Laugardagur 01.11.2014 - 16:49 - 8 ummæli

Þarf húsnæði að vera dýrt?

Á þriðjudaginn er STEFNUMÓT íslensks byggingariðnaðar. Þar ætla fulltrúar atvinnugreina, stofnana og hagsmunaaðila að koma sama til að móta sameiginlega stefnu í tengslum við íslenskan byggingariðnað. Vil ég hvetja alla áhugasama til að mæta og taka þátt.

Ég vona að þar verði rætt hvernig íslenskur byggingariðnaður getur beitt sér fyrir að byggt verði meira og ódýrara húsnæði, ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu.   Ekki er verið að byggja nóg til að mæta fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og þær íbúðir sem verið er að byggja eru of stórar og dýrar.

Við leit á fasteignavef Morgunblaðsins að húsnæði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu undir 25 m.kr.  fundust 242 eignir og ég gat ekki séð að meðal þeirra væri nýbyggð fasteign.  Nokkrar lóðir í Mosfellsbænum, en ekki neinar nýjar íbúðir í byggingu.

Hugsanlega kann skýringin  að vera að menn telja það einfaldlega ekki skila nægjanlegum arði að byggja minna og ódýrara.  En þá vil ég benda á nokkur dæmi um hversu miklu það getur skilað að bjóða fólki upp á hagkvæmar vörur.

Kannst einhver við Ikea, Walmart eða Bónus?

Mín von er að aukið samstarf muni leiða til þess að við sjáum nýjar íbúðir auglýstar á næstu misserum á 300.000 kr. eða minna á fermetra.

Ýmsir hafa sagt við mig að það sé ekki mögulegt.

Mikið væri gaman ef íslenskur byggingariðnaður sýndi og sannaði að með samvinnu er allt mögulegt.

Líka að byggja ódýrara húsnæði fyrir íslenskar fjölskyldur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Málið er ekki að húsnæði sé of dýrt. Málið er laun fólks í þessu landi eru almennt of lág.

  • Það er hægt að byggja ódýrar en gert er, en það verður ekki gert nema að valinn sé einstaklingur, til að stjórna slíku verki, sem er heiðurlegur, án íslenska „að græða sjálfur“ syndróminu, og hann þarf að hafa metnað fyrir viðfangsefninu. Þá er nauðsynlegt að sniðganga íslenska birgja eins og kostur er og leita ekki til verkfræði- og ráðgjafastofa, heldur ráða þá verkfræðinga og/eða arkitekta sem þörf er á. Verðkannanir eða útboð vegna verklegra framkvæmda er góður kostur en mikilvægast er þó að sá sem stjórnar slíkum verkefnum hafi góða innsýn og yfirsýn yfir verktakabransann.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Í dag er ekki til húsnæðispólítík sem passar við láglaunastefnuna sem er rekin í landinu. Markaðurinn byggir ekki ódýrar íbúðir af sjálfsdáðum.

    Fram að þessu hafa allar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum beinst að séreignastefnunni. Stærsta aðgerðin (Skuldaleiðréttingin) er að mestu gagnslaus fyrir stóra láglaunahópa á leigumarkaði.

    6 árum eftir hrun er leigumarkaðurinn afskræmdari en nokkru sinni fyrr. Hvað ætla stjórnvöld að gera í því ?

  • Sigurður

    Eygló, þú verður að líta þér aðeins nær, varðandi ástæður þess að ekki er hægt að byggja ódýrt húsnæði hér á landi.

    Það eru stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á því.

    Skrúfið byggingareglugerðina 30 ár aftur í tímann.

    Þetta er komið út í svo mikla vitleysu, byggingareglugerðin og kröfurnar sem þarf að uppfylla til að byggja ódýrar íbúðir að það er nær ógerlegt að fá þetta til að ganga upp.

    Það er ekki við byggingariðnaðinn að sakast.

    Vandamálið er að stjórnmálamenn hafa lagt mikið á sig undanfarin ár, og gera enn til að útiloka alla möguleika að byggja ódýrt húsnæði.

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Sæl Eygló. Já, það kostar ekki eins mikið og látið er af, að skapa fólki húsaskjól. Það ættu allir siðferðislega viti bornir einstaklingar, bankar/lífeyrissjóðir og risabyggingarverktakar að skilja.

    Eftir hrun var margoft sagt frá því opinberlega, og með réttu, að það væri nóg íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu til 2030, (ef ég man rétt). Það ætti ekki að vera leyfilegt í siðmenntuðu ríki, að meina fólki að búa í auðum byggingum sem veita skjól fyrir vatni, kulda og vindum.

    Ég skil heldur ekki hvers vegna fólki dugar ekki minna en risaíbúð, til að hýsa hvern einstakling. Draugabygginga-steypuást margra á Íslandi er langt yfir heilsufars-hættumörkum. Og af mannavöldum?

    Að halda húsnæði tómu á okurbankastýrðum fasteignamarkaði, meðan fólk er heimilislaust, getur tæplega talist annað en alvarlegur glæpur og siðblinda.

    Bankadjöflar Mammons verða að finna löglegan og siðmenntaðan grunn, til að byggja sína tilveruframtíð á.

    M.b.kv.

  • Það er ekkert mál að bjóða íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Hægt að leysa það t.d með því að byrja á að:
    1. Sveitarfélög bjóði fjölbýlishúsalóðir með meira byggingamagni og betra greiðslufyrirkomulag.
    2. Lánastofnanir bjóði fjármögnunarleyðir sem nægja til að koma framkvæmdum af stað.
    Þó að lóðir séu dýrar, fjármagn sé dýrt og búið að laga byggingareglugerð, þá er þetta ekkert vandamál, ef það er raunverulegur vilji til þess.

  • Húsnæði er EKKI dýrt í Reykjavík , þar er ódýrasta fm.verð í Norður Evrópu.

    Það sem er dýrt er húsnæðislánin – verðbólgu og vaxtarokur nær engri átt.

    Ef lánakjör og afborganir væru svipuðu og hjá nágranalöndum okkar, gætu hin hefðbundna fjölskylda keypt sér húsnæði á kostnaðarverði.

    Það kostar að byggja og einnig þegar vörurnar eru hagkvæmar !

    Það blæðir hinsvegar hjá fjölskyldum sem þurfa mánaðarlega að borga helmingi meir af húsnæðislánum sínum en eðlilegt er !

    Og margar fjölskyldur geta ekki né vilja taka okurlán sem húsnæðislánin eru.

    Áður en bent er á að verktakar eru ekki að standa sig í að byggja nógu ódýrt fyrir almúgann

    Ath. það þá vel hvort það séu ekki húsnæðilslán á Íslandi sem eru úrellt gamaldags, í alla staði –

    Þar er draugurinn sem skerðir kjör allra Íslendinga !

  • Eyþór Arnalds

    Tækifærið liggur í því að einfalda byggingarreglugerðina sem gerir nær ómögulegt að byggja ódýrt húsnæði auk þess sem minni verktakar eiga enn erfiðara með að keppa á markaðnum vegna regluverks.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur