Laugardagur 15.08.2015 - 19:13 - 8 ummæli

Að byggja sjálf?

„Þetta var hvítt, gamalt hús, alls ekki stórt með grænum samskeytum á hornunum og grænum hurðum og grænu túni umhverfis og þar uxu sjöstjörnur og steinbrjótar og fagurfíflar í grasinu.  Sýrenur og kirsuberjatré voru þar líka og uxu villt og utan um allt þetta reis steinveggur, lágur, grár múrveggur, vaxinn litríkum blómum.“  (Astrid Lindgren)

Þetta var lengi vel draumahúsið, – Riddaragarðurinn þar sem bræðurnir Ljónshjarta bjuggu í Kirsuberjadalnum.

broderna_lejonhjarta

Eftir heimsókn nýlega til Færeyja varð þó smá breyting á.  Núna er draumahúsið svart, með grænum samskeytum og grænum hurðum, og að sjálfsögðu grænu torfþaki.

Faereyjar_hus

Hins vegar hefur þessi draumur um minn eiginn Riddaragarð alltaf verið fjarlægur, bæði mér og ég held fjölmörgum öðrum.

Allavega á höfuðborgarsvæðinu.  Því til að byggja hús, þarf ekki bara pening heldur einnig lóð og líkt og ýmsir sveitastjórnarmenn hafa bent á hafa lóðir bæði verið fáar og dýrar.

Þessu til staðfestingar settist ég eitt rigningarkvöld niður og fletti upp lóðum á höfuðborgarsvæðinu á fasteignavef Morgunblaðsins.  Í leitarvélinni komu upp 601 lóð (bæði fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði).  Þær ódýrustu voru í Hvalfirðinum á skipulögðu sumarbústaðarlandi á hálfa milljón króna en ódýrustu einbýlishúsalóðirnar virtust vera í Mosfellsbænum þar sem upphafsverðið var í kringum 4 milljónir króna.  Þar virtust þær einnig vera flestar.

Í Reykjavík fannst 71 lóð, þar af sú ódýrasta á 7,9 milljónir króna við Iðunnarbrunn í Úlfarsárdalnum.  Í Hafnarfirði fundust 50 lóðir og ódýrasta einbýlishúsalóðin var auglýst á tæpar 12 milljónir króna.

Úrvalið virtist þannig ekki vera mikið og verðið að lágmarki 4 milljónir króna, en ekki ólíklegt að verðmiðinn væri fljótt kominn upp í 8-12 milljónir króna fyrir einbýlishúsalóð.

En hvað með húsið sjálft?

Ég hef oft nefnt drauminn minn um húsnæði undir 300 þúsund krónum fermetrinn og ýmsir talið hann ansi fjarri lagi.  Það væri varla hægt að fá litla íbúð undir 30 milljónum króna hvað þá heilt einbýlishús.

Þökk sé öðru rigningarkvöldi rakst ég á vefsíðu Fiskarhedenvillan sem framleiðir og selur forsmíðuð einingarhús á Norðurlöndunum og í Rússlandi.  Ódýrustu húsin kosta 659.000 SEK eða tæpar 11 milljónir króna með nánast öllu inniföldu, þar með talið raftækjum. Fiskarhedanvillan_pallur

Verð væri þá frá 15 milljónum króna að lágmarki plús flutningskostnaður, kostnaðurinn við grunninn, lagnir, rafmagn og svo öll vinnan við bygginguna.

Untitled
Sälen (112 fm2) á tæpar 14 milljónir króna með þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum eða 125 þúsund krónur/fermetrinn er ansi nærri draumnum. Hér má sjá nánari upplýsingar um hvað er innifalið.

Kannski væri jafnvel hægt að byggja upp svona hverfi?

Faereysk_gata

Er þetta hægt?  Gaman væri að heyra frá lesendum hvort þeir hafi sjálfir byggt sitt eigið heimili og hvað það hafi kostað.  Hvort það hafi verið frá grunni eða forsmíðað?

Hér eru síður með fleiri norrænum framleiðendum á forsmíðuðum húsum:

PS: Ég þekki ekki til þessara fyrirtækja, annað en það sem kemur fram á vefsíðum þeirra, og veit ekki til þess að þau tengist mér persónulega eða Framsóknarflokknum.

PSS: Unnið er að tillögu til úrbóta á húsnæðismarkaðnum samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga.  Hér má finna þær tillögur, þar á meðal stofnframlög til byggingar allt að 2300 leiguíbúða, aukinn húsnæðisstuðningur við efnaminni fjölskyldur, varanlegt fyrirkomulag húsnæðissparnaðar fyrir fyrstu kaupendur, endurskoðun á byggingarreglugerðinni, breytt greiðslumat o.fl.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Nú virðist markmiðið vera að aðeins fyrirtæki byggi hús til sölu á markaði.
    Klára þarf húsin að utan og ganga frá garðinum á mjög skömmum tíma. Það getur verið erfitt fyrir efnalitla einstaklinga sem væru að hugsa um fyrsta hús fyrir sig og fjölskyldu sína.

    Þétt bygging lítilla húsa á að vera hægt að koma inn í skipulag og reyna þá að hafa lóðirnar ódýrar.

  • Gundvallaratriði þegar fólk velur sér samastað eru samgöngur. Við erum fremur frumstæð í þeim efnum enn sem komið er.

    Kominn vel á sjötugsaldur þá hef ég alltaf byggt og geri enn. Það hefur borgað sig margfalt.

    Til þess að fólk bjargi sér sjálft hvað varðar húsnæði þá þarf menntakerfið að stuðla að nauðsynlegir þekkingu fólks í þeim efnum.

  • Á áttunda áratug síðustu aldar voru framleiðendum einingahúsa á Íslandi veitt sú fyrirgreiðsla að húsbyggjendum sem reistu slík hús var veitt húsnæðislán með meiri hraða en ef þeir byggðu á hefðbundinn íslenskan hátt. Meðan þessi fyrirgreiðsla var fyrir hendi lifðu einingahúsaframleiðendur vel af. En auðvitað, eins og með góðar reglur á Íslandi, var fyrirgreiðslan aflögð og flestar einingahúsaverksmiðjurnar fóru á hausinn. Reglan um skyldusparnað var líka lögð af, en hún hjálpaði einmitt mörgum ungum húsbyggjendum með fjármögnunina.
    Á þessu tíma (1984) reistum við einingahús ca 200 fermetra. Íslensku húsin voru ekki eins mikið forunnin eins og erlend einingahús, má segja að þegar þau voru afhent þá voru þau tilbúin undir tréverk. Einingahúsið kostaði 1.600 þús. og þegar við gátum flutt inn var heildarkostnaðurinn um 4.500 þús. (þá var reyndar ýmislegt eftir að gera eins og fullkoomin gólfefni og lóð var ófrágengin (en það kom náttúrulega með tímanum). Lætur nærri að verð einingahússins hafi verið 35% af „heildinni“.

  • Bjarnveig

    Í fljótu bragði sýnist mér að þessi hús sem þú bendir á, myndu aldrei vera samþykkt á Íslandi, uppfylla ekki skilyrði byggingarreglugerðar um geymslu og fleira.
    En það er reyndar ekki byggingarkostnaðurinn sem er aðalvandamálið á Íslandi, heldur vextirnir, ja nema ef maður á pening til að greiða allt út í hönd án lána.
    Ég sjálf vildi gjarnan geta keypt mér nett hús/íbúð, án stórrar geymslu og fleiri tilgangslausra rýma, en þannig er ekki í boði hérlendis.

  • Gróf kostnaðaráætlun: 15 millj efnið

    flutningskostnaður 1 milljon

    vsk 3,84 millj.

    15 millj vinnan,

    11 milljónir lóðin-

    Hiti,raf,frárennsli og grunnur er um 7 millj.

    Opinber gjöld s.s skipulagsgjald osfr. eru um 2 millj.

    þá kostar þetta hús um 55 milljónir upp komið á höfuðborgarsvæðinu.

    Allur kostnaður við lóðafrágang er ekki í þessar tölu.

  • Íslendingar hafa þróað með sér húsamenningu sem er mjög fjandsamleg fjöldaframleiddum húsum. Heilu hverfin eru með skilmála um þakhalla, efni ytra byrðis. Hversu margir bílskúrar o.s.f. Miklu nær væri að reglur væru almennari og snéru að öryggi, heils og umhverfisþáttum s.s. einangrunargildi. Fólk gæri svo byggt það hús sem það vildi innan rammans og notað þau efni sem það vildi, haft glugga þar sem það vildi, einn, tvo þrjá eða bara engan bílskúr. Það kemur í raun engum við hvað er í húsinu svo lengi sem ytri ramminn og hæðar takmörkun er virt. Viltu byggja eina hæð, tvær, kassa eða bogaþök.

    Eins á fólk að geta notað staðlaðar teikningar frá framleiðanda varðandi grunn, burðaþol o.s.f. Það er engin þörf á að skapa vinnu og aukakostnað fyrir íslenska verkfræðinga. Það á alveg að geta verið í höndum úttektarmanna eins og í Bandaríkjunum hvort frágangur sé samkvæmt reglugerð.

    Málið er í raun mjög einfalt. Það eru allt of margir hagsmunahópar á móti því að lækka byggingarkostnað…..

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Sæl Eygló. Það er ótrúlegt hvað hægt er að selja tilverurétt og húsnæði háu verði hér á landi, af einstaklingum og fyrirtækjum sem ekki eiga meiri rétt en aðrir á að fá að lifa á jörðinni. Grunnþarfir eru meðal annars að hafa húsaskjól, í ísköldu landi.

    Hvernig er hægt að selja fólk út á götu, og ofan í líkkisturnar, vegna siðblindrar græðgi og samfélagsábyrgðarskorts? Ég spyr bankaráðsforingja að þessu?

    Að sjálfsögðu á fólk að geta byggt sér skjól fyrir veðri og vindum á sem ódýrastan hátt hér á landi og annarsstaðar í veröldinni. Og fjöldaframleidd einingarhús eru að sjálfsögðu ódýrari en sérsmíðaðir steypukubbaldar, sem enda á sölusíðum fasteignasala, eftir að bankar hafa rænt þeim af almenningi!

    M.b.kv.

  • Ragnhildur

    Rakst á þenna póst nú um ári eftir að hann er ritaður. Fagna því að húsnæðismálaráðherra hafi velt upp þessum kosti og vona að greidd verði gata slíkra bygginga sem bæði ættu að geta lækkað byggingakostnað og aukið fjölbreytileika í nýjum hverfum sem víða búa yfir einsleitum húsum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur