Fimmtudagur 03.09.2015 - 07:36 - Rita ummæli

Flóttamenn: Staðan í dag

Ég vil nota tækifærið og segja ykkur aðeins frá því sem hefur gerst í vikunni.  Forsætisráðherra skipaði ráðherranefnd á þriðjudaginn um málefni flóttamanna og innflytjenda.  Ásamt honum eiga fast sæti í nefndinni fjármálaráðherra, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og ég, auk þess að menntamálaráðherra mun koma inn vegna fræðslu- og skólamála og heilbrigðisráðherra vegna heilbrigðisþjónustu.  Aðrar ráðherra munu jafnframt geta tekið sæti ef þess þarf.  Sérfræðingahópur ráðherranefndarinnar hefur þegar fundað og nefndin mun hittast í fyrsta sinn á morgun.

Í velferðarráðuneytinu höfum við haft samband við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og upplýst um áhuga okkar á að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi.  Stofnunin hefur bent á að vandinn sé mestur í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum Sýrlands og þá sérstaklega Líbanon og brýnast að taka við flóttamönnum þaðan.  Við höfum jafnframt sett á fót verkefnisstjórn innan ráðuneytisins sem fundar daglega til að standa vel að verkefninu.

Hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið opið hús í gær og fyrradag þar sem fjöldi fólks kom til að fylgja eftir umsókn sinni um að gerast sjálfboðaliðar.  Víða um land eru deildir Rauða krossins að hafa samband við fólk á sínu svæði.  Áberandi var hversu opið fólkið var fyrir að taka þátt í hinum ýmsu velferðarverkefnum hjá Rauða krossinum, bæði aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur en við aðra bágstadda á borð við aldraða, fatlað fólk og fanga.  Rauði krossinn vinnur einnig úr hinum fjölmörgu boðum um aðra aðstoð sem borist hafa þeim beint.

Hinir flottu aðstandendur Facebook viðburðarins „Kæra Eygló – Sýrland kallar“ hafa sett upp aðfangaskráningarsíðu, þar sem fólk er hvatt til að skrásetja frjáls framlög til að geta tekið á móti flóttamönnum og verða gögnin afhent Rauða krossinum 7. september.  Þau benda einnig á söfnun Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og að hægt er að styrkja Rauða krossinn með fjárframlögum.

Hér má finna aðfangaskráninguna.

Nokkuð hefur verið um fyrirspurnir vegna kostnaðar við móttöku flóttamanna.  Það flækir svörin töluvert að um er að ræða nokkrar leiðir til móttöku flóttamanna.  Í Fréttablaðinu í dag er ágætis umfjöllun um hvernig við í velferðarráðuneytinu höfum staðið að þessu hingað til við móttöku kvótaflóttamanna.  Aðrar reglur hafa gilt um hælisleitendur og um fjölskyldusameiningar.

Þessu til viðbótar höfum við verið að fara yfir hina ýmsu tölvupósta og símtöl sem hafa borist okkur, svara fjölmiðlum og sinna fjölmörgum öðrum verkefnum í aðdraganda þingsetningarinnar sem verður næsta þriðjudag.  Ef ég hef enn ekki komist til að svara ykkur beint, þá vona ég að tími gefist til þess í dag eða á morgun.

Að lokum vil ég enn á ný ítreka þakkir mínar. Góðvild ykkar og vilji til að hjálpa hefur snert mig djúpt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur