Mánudagur 10.11.2014 - 18:35 - 7 ummæli

Skuldaleiðréttingin í höfn

Fyrsta stóra efnahagsaðgerð stjórnvalda er í höfn.  Í dag voru niðurstöður leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum kynntar og á morgun verða niðurstöðurnar birtar 69 þúsund heimilum á vefsíðu verkefnisins, leidretting.is

Skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tvíþættar.  Annars vegar aðgerðir til beinnar niðurfærslu á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lækkun höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar í þrjú ár.

Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna.  Heimili sem nýtur hámarksleiðréttingar getur hins vegar lækkað höfuðstól láns síns um meira en sex milljónir króna á þremur árum.  Til dæmis getur heimili með meðallán tekið um aldamótin lækkað höfuðstól lánsins um 20% nýti það sér hámarks skattfrelsi séreignarlífeyrissparnaðar.

Í aðdraganda kosninganna sögðu báðir stjórnarflokkar að það væri forgangsmál að bregðast við skulda-og greiðsluvanda íslenskra heimila.  Leiðrétta yrði stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán og skattaafsláttur yrði veittur sem myndi greiðast beint inn á höfuðstól lánsins.

Í stjórnarsáttmálanum segir: Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Á síðasta kjörtímabili leit um tíma út fyrir að við hefðum glatað tækifærinu til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán.  Krafa kjósenda í síðustu kosningum var hins vegar skýr.  Leiðréttingin væri réttlætismál og með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur tekist að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu.

Til hagsbóta fyrir íslensk heimili.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Einar Steingrimsson

    Sú skuldaleiðrétting sem Framsókn lofaði er ekki í höfn. Hún gekk út á að sóttir yrðu 300 milljarðar í klær hrægammanna, sem átti að verða afar einfalt mál. Í staðinn eru þetta 100 milljarðar, úr ríkissjóði, þ.e.a.s. úr vösum almennings.

    Það er ekki alveg heiðarlegt af þér, Eygló, að kalla þetta að sigla málinu í höfn, þegar þið eruð í staðinn að svíkja það sem þið lofuðuð.

  • Þór Saari

    Skuldaleiðréttingin er ekki í höfn Eygló og það veistu vel. Hún hefði þurft að vera a.m.k. 250 milljarðar til að skipta máli í prinsippinu og í praksís. Það er dapurlegt að sjá hvernig þú tekur þátt í þessum blekkingarleik þegar þú veist betur. En allt fyrir völdin, nema hvað.

  • Anna María

    Mér finnst það algert glapræði að hætta þeim aurum sem fólk á í séreignarsparnaði.
    Það er stór hætta á að lánin sem fólk reynir að greiða niður með því snarhækki og séreignasparnaðurinn brenni upp. Meðan hann er á reikningnum er hann allavega ekki aðfararhæfur og gefur von um að fólk nái að borða allavega annan hvern dag þegar það kemst á lífeyrisaldur. Ekki tryggja bætur Tryggingastofnunar það.
    Hvað það varðar að ég fái kannski 3000 kall í niðurfærslu afborgana á lánunum mínum mánaðarlega (ég á ekki von á meiru enda skulda ég bara um 17 millur í blokkaríbúðinni minni 89 fm ) þá vildi ég heldur að þær færu í heilbrygðiskerfið. Ég veit að ég á eftir að þurfa á því að halda í framtíðinni. Þekki mitt heilsufar þokkalega. Veit líka að flestir í kringum mig eru líklegir til að þurfa á því að halda og veit að við öll höfum ekki ráð á að borga hundruði þúsunda árlega til að fá þjónustu.
    Ég vona að þú hafnir því ekki að þessi færsla fái að birtast hjá þér Eygló. Ef þú gerir það ert þú margfaldari í roðinu en hæfir ráðamanni.

  • kristinn geir st. briem

    ekki kaus ég framsókn útá skuldalæhunina heldur vegna samvinnuhugsjónarinar. en hvað um það það verður víst seint sem ég skil sigmund eins ágætur sem hann er . þar sem han svaraði sigmari um hversvegna var borgað inná gjaldfallin lán skil reindar þettað með dráttarvextina en hitt skil ég hitt skil ég ekki það var gerður samníngur við bankana um að greiðslur færu aftur fyrir lánið ef ekki tækist að borga láni í lokin bæri bankin tapið. það vitrðist eitnig eiga borga þessi lán eru þá líka dráttarvextir af þessum lánum spir sá sem ekki veit. ef frúin gæti frætt mig um þessi fyrníngaslán væri það gott og hversvegna þau eru í þessum pakka sem ég sé einga þörf á

  • kristinn geir st. briem

    ps gleimdi þettað á að heita leiðréttíng því má ekki mismuna 4.milljóna þakið er mismunun. ef menn eru komnir með eina mismunun er komin afsökun fyrir öðrum mismununum því er þettað varla leiðréttíng en auðvitað má kalla ymislegt ýmsum nöfnum. en vonandi geingur þettað vel.

  • Hrannar Baldursson

    Til hamingju með þetta, Eygló.

    Gott skref í rétta átt!

  • Þessi athugasemd verður ekki birt en vonandi kemst inntakið til réttra aðila. Viðtalið við forsætisráðherra í Kastljósi í gærkvöldi var af hálfu spyrjanda með eindæmum og auðséð hverra erinda hann gekk.
    Óafsakanlegri framkomu spyrjandans, frekju og allt að því dónaskap á forsætisráðherra að svara með hætti sem svíður undan en það er að hafna þátttöku í Kastljósi RUV meðan Sigmar og Helgi Seljan eru þar í forsvari.
    Forsætisráðherra getur og hefur val um vettvang til þess að koma boðskap á framfæri við þjóðina þar sem upplýsingagildið er metið meir en pólitískt þref um aukaatriði og engum gagnast.
    Má þar nefna Eyjuna á Stöð 2, Sprengisand á Bylgjunni, Bítið auk síðdegisþáttar Bylgjunnar. Útvarp allra landsmanna virðist því miður ekki bjóða uppá hlutlægan vettvang um pólitísk málefni eins og sakir standa en það kann að breytast með nýrri og þróttmikilli forystu afburðamanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur