Laugardagur 22.08.2015 - 15:16 - 1 ummæli

Rauðmáluð timburhús

Eiginmaður minn ólst upp í rauðmáluðu timburhúsi í Keilufellinu í Efra-Breiðholti. Flestar af hans bestu æskuminningum tengjast þessu húsi og hverfinu sem það stóð í.  Hversu notalegt það var að vakna við hljóðið í regndropunum sem dundu á bárujárnsþakinu, litla grenitréð sem þeir bræðurnir tóku toppinn af í badminton, en gnæfir nú yfir húsið og notalega eldhúsið þar sem graslaukur og annað grænmeti úr matjurtagarðinum léku stórt hlutverk í matargerð sex manna fjölskyldunnar.

Fyrir stuttu röltum við um hverfið þar sem húsin standa enn, sum hver óbreytt en önnur mikið endurnýjuð.

IMG_1435

Timburhúsin í Keilufellinu eru viðlagasjóðshús sem voru byggð til að mæta miklum húsnæðisvanda Eyjamanna eftir að eldgos hófst í Heimaey 1973. Þegar yfir lauk hafði Viðlagasjóður reist rúmlega 550 hús á meira en tuttugu stöðum á landinu. Nærri 500 þessara húsa voru varanleg, en einnig var 60 bráðabirgðahúsum komið upp.

IMG_1433

Um var að ræða einingahús, forsmíðuð erlendis, en hér heima þurfti að hanna grunna, ganga frá lögnum og setja húsin upp.  Húsin komu flest frá Norðurlöndunum og svo Kanada. Þar af voru 40 hús byggð í Reykjavík og komu þau frá sænska framleiðandanum BPA.  Fyrst um sinn leigði Viðlagasjóður húsin til íbúanna en árið 1977 hafði sjóðurinn selt nær öll húsin eftir að margir Eyjamenn snéru aftur til Vestmannaeyja.

IMG_1420

Mikil vinna fór í að kanna hvort húsin stæðust íslenskar byggingareglugerðir, sem reyndust strangari en í framleiðslulöndunum.  Aðstæður hér á landi kölluðu líka á breytingar á mörgum húsanna, auk þess að einhver vandamál komu upp  í sumum húsanna sem tengdust lóðafrágangi og leka.

IMG_1417

Húsin í Keilufellinu voru tví- eða þrílyft með opnu bílskýli, svipuð því sem ég hef séð víðast hvar á Norðurlöndunum.  Minni húsin voru um 140 fm2 og þau stærri um 200 fm2.

IMG_1428

Nú 40 árum seinna skilst mér að þessi hús séu vinsæl í endursölu og besta er að verðið er undir 300 þúsund krónum fermetrinn.

PS. Hér má finna yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga um húsnæðismál þar sem gert er ráð fyrir byggingu allt að 2300 leiguíbúða á næstu fjórum árum með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Úthlutun stofnframlaga mun hefjast um áramótin samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar.  Einnig munum við auðvelda ungu fólki að kaupa húsnæði og tryggja að byggingar verði sem hagkvæmastar með auknu lóðaframboði og breyttum skipulagsferlum.

Yfirlýsingin byggir á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og er unnið áfram að frekari útfærslum á þeim. Skýrslu verkefnisstjórnarinnar má nálgast hér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anna Sigríður Guðmundsdóttir

    Sæl Eygló. Gaman að lesa þessa ágætu grein :).

    Fyrst þegar ég heyrði tala um viðlagasjóðshús, var þegar Elías Þórðarson (maður sem ég var ráðskona hjá þegar ég var 20 ára á Patreksfirði), fékk viðlagasjóðshús til að búa í, eftir snjófloð á Patró. Held að það hús hafi komið frá Eyjum, en er ekki viss um að það sé rétt munað hjá mér.

    Þetta voru svo sannarlega alveg ágætis mannabústaðir, og ekkert út á það að setja.

    Það varð að bjarga fólki með mannabústað í hamfaraástandi og neyð!

    Það verður líka að bjarga fólki með mannabústaði í dag, árið 2015!

    Ég stend með þér í þessari erfiðu baráttu með húsnæðismálin Eygló mín. Eg skil og skynja að þu vilt raunverulega gera eitthvað í þessum málum . Það eru einhverjir aðrir sem reyna að hindra þig í þessum nauðsynlegu verkum.

    M.b.kv.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur