Mánudagur 20.04.2015 - 11:58 - Rita ummæli

Búum til kerfi fyrir fólkið í landinu

(Viðtalið birtist fyrst í Tímanum, 11. apríl 2015):

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur verið mikið í fréttunum síðustu vikur og misseri. Velferðarmálin hafa enda verið fyrirferðarmikil í umræðunni og síðustu mánuði hefur athyglin beinst í auknum mæli að málaflokkum sem falla undir hana og hennar ráðuneyti. Nægir þar að nefna húsnæðismálin, málefni aldraðra, fatlaðra, bótakerfið, kjaramálin og málefni innflytjenda.

Sitt sýnist hverjum um hvernig staða mála er hvað þessa flokka varðar og gagnrýnendur hennar, til að mynda í stjórnarandstöðunni, hafa verið ósparir á stóru orðin um hversu lengi það hefur tekið fyrir sum málin að koma fram.  Eygló hefur hins vegar staðið föst á sínu og ítrekað sagt það sama; að betra sé að vinna þessi stóru mál vel og ítarlega en að flýta sér fram með hrákasmíð sem dugi skammt. En hvernig hefur henni fundist þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Alþingi á hennar störf?

„Ég tek henni ekki persónulega, enda veit ég sem er að stjórnarandstaðan er einungis að vinna sína vinnu og í henni felst að veita okkur ráðherrum aðhald og reyna að finna veilur og galla á þeim málum sem við leggjum fram. Hins vegar get ég alveg viðurkennt að mér hefur á stundum fundist gagnrýnin byggjast á því einu að gagnrýna og þingmenn stjórnarandstöðunnar gleymi því að við eigum að reyna að vinna saman að þjóðþrifamálum, þeim málum sem koma sem flestum til góða. Ég einsetti mér þegar ég kom í þetta ráðuneyti að vinna grunnvinnuna vel, í raun byggja góðan grunn, því á honum mun þetta allt standa. Það tekur tíma að gera grunninn það sterkan og vandaðan að hann geti staðið undir öllum þeim þunga sem á honum mun hvíla. Óþolinmæði og stundarvinsældir eru ekki eitthvað sem ég tel til heilla, hvorki fyrir stjórnmálamenn né þjóðina,“ segir Eygló og það er þungi í orðum hennar.

Það hefur verið beðið eftir aðgerðum í húsnæðismálum með talsverðri óþreyju.

„Auðvitað hefði ég viljað koma fram með stóru málin fyrr en raun bar vitni. En við erum að tala um meiriháttar endurskoðun á málefnum sem skipta fólkið í landinu höfuðmáli. Heimili hvers og eins skiptir svo miklu máli. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar, að eiga samastað fyrir fjölskylduna.  Sumir leggja ofuráherslu á að eignast sitt húsnæði, aðrir vilja frekar leigja. Báðir þessir hópar vilja þó sama hlutinn; val og öryggi á húsnæðismarkaði og fjárhagslegt bolmagn til að tryggja örugga og bjarta framtíð.“

Og Eygló kemur með nýja sýn á þennan stóra og mikilvæga málaflokk.

„Alltof lengi hefur mér fundist að stjórnvöld séu að reyna að troða öllum í fyrirfram mótaða og skilgreinda kassa.  Að kassarnir séu höfuðatriðið og að fólk verði með einhverju móti að koma sér inn í þá. Þessu er ég algjörlega ósammála og ég vil að við tökum skref til baka og horfum á þetta frá öðru sjónarhorni. Horfum frekar á fólkið í landinu, áttum okkur á hverjar eru þarfir þess og búum svo til kerfi sem hæfir fólkinu. Við verðum að gæta að því, ekki síst þegar við ráðumst í breytingar, að allir, sama hvar þeir búa, hafi sömu möguleika og sömu tækifæri. Þetta verðum við stjórnmálamenn einfaldlega að tryggja.“

En hver eru stóru markmiðin hjá þér í húsnæðismálunum?

„Við viljum fyrst og fremst treysta grunninn. Gefa öllum möguleika á að búa við öryggi í húsnæði sem hentar þeim.  Það segir enda að húsnæðisstefnan byggi á séreignarstefnu en stuðningi við húsnæðiskostnað heimilanna eigi að haga þannig að bæði einstaklingar og fjölskyldur geti valið sér búsetuform.  Þetta eru stór orð en þau skipta gríðarlega miklu máli.  Þetta kemur inn á það sem ég talaði um áðan, að allir eigi möguleika á að velja sér búsetuform og búa við öryggi. Þetta er grunnþörf og á slíkum þörfum eigum við ekki að gefa afslátt.

Við viljum líka styðja betur við tekjulág heimili, sérstaklega við þá sem eru að koma sér fyrir á húsnæðismarkaði í fyrsta sinn. En það þarf að varast gildrur sem þar geta leynst, ekki síst að stuðningurinn leiði beint eða óbeint til þess að þessir aðilar reisi sér hurðarás um öxl, skuldsetji sig of mikið og ráði að lokum ekki við afborganir og skuldir. Það er engum greiði gerður með því að lána of mikið. Það ættum við Íslendingar að þekkja þjóða best þegar við horfum nokkur ár aftur í tímann. “

Í húsnæðisstefnunni er líka tala um sjálfbært fjármögnunarumhverfi á húsnæðismarkaði.

„Já, við teljum það mikilvægt en á sama tíma leggjum við áherslu á að búseta ráði því ekki hvort fjármögnun fáist eða ekki. Þar á að ríkja jafnræði; fjármálastofnanir eiga ekki að stýra því hvar fólk býr. Að sama skapi teljum við að stuðningurinn eigi að vera fjölbreyttur, hann taki mið af mismunandi búsetuformi, eftir því hvort verið sé að kaupa húsnæði eða leigja.  Er ekki eðlilegt að horfa til þess að samræma enn betur hina mismunandi flokka húsnæðisbóta á borð við vaxtabætur eða húsaleigubætur og að þær byggi á sömu viðmiðum? Ég held að allir þeir sem horfi á þennan þátt séu sammála því. Kerfið verður að vera sveigjanlegt, rétt eins og þarfir fólks.“

Og Eygló bætir við:

„Við eigum að þora að skoða nýja hluti og koma til móts við þarfir fólksins í landinu. Hvernig getum við stutt við fyrstu kaup unga fólksins? Við getum til að mynda fest í sessi skattlausa úttekt séreignarsparnaðar í upphafi heimilisrekstursins. Þar væri t.d. hægt að horfa til sparnaðar í að minnsta kosti fimm ár sem síðan myndaði eigið fé sem lagt yrði fram við fyrstu íbúðakaupin og ríkið myndi styðja enn frekar við það með sérstökum stofnstyrki til unga fólksins sem væri að kaupa í fyrsta sinn eigið heimili.

Og Eygló talar líka um félagslegt stofnframlag fyrir þá sem verst standa.

„Það framlag er hugsað sem viðbót við félagslega niðurgreiðslu vaxta. Við vitum að það er mikil eftirspurn eftir félagslegu húsnæði víða um land og þetta er eitt af því sem kemur upp í flestum samtölum mínum við sveitarstjórnir. Félagslega stofnframlagið gæti til að mynda verið 4 milljónir króna á hverja íbúð en þó aldrei hærra en 20%. Sveitarfélögin myndu setja 10% sem sitt mótframlag og þannig gætu einstaklingar eða fjölskyldur sem eru í félagslegum eða fjárhagslegum vanda átt auðveldar með að koma sér þaki yfir höfuðið. Undir þetta gætu námsmenn, aldraðir, fatlaðir eða þeir sem eru undir ákveðnum tekjumörkum fallið.“

Hún bendir á að endurskoða þurfi fjölmarga þætti í þessu málaflokki og nefnir sem dæmi gjöld til sveitarfélaga.

„Já, þau hafa átt verulegan þátt í því síðustu árin að byggingarkostnaður hefur aukist langt umfram það sem eðlilegt getur talist.  Lóðaverð er oft á tíðum óraunhæft en sveitarfélögin hafa líka stundum notað liði á borð við gatnagerðargjöld til annars en útbúa lóðir, götur og holræsi. Það er ekki eðlilegt að lóðaverð sé nú komið yfir 15% af byggingarkostnaði þegar það var óverulegur hluti hans fyrir aðeins nokkrum árum.“

Það hefur ekki farið fram framhjá nokkrum þeim sem fylgst hefur með málflutningi Eyglóar að hún þekkir vel til þeirra sem eru á leigumarkaði.

„Já, ég hef verið á leigumarkaði sjálf um nokkurra ára skeið og þekki því það óöryggi sem þar ríkir.  Auðvitað hef ég sterkar skoðanir á þessum þætti og ég vil leggja mitt af mörkum til að tryggja aukið framboð leiguíbúða. Við getum gert margt á þeim vettvangi en ég nefni hér aðeins tvennt; lækka skattlagningu á tekjur af leiguíbúðum í eigu einstaklinga, t.d. með hærra frítekjumarki og hins vegar styrkja þann grunn sem fasteignafélög geta byggt á til að auka framboð leiguhúsnæðis.  Við sjáum þetta í löndum allt í kringum okkur að þar sjá fasteignafélög hag í því að búa til langtímasamband milli þeirra og leigjenda. Það skapar öryggi fyrir báða aðila. Af hverju getur það ekki gengið hér á landi líka?“ segir Eygló Harðardóttir að lokum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur