Mánudagur 24.08.2015 - 15:07 - 3 ummæli

Byggjum 2300 leiguíbúðir

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Í sumar hefur verið unnið að frumvörpum og fjármögnun þessara loforða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og hlutaðeigandi ráðuneyta enda yfirlýsing stjórnvalda ein lykilforsenda langtíma kjarasamninga á vinnumarkaði.

Átak í uppbyggingu íbúða skiptir miklu máli núna, enda var góð samstaða um það og er gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu, líkt og fjármálaráðherra upplýsti í nýlegu Morgunblaðsviðtali og mun stuðla að stöðugleika til framtíðar.

Karens-Minde

Hvernig væri svona leiguíbúð?

Bygging íbúðanna verður fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30% af stofnkostnaði.  Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga auk aukins stuðnings með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 á að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum.  Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið.  Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

BB_2

Eða svona?

Ríkisstjórnin hefur einnig skuldbundið sig til að styðja við almenna leigumarkaðinn með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumörk verða hækkuð með hliðsjón af þeim tillögum sem komnar eru fram.  Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.  Skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður einnig breytt til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða á almenna leigumarkaðnum.

BB_3

Þessar munu rísa í Nordhavn í Kaupmannahöfn og verða tilbúnar árið 2018.

Gert er ráð fyrir að stofnframlög verði skilyrt þannig að þeir lögaðilar einir geti sótt um stofnframlög sem hyggja á rekstur með félagsleg markmið að leiðarljósi.  Þeir lögaðilar sem munu geta sótt um stofnframlög verða ekki rekin í hagnaðarskyni, og geta verið sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög eða hlutafélög.

Ofangreindar lausnir tryggja meira öryggi í húsnæðismálum og eru unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Nánari upplýsingar:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þetta hljómar vel í grunninn, og hefur í raun vantað síðan gamla „verkamannkerfið“ var lagt af. Ég var sjálfur að vinna í síðasta hverfinu sem Reykjavíkurborg byggði við Álfa-og Dísarborgi í Grafavogi árið 1996.
    Þar var hægt að byggja plain íbúðir á um 60% af kostnaði miðað aðrar nýbyggingar. Það byggði á teymi byggingamanna sem höfðu unnið saman í tuttugu ár, og voru enn að nota sömu steypumótin og krana sem notaðir voru í Fellahverfinu fyrst árið 1971-5.

    Það þarf að raðsmíða heilu hverfin til þess að hægt sé að ná kostnaði svona niður, en það þarf ekki endilega að þýða einsleitt hverfi ef góður hönnuður er fengin til verksins.

  • Guðmundur Guðmundsson

    http://kvennabladid.is/wp-content/uploads/2015/02/10956071_808261232560864_136488274_n.jpg

    Hvað í auglýsingunni hér að ofan er skáldskapur?

    Flestir sem þekkja til íslenskra húsnæðismála afgreiða auglýsinguna að ofan sem skáldskap og fjarstæðu. Eini skáldskapurinn í auglýsingunni er nafn leigufyrirtækisins og persónan sem vísað er til. Verðið og íbúðirnar eru hins vegar enginn skáldskapur.

    Upplýsingarnar eru fengnar frá heimasíðu Hultsfred Bostader í Smálöndum Svíþjóðar, steinsnar frá heimaslóðum Emils í Lönneberga.

    Hultsfred bostader er dæmigert sænskt leigufélag í eigu viðkomandi sveitarfélags sem á og rekur leiguíbúðir sem þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Sveitarfélagið leggur þegnum sínum þessa þjónustu til á kostnaðarverði, rétt eins og aðrar lífsnauðsynjar á borð við vatn, orku, vegi, skóla o.s.frv.

    Íbúðirnar standa öllum til boða, óháð tekjum eða þjóðfélagsstöðu. Í þeim býr þverskurður samfélagsins og þeir sem vilja geta búið í viðkomandi íbúð alla ævi ef það hentar.

    Uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, og innifalið í leigu er allt viðhald á eðlilegu sliti, snjómokstur, sláttur á grasi og þar fram eftir götunum. Íbúðir þessar eru mjög vel hannaðar og fermetrar nýtast mjög vel.

    Hluti af íbúðunum er frá milljónaverkefninu (s. miljonprogrammet) sænska frá árunum 1965 til 1975 þegar byggðar voru yfir milljón leiguíbúðir um alla Svíþjóð.

    Milljónaverkefnið var þverpólitískt átak til að stemma stigu við þáverandi ófremdarástandi á sænskum húsnæðismarkaði.

    Allar götur síðan hefur sænskur almenningur búið að þessu framsýna framtaki.

    Hultsfred bostader er gott dæmi um það.

  • Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn ætlað 50 ára og eldri; ekki rekið með gróðasjónarmið að leiðarljósi er nú í greiðslustöðvun og unnið að nauðasamningi.
    1) Félagsmálaráðherra vinnur nú að átaki í húsnæðismálum m.a. með frumvörpum um félagslegt húsnæði. Búmannskerfið er í þeim anda og má gera ráð fyrir því, að félagsmálaráðherra sé hliðhollur því kerfi?
    2) Ef svo er hlýtur félagsmálaráðherra að nýta styrk sinn og valdheimildir til þess að hjálpa félaginu út úr þeim vanda sem það glímir við þessa stundina; tvö þúsund eldri borgarar eiga allt undir því að vel takist til.
    3) Nauðasamningurinn sem nú er í undirbúningi beinist fyrst og fremst að Íbúðalánasjóði sem er ríkisstofnun (þó sjálfstæð sé) og enginn vafi, að öflugur félagsmálaráðherra getur haft þar veruleg jákvæð áhrif fyrir Búmenn ef vilji er fyrir hendi. Er hann til staðar?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur