
Ég legg ríka áherslu á að við alla stefnumótun séu skoðuð ólík áhrif stjórnvaldsákvarðana á kynin. það verður gert við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu og þar verður jafnframt horft árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti.
Í samvinnu þessara aðila stendur yfir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals með þátttöku 21 fyrirtækis, sveitarfélaga og stofnanna. Verkefninu lýkur í vor og vondandi sjá vinnustaðir sér þá hag í að innleiða staðalinn. Markmiðið er að auka gagnsæi og gæði launaákvarðana og stuðla þannig að jöfnum kjörum fyrir jafnverðmæt störf. Reglugerð um vottun jafnlaunakerfa samkvæmt staðilinum mun ég undirrita í dag en þar eru skilgreindar faglegar kröfur til vottunaraðila.
Á vegum aðgerðahóps um launajafnrétti er unnið að rannsókn á stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Háskóla Íslands og rannsókn á kynbundnum launamun í samstarfi við Hagstofuna. Niðurstöðurnar munu nýtast við langtímastefnumótun með það markmið að draga úr kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði sem m.a. stafar af kynbundnu námsvali í skólakerfinu.
Ég tel óhjákvæmilegt að ráðast í átaksverkefni til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa en auk þess að hafa áhrif á launmyndun og kynbundin launamun hefur kynbundið náms- og starfsval áhrif á möguleika einstaklinga að takast á við nám og starf í samræmi við vilja og hæfileika þar sem sumar leiðir virðast útilokaðar vegna staðlaðra hugmynda um kynhlutverk.
Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.
(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24.10.2014)
Rita ummæli