Fimmtudagur 29.01.2015 - 16:21 - 2 ummæli

Hvar eru framtíðarstörfin?

Ég rakst fyrir stuttu á grein frá Forbes um hvaða störf það yrði eftirspurn eftir í náinni framtíð?  Skv. þeim var talið að röðunin yrði eftirfarandi á árunum 2010 til 2020:

1. Hjúkrunarfræðingar (e. registered nurse) + 26%

2. Verslunarmenn (e. retail salesperson) +16,6%

3.– 4. Aðstoð við hjúkrun og heimaþjónustu (e. home health aides & personal care aides) + 69,4% -70,5% 2010-2020

5. Skrifstofumenn (e. office clerks) +16,6%

6. Matreiðslumenn og framreiðslumenn (e. combined food preparation and serving workers, including fast food) +14,8%

7. Þjónustufulltrúar (e. customer service representatives) +15,5%

8. Vörubílstjórar (e. heavy and tractor- trailer truck drivers) +20,6%

9. Vöruflutningamenn (e. laborers and freight, stock and material movers) +15,4%

10. Framhalds– og háskólakennarar (e. postsecondary teachers) +17,4%

Áhugavert er að skoða spá Forbes í samhengi við tölur um atvinnuleysi eftir menntun á Íslandi í desember 2014.

Um 44% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá voru einungis með grunnskólamenntun, 24% voru með háskólamenntun, 12% með stúdentspróf sem lokapróf, 11% með ýmiss konar framhaldsnám og 9% með iðnmenntun.  Menntun skiptir þannig greinilega máli, en líka hver menntunin er.

Af iðnmenntuðum þá voru fæstir í hópi atvinnuleitenda með próf í hárgreiðslu en flestir með próf í húsasmíði.  Atvinnuleysi meðal matreiðslumanna fór lækkandi nokkuð stöðugt á árinu.  Nokkrar sveiflur eru í atvinnuleysi hjá iðnmenntuðu fólki eftir árstíðum, en atvinnuleysi meðal húsasmiða minnkar umtalsvert yfir sumarmánuðina.

Langalgengast var að atvinnuleitendur með háskólamenntun væru með viðskiptafræðimenntun, hvort sem um var að ræða konur eða karla. Munaði umtalsverðu í fjölda  í samanburði við aðra menntun.  Næst algengast var að karlar með lögfræðimenntun væru atvinnulausir en hjá konum voru hópar atvinnuleitenda með lögfræðimenntun og grunnskólakennaramenntun nánast jafn stórir.  Eitthvað algengara virtist vera að fólk með grunnskólakennaramenntun væri atvinnulaust á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Lítið vottaði fyrir atvinnuleysi hjá heilbrigðismenntuðu starfsfólki, nema vera skyldi hjá þeim sem voru með sálfræðimenntun.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Það fylgdi þessu líka listi yfir störf sem væru að fækka í og nr.1 eru bændur og neðar á listanum eru verkamenn við landbúnað, nokkuð sem Íslendingar ættu að undirbúa sig fyrir þar sem hlutfall bænda er hér nokkuð hátt m.v. önnur ríki á svipuðu þróunarstigi. Hvergi á Íslandi eru greitt jafn lág laun og við landbúnað og engin atvinnugrein er með jafn lélega afkomu (sauðfjárræktin sér sig reyndar úr þar sem hún er lang lökust) þ.a. ekki ætti að vera mikil eftirsjá eftir þessu störfum ef menn horfa raunsætt á málin. Heildarframleiðslan gæti auðveldlega verði jafnmikil eða meiri með hagkvæmari einingum.

    Það eru víða svipaðar listar og almennt eru störf sem snerta heilsugæslu og umönnun aldraðra á topp listanum sem er nokkuð augljóst í ljósi aukins hlutfalls öldrunar um allan heim.

    Kemur dálítið á óvart að verslunarmenn séu á þessum lista, sumir spá þeim fækkun vegna tæknibreytinga í verslunum sjálfum og aukinnar vefverslunar.

    Einnig kom á óvart það sem maður hefur séð á álika listum annars staðar en það eru störf í tölvu og tækni geirum þar sem augljóst er að tæknivæðing mun bara aukast og tilkoma róbóta á ýmsum sviðum er að gjörbreyta vinnumarkaði.

  • Steinþór

    Er ekki marklítið að skoða atvinnuleysið svona eins og þú gerir? Hversu stór hluti fólks á vinnumarkaði er t.d. með stúdentspróf sem lokapróf og hversu stór hluti er aðeins með grunnskólamenntun? Ef þú berð það svo saman við fjölda atvinnulausra í hvorum hóp fyrir sig færðu niðurstöður sem segja þér miklu meira um hvers menntunin er metin á vinnumarkaði.

    Eins segir það ekki neitt að fæstir í hópi atvinnulausra iðnmenntaðra séu með próf í hárgreiðslu en flestir í húsasmíði. Getur verið að þeir séu ekki ýkja margir sem eru með próf í hárgreiðslu, en margfalt fleiri með próf í húsasmíði. Ef þær tölur eru bornar saman við fjölda atvinnulausra með þessi próf, hvert er þá atvinnuleysishlutfall húsasmiða annars vegar og hárgreiðslufólks hins vegar? Það segir manni kannski eitthvað…

    Og það að langflestir atvinnuleitendur með háskólapróf séu með viðskiptafræðimenntun er auðvitað selvfølgelighed. Fjórðungur þeirra sem útskrifast með háskólapróf á Íslandi eru viðskiptafræðingar. Hins vegar útskrifast ekki ýkja margir með það sem þú kallar heilbrigðismenntun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur